Farsæld barna

Farsæld barna eða samþætting þjónustu í þágu farsældar barna eru lög sem öll sveitarfélög, stofnanir og þjónustuveitendur sem vinna með börnum og ungmennum á landinu taka þátt í.

Hvert og eitt sveitarfélag þróar sitt verklag. Verkefnið er byggt á lögum sem eru gjarnan kölluð farsældarlögin eða lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Markmiðið með lögum um samþætta þjónustu er að bæta enn frekar þjónustu við börn og fjölskyldur með því að stuðla að samvinnu og samstarfi þjónustuveitenda barna og fjölskyldna.

Með því að tengja þjónustuna saman og vinna í sameiningu að farsæld barna (að samþætta þjónustuna) verður auðveldara fyrir börn og foreldra að fá aðstoð við hæfi.

Nálgast má nánari upplýsingar á vef Farsældar barna, einnig eru þar skýringar á hugtökum

 

Almennt um samþættingu í þágu farsældar barna

Hvað er samþætting þjónustu í þágu farsældar barna?

Það er skipulögð og samfelld þjónusta sem hefur það að markmiði að stuðla að farsæld barns og er veitt af þeim þjónustuveitendum sem eru best til þess fallnir að mæta þörfum barns hverju sinni.

Samþætting þjónustu snýst því um að eiga náið samstarf milli foreldra, barna, skóla og annarra sem veita barni og fjölskyldu þjónustu.

Hverjir geta nýtt sér samþætta þjónustu?

Öll börn og fjölskyldur geta nýtt sér samþætta þjónustu í þágu farsældar barna þegar þörf er á að samþætta þjónustu frá ólíkum þjónustuveitendum.

Foreldrar geta óskað eftir því að samþætta þjónustu frá ólíkum þjónustuveitendum

Hvað er tengiliður farsældar?

Tengiliður farsældar skal vera aðgengilegur öllum börnum og foreldrum.

Tengiliður farsældar hefur viðeigandi þekkingu til að vera innan handar og aðstoða við að sækja viðeigandi þjónustu við hæfi. Þannig geta foreldrar og börn leitað til eins aðila sem hefur yfirsýn yfir allt þjónustukerfið.

Tengiliður farsældar er starfsmaður sveitarfélags og/eða ríkis og er staðsettur á mismunandi stöðum eftir æviskeiði barns.

  • Frá meðgöngu að leikskólagöngu barns er tengiliður farsældar starfsmaður í heilsugæslu.
  • Á leik-, grunn- og framhaldsskólaaldri (upp að 18 ára aldri) er tengiliður farsældar starfsmaður skóla.
  • Börn sem á einhvern hátt falla á milli ofangreindra þjónustukerfa hafa aðgang að tengilið hjá félagsþjónustu Reykjanesbæjar, í barna- og fjölskylduteymi.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar á vef Farsældar barna.

Hvar get ég nálgast tengilið fyrir barnið mitt og fjölskylduna?

Tengiliður farsældar er starfsmaður sveitarfélags og/eða ríkis og er staðsettur á mismunandi stöðum eftir æviskeiði barns.

  • Frá meðgöngu að leikskólagöngu barns er tengiliður farsældar starfsmaður í heilsugæslu.
  • Á leik-, grunn- og framhaldsskólaaldri (upp að 18 ára aldri) er tengiliður farsældar starfsmaður skóla.
  • Börn sem á einhvern hátt falla á milli ofangreindra þjónustukerfa hafa aðgang að tengilið hjá félagsþjónustu Reykjanesbæjar, í barna- og fjölskylduteymi.

Upplýsingar um tengiliði farsældar í leik-, grunn og framhaldsskólum í Reykjanesbæ og á heilbrigðisstofnunum á Suðurnesjum má nálgast hér.

 

Hvað er málstjóri farsældar?

Málstjórar farsældar í Reykjanesbæ eru ráðgjafar barna- og fjölskylduteymis og ráðgjafar barnaverndarþjónustu á velferðarsviði.

Ef það liggur fyrir beiðni foreldra og/eða barns um samþættingu þjónustu og ástæða er til að ætla að barn þurfi fjölþætta þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi er tilnefndur málstjóri farsældar.

Hlutverk málstjóra farsældar er meðal annars að veita ráðgjöf og upplýsingar um þjónustu og aðstoða við að tryggja aðgang að mati og/eða greiningu á þörfum barns.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar á vef Farsældar barna

Hvað er stuðningsteymi?

Þegar mál er í samþættingu þjónustu á öðru eða þriðja stigi er myndað stuðningsteymi.

Í stuðningsteymi sitja þjónustuveitendur sem hafa hlutverk gagnvart barni og fjölskyldu.

Málstjórar farsældar halda utan um stuðningsteymi og boða til funda teymisins.

Foreldrar og barn (ef við á) eru hluti af stuðningsteyminu, sitja fundi þess og taka þátt í gerð stuðningsáætlunar.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar á vef Farsældar barna

Hvað er stuðningsáætlun?

‍Stuðningsteymi gerir í sameiningu skriflega stuðningsáætlun fyrir barnið þar sem þjónusta sem er veitt í þágu farsældar barnsins er samþætt.

Stuðningsteymið hefur reglubundna samvinnu um framkvæmd stuðningsáætlunar í þann tíma sem áætlunin nær yfir.

  • Stuðningsáætlun ber að endurmeta og endurnýja eftir því sem þörf krefur.

Stuðningsteymi getur einnig lokað máli eða vísað að nýju til tengiliðar á 1. stigi ef og þegar viðunandi árangri er náð og ekki er lengur þörf fyrir þjónustu á 2. eða 3. stigi.

Áður en barn verður 18 ára skal stuðningsteymi gera áætlun þar sem fjallað er um samþættingu þjónustu fyrir barnið eftir að það nær fullorðinsaldri.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar á vef Farsældar barna

 

Stigskipting þjónustu

Hvað er stigskipting þjónustu?

Þjónusta fyrir börn er veitt á þremur þjónustustigum.

Gott er að hafa í huga að sú þjónusta sem barnið fær er stigskipt, en ekki mál barnsins sem slíkt.

  • Þannig geta börn fengið þjónustu á fleiri en einu þjónustustigi.

Markmiðið er að sem flest börn fái viðeigandi þjónustu á 1. stigi og að þjónusta þess stigs sé það öflug að færri börn þurfi þá umfangsmiklu þjónustu sem á sér stað á 2. og 3. stigi.

Nánari upplýsingar um hvert þjónustustig hér að neðan.

Nálgast má nánari upplýsingar á vef Farsældar barna.

Hvað er 1. stigs þjónusta?

Fyrsta stigið skiptist í tvö undirstig; 1) grunnþjónustu og 2) fyrsta stigs þjónustu.

Grunnþjónusta er aðgengileg öllum börnum í ungbarnavernd, leik-, grunn- og framhaldsskólum. Grunnþjónustan skiptir miklu máli fyrir farsæld barna og með því að grípa snemma inn í getum við komið í veg fyrir ýmiss konar erfiðleika síðar meir.

  • Dæmi um góða grunnþjónustu er að leggja áherslu á forvarnir, aðgerðir gegn einelti og ofbeldi og aðgerðir sem styðja við jákvæðan skólabrag.

Fyrsta stigs þjónustu tilheyrir einstaklingsbundinn og snemmtækur stuðningur sem hefur það að markmiði að styðja við farsæld barns. Hér er um að ræða þjónustu umfram grunnþjónustu.

  • Það er stuðningur við börn sem glíma við vægan vanda og stuðningsaðgerðir sem koma í veg fyrir að vandinn aukist og vaxi.
  • Þar má nefna sem dæmi námsörðugleika, hegðunarvanda barns, afleiðingar eineltis og annarra áfalla eða minniháttar heilsufars vandi.

Nálgast má nánari upplýsingar á vef Farsældar barna.

Hvað er 2. stigs þjónusta?

Á öðru stigi er veittur einstaklingsbundinn og markvissari stuðningur en sá sem veittur er á fyrsta stigi.

Til að tryggja farsæld barns eru úrræðin sérhæfðari og þjónustan fjölbreyttari.

Þjónusta á öðru stigi er veitt þegar úrræði á fyrsta stigi duga ekki til eða hafa ekki borið tilætlaðan árangur.

  • Þörfin fyrir þjónustu á öðru stigi getur til dæmis verið tilkomin af heilsufarslegum, félags­egum eða námslegum aðstæðum.
  • Má þar nefna sem dæmi sérdeildir eða starfsbrautir í skólum og ýmsa stuðningsþjónustu á vegum félags- og skólaþjónustu.

Nálgast má nánari upplýsingar á vef Farsældar barna.

Hvað er 3. stigs þjónusta?

Á þriðja stigi er veittur sérhæfðari stuðningur til að tryggja að farsæld barns verði ekki hætta búin.

Barn sem nýtur þjónustu á þessu stigi hefur að jafnaði flókinn og fjölþættan vanda og mikla umönnunarþörf.

Barnið er þá í aðstæðum þar sem skortur á viðeigandi stuðningi og úrræðum getur haft alvarlegar afleiðingar og ógnað heilsu þess og þroska.

  • Má þar nefna sem dæmi vistunarúrræði á grundvalli barnaverndarlaga, umfangsmikinn og fjölþættan stuðning við fötluð börn og langvarandi sjúkrahúsdvöl barna.

Nálgast má nánari upplýsingar á vef Farsældar barna.

Er hægt að samþætta þjónustu á 1. stigi?

Já, það er hægt. Eftir samtal tengiliðs farsældar við foreldra þar sem talin er þörf fyrir samþættingu þjónustu á 1. stigi þjónustu.

Þá skal tengiliður farsældar aðstoða foreldra við að óska eftir samþættingu þjónustu.

  • Það er gert með því að fylla út eyðublaðið Beiðni um samþættingu.
  • Tengiliður aðstoðar foreldra við að fylla út eyðublaðið.
  • Eyðublaðið er undirritað með rafrænni undirritun.

Eftir að Beiðni um samþættingu hefur verið undirrituð, þá hefur tengiliður farsældar fengið heimild til miðlunar og öflunar upplýsingar um aðstæður barns frá þjónustuveitendum og þeim sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barns.

Getur samþætting hafist á 2. eða 3. stigi þjónustu?

Já, það er hægt.

Þegar barn og fjölskylda þess er í þjónustu hjá barna- og fjölskylduteymi eða barnaverndarþjónustu og er talin þörf á að samþætta þjónustu, þá skal ráðgjafi barna- og fjölskylduteymis eða ráðgjafi barnaverndarþjónustu aðstoða foreldra við að óska eftir samþættingu þjónustu.

  • Það er gert með því að fylla út eyðublaðið Beiðni um samþættingu.
  • Ráðgjafi aðstoðar foreldra við að fylla út eyðublaðið.
  • Eyðublaðið er undirritað með rafrænni undirritun.

Við samþættingu á þjónustu þá verður ráðgjafi að málstjóra farsældar, sem hefur fengið heimild til miðlunar og öflunar upplýsingar um aðstæður barns frá þjónustuveitendum og þeim sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barns.

 

Nánar um samþættingu þjónustu

Hvernig hefst samþætting þjónustu?

Ef þú ert foreldri sem tekur eftir og greinir vísbendingar um að þörfum barnsins þíns sé ekki mætt með fullnægjandi hætti, þá er hægt að leita til tengiliðs farsældar í nærumhverfi barnsins þíns.

  • Tengiliður býður foreldrum og barni (ef við á) í samtal, í samtalinu eru þarfir barns metnar og metið hvort þurfi að samþætta þjónustu þvert á kerfi.
  • Tengiliður farsældar leiðir foreldra og barn áfram í ferlinu.
  • Ekki er þörf að fylla út eyðublað um miðlun upplýsinga

 

Ef þú ert starfsmaður í skóla og tekur eftir og greinir vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt með fullnægjandi hætti og mögulega þurfi að veita samþætta þjónustu, þá skaltu upplýsa foreldra og barn (ef við á) um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

  • Starfsmaður í skóla eða foreldri óskar eftir samtali við tengilið farsældar í skólanum.
  • Í kjölfarið mun tengiliður farsældar bjóða foreldrum í samtal
  • Ekki er þörf á að fylla út eyðublað um miðlun upplýsinga

 

Ef þú ert þjónustuveitandi barns (ekki starfsmaður í skóla) og tekur eftir og greinir vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt með fullnægjandi hætti og mögulega þurfi mögulega frekari þjónustu en er þegar veitt, þá skaltu upplýsa foreldra og barn (ef við á) um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

  • Þjónustuveitandi upplýsir um foreldrar geti leitað til tengiliðs farsældar í nærumhverfi barns, sjá upplýsingar um hlutverk tengiliða hér að ofan.
  • Ef foreldri og/eða barn óska eftir að fá tengingu við tengilið farsældar sem starfar hjá Reykjanesbæ aðstoðar þjónustuveitandi foreldra við að fylla út eyðublaðið Beiðni um miðlun upplýsinga.
  • Eyðublaðið er rafrænt og staðfesta foreldrar samþykki sitt fyrir miðlun upplýsinga með rafrænni undirritun eyðublaðsins.
  • Að lokinni undirritun berst eyðublaðið til tengiliðs í skóla barnsins.
  • Ath. Ef tengiliður í nærumhverfi barns er á heilsugæslu eða í framhaldsskóla, þá skal þjónustuveitandi sækja Beiðni um miðlun upplýsinga á vefsíðu Barna- og fjölskyldustofu og koma henni áleiðis til tengiliðar.
  •  

(Allt starfsfólk Reykjanesbæjar hefur aðgang að verkferli samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna í gæðahandbók Reykjanesbæjar - Verklagsregluna má finna undir VRL-0045 í gæðahandbók).

Eiga öll mál þar sem barn og fjölskylda þurfa aðstoð að vera samþætt?

Nei, það þurfa ekki öll mál að vera samþætt svo barn geti fengið aðstoð og stuðning.

Í mörgum tilvikum nægir stuðningur á grunnstigi sem öll börn hafa aðgang að.

Þau börn sem þurfa frekari aðstoð og metið er sem svo að samþætting þjónustu sé í þágu farsældar barns er hægt að leggja fram beiðni þess efnis.

Sjá nánari upplýsingar undir spurningunni Hvernig hefst samþætting þjónustu?

Hvenær þarf samþættingu í máli og hvenær ekki?

Það þarf að meta í hverju tilfelli fyrir sig hvort samþætta þurfi þjónustu.

Lög um samþættingu þjónustu koma ekki í staðinn fyrir þjónustu sem þegar ber að veita, heldur eru þau ætluð sem viðbót til að greiða aðgengi barna og foreldra, tryggja heildarsýn lykilaðila og til þess að þeir sem veita þjónustu vinni saman að hagsmunum barnsins.

  • Að samþætta þjónustuna:
    • Þegar barn og fjölskylda þess er að fá þjónustu frá ólíkum þjónustuveitendum og ávinningur er að því að mynda stuðningsteymi þvert á aðilana, þá skal samþætta þjónustuna.
  • Að samþætta ekki þjónustuna:
    • Þegar barn og fjölskylda þess er að fá þjónustu frá ólíkum þjónustuveitendum og vinnsla málsins gengur vel, allir hagaðilar eru ánægðir með veitta þjónustu, og ekki er aukinn ávinningur á því að mynda stuðningsteymi þvert á aðila, þá skal ekki samþætta þjónustuna.

Það er starfandi teymi í kringum barnið mitt sem gengur vel. Þarf að óska eftir samþættri þjónustu til viðbótar?

Nei, alls ekki.

Ef það er starfrækt teymi í kringum barn og teymisvinnan og samstarfið gengur vel er óþarfi að óska eftir samþættingu þjónustu.

Hins vegar ef það koma upp hnökrar í samstarfinu og erfiðleikar með samvinnu á milli ólíkra kerfa er tilefni til að skoða hvort samþætta þurfi þjónustu.

Hvernig getur þjónustuveitandi sem er ekki starfsmaður í skóla barnsins aðstoðað við að tengja foreldra við tengilið farsældar í nærumhverfi þess?

Ef þjónustuveitandi í nærumhverfi barns (ekki starfsmaður í skóla) tekur eftir og greinir vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt með fullnægjandi hætti og að barnið þurfi mögulega frekari þjónustu en þegar er veitt skal hann veita foreldri og/eða barni upplýsingar um samþætta þjónustu.

Þjónustuveitandi upplýsir foreldra um að þau geti leitað til tengiliðs farsældar í nærumhverfi barns, sjá upplýsingar um hlutverk tengiliða hér að ofan.

Ef foreldri og/eða barn óska eftir að fá tengingu við tengilið farsældar sem starfar hjá Reykjanesbæ aðstoðar þjónustuaðilinn foreldri við að fylla út eyðublaðið Beiðni um miðlun upplýsinga.

  • Eyðublaðið er rafrænt og staðfesta foreldrar samþykki sitt fyrir miðlun upplýsinga með rafrænni undirritun eyðublaðsins.
  • Að lokinni undirritun berst eyðublaðið til tengiliðs í skóla barnsins.

Ef tengiliður í nærumhverfi barns er á heilsugæslu eða í framhaldsskóla, þá skal þjónustuveitandi sækja Beiðni um miðlun upplýsinga á vefsíðu Barna- og fjölskyldustofu og koma henni áleiðis til tengiliðar.

Hvernig getur starfsmaður skóla komið foreldrum í samband við tengilið farsældar?

Ef starfsmaður í skóla tekur eftir og greinir vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt með fullnægjandi hætti og að mögulega þurfi að samþætta þjónustu skal hann veita foreldri og/eða barni upplýsingar um samþætta þjónustu í þágu farsældar barns.

  • Ekki er þörf á að fylla út eyðublað um miðlun upplýsinga

Tengiliður farsældar í skóla fær upplýsingar frá foreldri eða starfsmanni í skóla um að foreldri og/eða barn óski eftir samtali við hann vegna þjónustu í þágu farsældar barns.

  • Tengiliður farsældar óskar eftir samtali við foreldra og barn (ef við á) eins fljótt og hægt er.

Hvað gerir tengiliður farsældar eftir að hann hefur fengið beiðni um að hitta foreldra?

Tengiliður farsældar býður foreldrum í samtal til að meta hvort þörf sé á samþættingu þjónustu.

  • Þegar beiðni um samþættingu þjónustu liggur fyrir getur tengiliður hafist handa við að samþætta þjónustu í þágu farsældar barns.

Hlutverk tengiliðar er meðal annars að meta þjónustuþörf, skipuleggja og fylgja eftir þjónustu á fyrsta stigi.

  • Þá kemur tengiliður upplýsingum til sveitarfélags ef þörf þykir á tilnefningu málstjóra. Einnig getur hann tekið þátt í vinnu stuðningsteymis eftir því sem við á.

Hvað gerist eftir að tengiliður farsældar metur að þörf sé á samþættingu þjónustu?

Ef það er þörf fyrir samþættingu þjónustu á 1. stigi skal tengiliður farsældar aðstoða foreldra við að óska eftir samþættingu þjónustu.

  • Það er gert með því að fylla út eyðublaðið Beiðni um samþættingu í samstarfi við tengilið farsældar.
  • Tengiliður aðstoðar foreldra við að fylla út eyðublaðið.
  • Eyðublaðið er undirritað með rafrænni undirritun.

Eftir að Beiðni um samþættingu hefur verið undirrituð, þá hefur tengiliður farsældar fengið heimild til miðlunar og öflunar upplýsingar um aðstæður barns frá þjónustuveitendum og þeim sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barns.

Tengiliður farsældar setur sig í samband við þjónustuveitendur og heldur foreldrum upplýstum.

Hvað gerist ef barnið mitt þarf einstaklingsmiðaðan stuðning en ég vil ekki þiggja samþætta þjónustu?

Samþætting þjónustu er í boði fyrir börn og fjölskyldur þeirra en ef foreldrar vilja ekki þiggja samþætta þjónustu, þá geta þeir sótt þjónustuna sjálfir en þá er hún ekki samþætt.

Lögin koma ekki í staðinn fyrir þjónustu sem þegar ber að veita, heldur eru þau ætluð sem viðbót til að greiða aðgengi barna og foreldra, tryggja heildarsýn lykilaðila og til þess að þeir sem veita þjónustu vinni saman að hagsmunum barnsins.

 

Eyðublöð og aðrar hagnýtar upplýsingar

Um eyðublöðin

Þessi rafrænu eyðublöð skal nota þegar upplýsingar skulu berast tengilið eða málstjóra sem er starfandi hjá Reykjanesbæ.

Ekki er hægt að nota þessi rafrænu eyðublöð þegar upplýsingar skulu berast tengilið sem starfar hjá heilsugæslu eða framhaldsskóla.

Eyðublöðin eru tvö:

Beiðni um miðlun upplýsinga:

Þetta er eyðublað sem foreldri og/eða barn útfyllir í samstarfi við þjónustuveitendur utan skóla eftir að hafa fengið kynningu á samþættri þjónustu. Eyðublaðið heimilar þjónustuveitanda eða þeim sem veitir almenna þjónustu í þágu farsældar barns, að taka saman upplýsingar um aðstæður barns og miðla þeim til tengiliðar.

Beiðnin heimilar eingöngu þessa tilteknu miðlun til þessa tiltekna tengiliðar. Tengiliður hefur ekki heimild til að hafa samband við aðra þegar hann hefur móttekið upplýsingarnar, heldur skal tengiliður hafa samband við foreldra og/eða barn.

Beiðni um samþættingu þjónustu:

Þetta er eyðublað sem foreldrar og/eða barn fyllir út í samstarfi við tengilið eða málstjóra farsældar þar sem óskað er eftir að þjónusta við barn verði samþætt.

Tengiliðir/málstjórar farsældar sækja eyðublaðið í gæðahandbók Reykjanesbæjar.

Beiðnin heimilar tengiliðum, málstjórum, þjónustuveitendum og þeim sem veita þjónustu í þágu farsældar barns að vinna upplýsingar um barn til að tryggja því skipulagða og samfellda þjónustu.

Þurfa báðir foreldrar að undirrita beiðni um miðlun upplýsinga og/eða samþættingu svo samþætting geti hafist?

Í lögum um samþættingu þjónustu er ekki að finna einfalt svar við þessari spurningu.

Oft er nóg að annað foreldrið undirritar beiðni, en það verður að skoða í samhengi við önnur lög þar sem mál barnsins fellur undir, t.d. barnalög, barnaverndarlög og lög um sjúklinga.

Sumt miðast við báða foreldra og annað miðast við lögheimilisforeldra. Alltaf skal hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi.

Þarf að senda inn aðra beiðni um samþættingu þjónustu ef mál er í samþættingu en talin er þörf á samþættingu þjónustu á öðru stigi?

Nei, það þarf ekki að fylla aftur út Beiðni um samþættingu ef mál færist á milli þjónustustiga.

Núverandi beiðni gildir og er gerð aðgengileg fyrir tengilið farsældar eða málstjóri farsældar, eftir því sem við á.

Ég er ekki með rafræn skilríki, hvernig undirrita ég þá eyðublöðin?

Þá skal tengiliður farsældar eða ráðgjafi aðstoða foreldra við að undirrita eyðublöðin.

Mælt er með að sækja sér rafræn skilríki, nánari upplýsingar á Ísland.is.

Skýringar og hugtök

Á vef Farsældar barna má sjá samantekt á merkingu hugtaka sem koma fram í lögum og umræðu um farsæld barna.

Gagnlegar vefsíður

Kynningarmyndband um farsældina frá Barna- og fjölskyldustofu

Barna- og fjölskyldustofa

Farsæld barna

112.is

Geðhjálp

Ráðgjafar- og greiningarstöð

Heilsuvera

Information in English - Children‘s Prosperity

The law on Children's Prosperity in English are called Act on the Intergration of Services in the Interest of Children's Prosperity (No 86/2021)

More information on Children's Prosperity can be found in this brochure.

Fyrirspurnir og ábendingar

Senda má fyrirspurnir og ábendingar varðandi upplýsingar um farsæld barna á farsaeldbarna@reykjanesbaer.is 

Ef þú hefur spurningar eða ábendingar um einstaka mál þá skal hafa samband við tengilið farsældar í nærumhverfi barnsins eða málstjóra.