Samningur um fullnaðarfrágang leikskólans Asparlautar undirritaður

Reykjanesbær og Tindhagur undirrituðu í dag samning um fullnaðarfrágang leikskólans Asparlautar í Hlíðarhverfi. Alls bárust 4 tilboð í verkið. Eitt var dæmt ógilt en af hinum þremur reyndist verktakafyrirtækið Tindhagar hafa hagstæðasta tilboðið og áætlað er að verklokin verði þann 15. desember næstkomandi.

Leikskólinn, sem verður 6 deilda, mun þjóna 126 börnum frá 18 mánaða aldri og þar munu starfa 35 starfsmenn.

Vegna rakavandamála í leikskólanum Garðaseli hefur verið ákveðið að starfsemin hans með um 90 börn flytji til Asparlautar um áramótin og nýr leikskóli verði byggður á lóðinni á Garðaseli. Því munu 30 ný leikskólapláss bætast við með tilkomu Asparlautar.