114. fundur Menningarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 12. janúar 2017 kl. 14:00.
Viðstaddir: Ásbjörn Jónsson, Baldur Guðmundsson, Bjarki Már Viðarsson varamaður, Dagný Steinsdóttir, Kristín Gyða Njálsdóttir varamaður, Sigrún Inga Ævarsdóttir
Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi. Guðlaug María Lewis, ritaði fundargerð
1. Menningarsjóður 2017 (2017010129)
Þjónustusamningar við menningarhópa runnu út um áramótin og ráðið felur menningarfulltrúa að auglýsa eftir nýjum umsóknum. Ráðið leggur áherslu á að umsókninni fylgi að venju skýrsla um nýtingu fjármagns fyrra árs ef viðkomandi hópur hefur verið á samningi áður. Við sama tækifæri verður auglýst eftir styrkumsóknum í menningartengd verkefni. Umsóknir má finna á vef Reykjanesbæjar.
2. Hátíðahald og viðburðir 2017 (2017010130)
Menningarfulltrúi kynnti fasta dagskrárliði menningarskrifstofu á árinu 2017 en vísaði að öðru leyti í starfsáætlanir menningarstofnana sem kynntar voru á fundi ráðsins í október s.l. Nokkrar umræður sköpuðust og ljóst að margt spennandi er framundan. Ráðið vekur athygli á viðburðadagatali sem er aðgengilegt á vef Reykjanesbæjar og hvetur íbúa til að setja þar inn alla almenna viðburði í bæjarfélaginu.
3. Staða framkvæmda í Gömlu búð og Fischershúsi (2017010131)
Sviðsstjóri fór yfir stöðu framkvæmda við Gömlu búð og Fischershús og upplýsti að vinnu við ytra byrði beggja húsanna færi nú brátt að ljúka og þá yrði gert hlé á framkvæmdum í Fischershúsi í bili en farið í endurgerð innan húss í Gömlu búð. Gert er ráð fyrir að Menningarskrifstofan flytji í Gömlu búð í sumar ásamt Upplýsingamiðstöð ferðamála. Ráðið ræddi ýmsar hugmyndir um nýtingu Fischershúss þegar framkvæmdum þar yrði lokið.
4. Breytingar í anddyri á Duus Safnahúsum (2017010132)
Sviðsstjóri upplýsti að framkvæmdir við nýtt anddyri Duus Safnahúsa eru í undirbúningi og lýsti ráðið ánægju með þá ráðstöfun.
5. Önnur mál
a) Erindi SIM. Samband íslenskra myndlistarmanna býður forsvarsmönnum listasafna á landinu kynningu á mögulegum samningi um þátttöku og framlag myndlistarmanna til sýningarhalds í opinberum listasöfnum í kjölfar herferðar sem SIM hefur staðið fyrir. Lagt fram til kynningar.
b) Ráðið þakkar menningarstofnunum bæjarins fyrir öfluga dagskrá á aðventunni.
c) Fulltrúar Reykjanesbæjar undir forystu verkefnisstjóra ferðamála, munu taka þátt í Mannamótum, kynningu á ferðaþjónustu landsbyggðarinnar fyrir ferðaskrifstofur á höfuðborgarsvæðinu þann 19. janúar n.k.
Fleira ekki gert og fundi slitið. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 17. janúar 2017.