646. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Merkinesi, Hljómahöll 17. janúar 2023, kl. 17:00
Viðstaddir: Birgitta Rún Birgisdóttir, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbergur Reynisson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Margrét Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.
Að auki sátu fundinn Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.
Helga Jóhanna Oddsdóttir boðaði forföll, Birgitta Rún Birgisdóttir sat fyrir hana.
Áður en fundur hófst las forseti upp sameiginlega ályktun bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar vegna rafmagnsleysis sem varð þann 16. janúar 2023.
„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar lýsir yfir þungum áhyggjum vegna þess alvarlega ástands sem myndaðist á öllum Suðurnesjum í kjölfar þess að Suðurnesjalína sló út mánudaginn 16. janúar. Rafmagn fór strax af öllu svæðinu í rúmar 2 klukkustundir, þar sem búa um 30 þúsund manns. Í kjölfarið fór heitt vatn, bæði neysluvatn og hitaveita af. Stuttu síðar fór einnig síma- og netsamband af öllu svæðinu. Það er með öllu óviðunandi og grafalvarlegt að slíkt skuli geta gerst árið 2023.
Fulltrúi Landsnets upplýsti í fréttum að ef Suðurnesjalína 2 hefði verið komin í gagnið hefði mátt koma í veg fyrir slíkt hrun innviða. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skorar á Sveitarfélagið Voga og Landsnet að leysa strax úr ágreiningi um lagnaleiðir Suðurnesjalínu 2 og leiða það mál til lykta sem allra fyrst til að tryggja raforkuöryggi á Suðurnesjum. Bæjarstjórn skorar einnig á fyrirtæki sem veita síma- og netþjónustu til að tryggja lengri uppitíma á varaafli en raunin var í gær.“
1. Fundargerðir bæjarráðs 5. og 12. janúar 2023 (2023010005)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar.
Til máls tók Margrét A. Sanders og lagði fram eftirfarandi bókun Sjálfstæðisflokks:
Sjöunda mál frá fundargerð bæjarráðs frá 12. janúar 2023:
„Sjálfstæðisflokkurinn óskar eftir upplýsingum um sorphreinsun í Reykjanesbær fyrir jól og fram til dagsins í dag og að bæjarstjóri komi þessum spurningum á framfæri við framkvæmdastjóra Kölku.
1. Vegna óveðurs fór hreinsun sorps í Reykjanesbæ úr skorðum. Hversu mikil seinkun var á hreinsun sorps á þeim stöðum sem ekki var um ófærð að sorpílátum að ræða?
2. Er eðlilegt að það líði fjórar vikur á milli þess sem sorp er ekki tekið, á stað þar sem snjór er ekki fyrirstaða þ.e. að íbúar hafa hreinsað frá sorpílátum?
3. Hvað annað en ófærð veldur þessari miklu seinkun á sorphreinsun?“
Margrét Sanders (D), Guðbergur Reynisson (D), Birgitta Rún Birgisdóttir (D).
Fundargerðirnar samþykktar 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 1400. fundar bæjarráðs 5. janúar 2023
Fundargerð 1401. fundar bæjarráðs 12. janúar 2023
2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 13. janúar 2023 (2023010014)
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 21. desember til sérstakrar samþykktar.
Sjöunda mál fundargerðarinnar Hafnarbraut 4 - lóðarstækkun (2023010246) samþykkt 11-0 án umræðu.
Áttunda mál fundargerðarinnar Brekadalur 52 - aukið byggingarmagn (2022100216) samþykkt 11-0 án umræðu.
Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Kjartan Már Kjartansson. Fór hann yfir helstu punkta úr skýrslu umhverfis- og framkvæmdasviðs vegna fyrirspurnar sem barst frá Sjálfstæðisflokki á bæjarstjórnarfundi þann 3. janúar 2023.
Til máls tók Margrét A. Sanders og lagði fram eftirfarandi bókun Sjálfstæðisflokks:
Fyrsta mál frá fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. janúar 2023:
„Fyrir jólin 2022 skall á mikil snjókoma, meiri en hefur sést í langan tíma. Eðlilega kom þetta öllum að óvörum og voru viðbragðsaðilar ekki viðbúnir svona óvæntu óveðri.
Starfsfólk Reykjanesbæjar vann nótt við dag við hreinsun á bænum og gekk það samt ekki nægjanlega vel enda var ekki einfalt að fá vélar þegar ekki var samningur við verktaka um snjómokstur.
Sjálfstæðisflokkurinn þakkar starfsfólki sem kom að snjómokstri og vinnu í kringum hana fyrir fórnfúst starf. Auk þess þakkar Sjálfstæðisflokkurinn fyrir greinagóða skýrslu frá Umhverfis-og framkvæmdasviði um snjómokstur í Reykjanesbæ.
Þrátt fyrir framangreint lýsir Sjálfstæðisflokkurinn vonbrigðum með að ekki sé enn búið að ná tökum á snjómokstrinum, nú fjórum vikur síðar.
Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að strax verði gerður samningur við verktaka varðandi snjómokstur og að bæjarstjórn fái erindi frá Umhverfis-og skipulagsráði um aukningu fjármagns í málaflokkinn þannig að möguleiki sé á að bregðast hratt við ef þvílíka aðstæður koma upp aftur. Upplýsingar til íbúa hvernig forgangsröðun og skipulag snjómoksturs er háttað þarf að bæta. Eins væri gott að læra af þeim sveitarfélögum sem hafa verið til fyrirmyndar í þessum málum.“
Margrét Sanders (D), Guðbergur Reynisson (D), Birgitta Rún Birgisdóttir (D).
Til máls tók Bjarni Páll Tryggvason
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun:
Fyrsta mál frá fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. janúar 2023:
„Umbót tekur undir bókun sem Sjálfstæðisflokkur lagði fram varðandi fyrsta mál frá fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. janúar 2023.“
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.
Til máls tóku Guðbergur Reynisson og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 306. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 13. janúar 2023
3. Fundargerð framtíðarnefndar 11. janúar 2023 (2023010006)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.
Fundargerðin samþykkt án umræðu 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 37. fundar framtíðarnefndar 11. janúar 2023
4. Fundargerð fræðsluráðs 13. janúar 2023 (2023010009)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun:
Fimmta mál frá fundargerð fræðsluráðs frá 13. janúar 2023:
„Búið er að gefa út að allir leikskóla Reykjanesbæjar hefji sumarlokanir á sama tíma þ.e. frá 5. júlí til 9. ágúst. Í Reykjanesbæ starfa margir við ferðamannaiðnaðinn og ertu í vaktavinnu. Álagið á atvinnulífið eykst mjög mikið þegar hópur fólks þarf að hverfa frá á sama tíma. Auk þess eru margir foreldrar sem hafa ekki val hvenær sumarleyfi er tekið. Einnig eru fjöldi foreldra og barna af erlendum uppruna sem búar hér á svæðinu og margir þeirra hafa ekki stuðningsnet til að leita til. Umbót hvetur Reykjanesbæ til að endurskoða þessa ákvörðun og endurskipuleggja sumarlokanir leikskólana til framtíðar.“
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.
Til máls tóku Margrét A. Sanders og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 358. fundar fræðsluráðs 13. janúar 2023
5. Samræmd móttaka flóttafólks – endurnýjun þjónustusamnings (2022020555)
Lagður fram undirritaður þjónustusamningur dagsettur 9. janúar 2023 ásamt viðauka um samræmda móttöku flóttafólks. og yfirlýsing um að vinna að sameiginlegum markmiðum.
Til máls tók Kjartan Már Kjartansson sem fylgdi málinu úr hlaði.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun:
„Umbót greiðir ekki atkvæði við afgreiðslu þessa máls. Ég tel að sú aðferðafræði sem ráðuneytið hefur viðhaft gagnvart sveitarfélaginu í jafnstórum málaflokki og málefni flóttafólks eru orðin sé ámælisverð. Margsinnis hefur ráðuneytið orðið uppvíst af samráðsleysi við Reykjanesbæ. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt hér og fjölmargir sem til þekkja hafa bent á að Reykjanesbær er komin að þolmörkum við móttöku flóttafólks. Við hér í Reykjanesbæ höfum svo sannarlega staðið okkur vel í móttöku flóttafólks. Við vorum frumkvöðlar og boðin og búin að aðstoða flóttafólk. Ríkisvaldið þakkar hins vegar fyrir sig með því að senda enn fleira flóttafólk til okkar án nokkurs samráðs. Þrátt fyrir að sveitarfélagið sé komið að þolmörkum. Ráðuneytið hefur tekið á leigu heilu fjölbýlishúsin í bæjarfélaginu fyrir flóttamenn án nokkurs samráðs við sveitarfélagið. Við þekkjum þetta öll. Þessir nýju íbúar þurfa síðan margvíslega þjónustu sem Reykjanesbær hefur þurft að standa straum af. Nú er ráðuneytið loks tilbúið að greiða fyrir þessa þjónustu gegn því að bæjarfélagið taki við enn fleiri flóttamönnum. Hér er einfaldlega verið að stilla okkur upp við vegg. Mér hugnast ekki svona vinnubrögð og greiði því ekki atkvæði.
Í bæjarstjórn samþykkti ég þennan samning með fyrirvara um að útbúin yrði yfirlýsing sem fæli í sér að aðgerðaráætlun fyrir svæðið m.t.t. móttöku flóttafólks og fækkun þeirra á svæðinu. Hér kemur svo yfirlýsingin, þar segir að það eigi að greina þær áskoranir sem Reykjanesbær glímir við vegna aukins fjölda flóttafólk sem býr í úrræðum á vegum ríkisins.
Greina hvað, ég spyr. Það þarf ekki að greina neitt. Þetta liggur fyrir, það eru einfaldlega of margir flóttamenn á könnu Reykjanesbæjar. Við erum komin að þolmörkum. Skólarnir, félagsþjónustan og húsnæðismarkaðurinn. Þetta vita allir. En ráðuneytið vill ekki skilja þetta. Í yfirlýsingunni eru svo nokkur falleg orð um samstarf og samvinnu. Eitthvað sem hefur ekki staðist af hálfu ráðuneytisins hingað til gagnvart Reykjanesbæ.
Í þessari yfirlýsingu er ekkert minnst á tímafresti eins og lagt var upp með. Ekkert fjallað um það hvenær fækkun flóttamanna í þjónustusamningi á að hefjast. Ekki einu orði. Bara einhver greiningarvinna.
Virðulegi forseti.
Að fenginni reynslu treysti ég einfaldlega ekki ríkisvaldinu í þessum málaflokki, þegar kemur að samskiptum við Reykjanesbæ.
Ég greiði því ekki atkvæði.“
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.
Til máls tóku Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Margrét Þórarinsdóttir, Friðjón Einarsson, Margrét A. Sanders og Guðný Birna Guðmundsdóttir
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:12.