Virðing, eldmóður og framsækni
Reykjanesbær fylgir stefnumörkun sveitarfélagsins til ársins 2030 sem er tengd við innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Þar segir í framtíðarsýninni að Reykjanesbær verði fjölskylduvænn bær sem þroskar og nærir hæfileika allra í gegnum öflugt skóla-, íþrótta- og menningarstarf og íbúar sinni fjölbreyttum störfum í vistvænu fjölmenningarsamfélagi sem einkennist af virðingu, eldmóði og framsækni.
Það er sameiginlegt hlutverk okkar sem hér búum að stuðla að hamingju og heilbrigði einstaklinganna, svo að þeir nái að þroska hæfileika sína, eigi sterka sjálfsmynd og láti drauma sína rætast.
Ekki síst viljum við skapa börnum bestu tækifæri í öruggu, aðlaðandi og umhverfisvænu samfélagi til að rækta hamingju og heilbrigði, afla sér góðrar menntunar og áhugaverðra framtíðarstarfa.