Skipulagsfulltrúi er Gunnar Kr. Ottósson. Skipulagsfulltrúi Reykjanesbæjar starfar á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010, skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 og samþykktar bæjarstjórnar um embættisafgreiðslur skipulagsfulltrúa svo og öðrum lögum, reglurgerðum og samþykktum er varða skipulagsmál í Reykjanesbæ. Hlutverk skipulagsfulltrúa er að veita íbúum, sveitarstjórnarfulltrúum, ráðgjöfum, hönnuðum og verktökum upplýsingar og ráðgjöf um skipulagsmál. Skipulagsfulltrúi fer með málsmeðferð skipulagsmála og starfar í umboði sveitarstjórnar.
Viðtalstímar hjá skipulagsfulltrúa eru samkvæmt samkomulagi:
Hafa samband
Aðalskipulag
Aðalskipulag er skipulagsáætlun sem nær til alls lands sveitarfélags. Í aðalskipulagi er sett fram stefna og ákvarðanir sveitarstjórnar um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar. Stefna sem sett er fram í aðalskipulagi er útfærð nánar í deiliskipulagi fyrir einstök hverfi eða reiti.
Sveitarstjórn ber ábyrgð á gerð aðalskipulags og er gildistími 15 ár. Skipulagsnefnd sveitarfélags annast gerð aðalskipulags í umboði sveitarstjórnar. Í upphafi nýs kjörtímabils, á fjögurra ára fresti, skal sveitarstjórn taka afstöðu til þess hvort endurskoða skuli gildandi aðalskipulag. Aðalskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt í sveitarstjórn og staðfest af Skipulagsstofnun.
Hvar finn ég aðalskipulag Reykjanesbæjar?
Á kortavef Reykjanesbæjar (Skipulag - Aðalskipulag). Kortaþekjur og upplýsingar sem varða skipulagsáætlanir koma frá Skipulagsstofnun.
Aðalskipulag í gildi með áorðnum breytingum er einnig aðgengilegt í Skipulagsvefsjá
Stafrænt aðalskipulag er aðgengilegt á kortavef Reykjanesbæjar og í Stafrænt - aðalskipulag
Hægt er að nálgast upplýsingar um stöðu aðalskipulags á öllu landinu hér
Deiliskipulag
Deiliskipulag nær til afmarkaðs svæðis sem myndar heildstæða einingu – hverfis, hverfishluta, götureits eða húsaþyrpingar. Þar eru sett ákvæði um byggingarheimildir og útfærslu bygginga og frágang umhverfis.
Í deiliskipulagi er gerð grein fyrir notkun lands, legu gatna, lóða, íbúðarhúsa, atvinnu- og þjónustuhúsnæðis, stofnana, leiksvæða, útivistarsvæða og annars er þurfa þykir. Auk uppdrátta eru gerðir skilmálar um útfærslu skipulagsins og framkvæmdir á hverri lóð.
Áður en deiliskipulag er samþykkt í bæjarstjórn og af skipulagi ríkisins er það til sýnis á opinberum stað í a.m.k. sex vikur og eru birtar auglýsingar þar að lútandi. Á þann hátt gefst bæjarbúum kostur á að fylgjast með framvindu skipulagsmála og gera athugasemdir á þeim tíma sem mál eru á vinnslustigi.
Hvar finn ég deiliskipulög í Reykjanesbæ?
Á kortavef Reykjanesbæjar (Skipulag - Deiliskipulag). Kortaþekjur og upplýsingar sem varða skipulagsáætlanir koma frá Skipulagsstofnun.
Deiliskipulag í gildi með áorðnum breytingum er einnig aðgengilegt í Skipulagsvefsjá
Skipulagsauglýsingar
Hagsmunaaðilar eru hvattir til að kynna sér málin og koma með athugasemdir ef þörf er á. Þær má senda á skipulag@reykjanesbaaer.is eða skriflega á:
Umhverfis- og framkvæmdasvið Reykjanesbæjar
Tjarnargata 12
230 Reykjanesbær
Umhverfis- og skipulagssvið notar persónugreinanlegar upplýsingar sem settar eru fram vegna athugasemda við skipulag (kennitölu, nafn og netfang) til þess að vinna úr athugasemdum og auðkenna aðila. Þetta er í samræmi við Skipulagslög nr. 123/2010 og byggir á heimild í 3. tl. 9. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018. Gögn eru varðveitt í 30 ár og flytjast að þeim tíma liðnum til Þjóðskjalasafns Íslands skv. lögum nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn. Heimilt er að leggja fram kvörtun vegna vinnslu persónuupplýsinga til Persónuverndar.
Athugasemdir teljast til opinberra gagna í allri skipulagsmeðferð og birtast meðal annars nöfn hagsmunaaðila í fundargerðum skipulags- og byggingarráðs og umhverfis- og framkvæmdaráðs á netinu.
Hvar finn ég skipulagsauglýsingar?
Á vef Reykjanesbæjar undir Skipulagsauglýsingar
Grenndarkynning
Þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir eða um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu.
Grenndarkynning felst í því að skipulagsnefnd kynnir nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta leyfisumsókn eða tillögu að breytingu á skipulagsáætlun og gefur þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests sem skal vera a.m.k. fjórar vikur. Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar. Skipulagsnefnd er heimilt að stytta tímabil grenndarkynningar ef þeir sem hagsmuna eiga að gæta, sbr. 1. mgr., hafa lýst skriflega yfir með áritun sinni á kynningargögn áður en fjórar vikur eru liðnar að þeir geri ekki athugasemdir við skipulagstillöguna eða hina leyfisskyldu framkvæmd. Skipulagsnefnd er heimilt að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda.
Hvenær á grenndarkynning við?
Dæmi um hvenær grenndarkynning byggingarleyfisumsóknar getur átt við:
- Viðbygging t.d. sólstofu eða bygging bílskúrs við íbúðarhús.
- Bygging húss á auðri lóð í þegar byggðu hverfi.
- Bygging íbúðar- eða útihúss á margbýlisjörð.
- Fjölgun íbúða eða notkun húshluta breytt.
- Lóðamörkum eða aðkomu að lóð breytt, fjölgun bílastæða.
- Breyting á útliti eða lóðarfrágangi, pallar og skjólveggir.
Dæmi um framkvæmdaleyfisumsóknir:
- Göngustígar og göngubrýr.
- Leiksvæði.
- Hljóðveggir við umferðargötur.
Hverjum ber að kynna?
Skipulagsnefnd metur í hverju tilviki hverjir eigi hagsmuna að gæta og skuli kynnt málið. Hagsmunaaðilar geta verið landeigendur, eigendur og leigjendur fasteigna á aðliggjandi lóðum, svæði eða í sömu götu, sem verða mögulega fyrir áhrifum t.d. vegna útsýnis, innsýnar, aðgengis, aukinnar umferðar eða atvinnuhagsmuna. Þá getur þurft að hafa samráð við opinberar stofnanir s.s. Umhverfisstofnun eða Fornleifavernd ríkisins. Dæmi um grenndarkynningu:
- Viðbyggingar eða bygging bílskúrs nægir almennt að kynna íbúum og eigendum aðliggjandi lóða.
- Byggingu íbúðarhúss á auðri lóð, fjölgun íbúða í húsi, breyting bílskúrs í hágreiðslustofu eða breyting á aðkomu að lóð skal kynna næstu nágrönnum og etv. öllum í viðkomandi götu vegna áhrifa á útsýni, umferð og bílastæði.
- Hækkun á þaki skal kynna næstu nágrönnum og öðrum sem hækkunin getur haft áhrif á t.d. vegna útsýnis eða skuggavarps.
- Leiksvæði skal kynna næstu nágrönnum og e.t.v. fleiri íbúum á svæðinu.
- Hljóðveggi og hljóðmanir skal kynna eigendum aðliggjandi lóða.
Lausar lóðir
Lausar lóðir í Reykjanesbæ eru aðgengilegar á Kortasjá. Smellt er á “Tilkynningar” - “Lausar lóðir”
Á kortasjá eru upplýsingar um stærðir lóða, byggingarmagn, fjölda hæða og íbúða. Fram kemur gatnagerðargjöld skv. gjaldskrá þess mánaðar, ásamt lóðarblaði.
Sótt er um lóðir í gegnum MittReykjanes. Umsóknir um lóðir eru teknar fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar.