Mikil verslun var stunduð í Keflavík sem gerði hana að stærsta þorpinu á Suðurnesjum, höfuðstað svæðisins. Má rekja verslunarsögu Keflavíkur allt til upphafs 16. aldar og er vitað um þýska kaupmenn þar árið 1518. Undir lok 16. aldar komu Hamborgarkaupmenn til Keflavíkur en þegar Danir settu einokunarverslunina á 1602 féll Keflavík í hendur Kaupmannahafnar. Þessi dönsku áhrif í verslun í bænum héldust svo alveg fram á 20. öld, þó svo að Einokunarverslunin hafi um síðir liðið undir lok. Keflavíkurhreppur var stofnaður 1908 og þann 1. apríl 1949 fékk Keflavík kaupstaðaréttindi.
Saga Keflavíkur er til í þremur bindum eftir Bjarna Guðmarsson.