Skrifstofa menntasviðs veitir faglega forystu, mótar stefnu, annast stjórnsýslu, rekstur og þjónustu vegna uppeldis- og menntamála bæjarfélagsins ásamt því að annast ráðgjöf, hafa yfirumsjón og sinna eftirliti með faglegum og rekstrarlegum þáttum í leik-, grunn- og tónlistarskólastarfi í samræmi við lög um grunnskóla nr. 91/2008, lög um leikskóla nr. 90/2008 og æskulýðslög nr. 70/2007. Skrifstofa menntasviðs veitir einnig leik- og grunnskólum skólaþjónustu í samræmi við reglugerð um skólaþjónustu sveitarfélaga nr. 444 / 2019 sem tekur annars vegar til stuðnings við nemendur í leik- og grunnskólum og foreldra þeirra og hins vegar stuðnings við starfsemi skóla og starfsfólk þeirra. Starfsfólk skrifstofu menntasviðs styður enn fremur við starfsþróun, nýsköpun og skipulag endur- og símenntunar í samráði við skólastjórnendur ásamt því að vera í góðum tengslum við aðrar stofnanir sem tengjast málaflokknum.
Lögð er áhersla á að skólaþjónusta menntasviðs mótist af heildarsýn á aðstæður og hagsmuni nemenda óháð því hver veitir þjónustuna. Þannig skal velferð nemenda ávallt höfð að leiðarljósi. Þá er lögð áhersla á vönduð og fagleg vinnubrögð, þar sem stuðst er við viðurkenndar aðferðir og klínískar leiðbeiningar. Skólaþjónustan skal beinast að því að efla skólana sem faglegar stofnanir sem geti leyst flest þau viðfangsefni sem uppkoma í skólastarfi og veita starfsfólki skóla leiðbeiningar og aðstoð við störf sín eftir því sem við á. Skólaþjónustan veitir jafnframt sálfræðiþjónustu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja samkvæmt þjónustusamningi.
Í Reykjanesbæ starfa tíu leikskólar, sex grunnskólar, einn samrekinn leik- og grunnskóli og einn tónlistarskóli. Leik- og grunnskólar hafa hver sína sérstöðu en allir leggja áherslu á að skapa jákvæðan skólabrag, hvetjandi leik- og námsumhverfi og veita góða alhliða menntun í samstarfi við heimilin. Tónlistarskóli Reykjanesbæjar starfar samkvæmt Aðalnámskrá tónlistarskóla. Nemendur eru á öllum aldri og öllum námsstigum upp að háskólastigi. Kennt er á öll hefðbundin hljóðfæri auk söngs, innan klassískrar og rytmískrar tónlistar. Daggæsla barna í heimahúsum fellur einnig undir þjónustu menntasviðs en hún er starfrækt samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.
Í Reykjanesbæ er boðið upp á fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf þar sem megin áhersla er lögð á að efla jákvæðan og heilbrigðan lífsstíl barna og ungmenna. Umsjón með rekstri íþróttamannvirkja fellur undir starfsemi skrifstofunnar sem og öll samskipti og samningar við íþrótta- og tómstundafélög bæjarfélagsins. Skrifstofa menntasviðs annast enn fremur rekstur félagsmiðstöðvar og ungmennahúss og hefur umsjón með forvarnarstarfi fyrir börn og unglinga.
Undir menntasvið heyra einnig lýðheilsumál og málefni vinnuskólans í Reykjanesbæ. Áhersla lýðheilsumála er að bæta heilsu samfélagsins og auka aðgengi að andlegri-, félagslegri- og líkamlegri heilsu. Rík áherls er á að tekið sé mið af heilbrigði og aðgengi að heilsueflandi aðstæðum innan samfélagsins. Vinnuskólinn er vinnustaðaur fyrir unglinga á aldrinum 14 til 16 ára. Nemendur fá verkefni sem miða að fegrun umhverfisins en Vinnuskólinn leggur áherslu á götu- og hverfahreinsun, umhirðu á lóðum og opnum svæðum bæjarins. Vinnuskólinn á einnig í góðu samstarfi við æskulýðs- og íþróttafélög auk stofnana Reykjanesbæjar um sérstök sumarstörf.
Stjórnskipulag Reykjanesbæjar