Félagsmiðstöðin í Fjörheimum
Félagsmiðstöðin í Fjörheimum býður uppá eitt virkasta félagsmiðstöðvastarf á Íslandi. Opið er alla virka daga fyrir grunnskólanemendur í Reykjanesbæ á aldrinum 10 til 15 ára.
Opnanir eru aldurskiptar milli miðstigs og unglingastigs og eru 3 opnanir fyrir unglingastig og 2 fyrir miðstig í hverri viku auk sértæks hópastarfs. Allar opnanir eru auglýstar á vefsíðu Fjörheima og samfélagsmiðlum. Dagskrá er birt síðasta miðvikudag hvers mánaðar.
Starfið
Starf Fjörheima byggir fyrst og fremst á unglingalýðræði þar sem mikil áhersla er lögð á frumkvæði unglinganna sjálfra. Unglingaráð Fjörheima er valið í byrjun hvers skólaárs og starfar allan veturinn.
Félagsmiðstöðin heldur úti öflugu og vinsælu klúbbastarfi sem er breytilegt á milli skólaára. Lagt er upp úr að hafa starfið eins skemmtilegt og mögulegt er. Í dagskrá félagsmiðstöðvarinnar er boðið uppá allskyns afþreyingu og er dagskráin afar fjölbreytt og allir ættu að finna eitthvað við hæfi.
Félagsmiðstöðin er í góðu samstarfi við alla grunnskóla Reykjanesbæjar og er stöðugt að þróa starfið í samræmi við þarfir hvers skóla fyrir sig. Þar má meðal annars nefna þróunarverkefnið „Brúin“ sem er samstarfsverkefni milli Háaleitisskóla og Fjörheima um skipulagt tómstundastarf í Háaleitisskóla á Ásbrú.
Hafa samband
Fjörheimar eru staðsettir að Hafnargötu 88 í Reykjanesbæ. Forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar er Gunnhildur Gunnarsdóttir og má ná í hana á netfangið fjorheimar@reykjanesbaer.is
Meiri upplýsingar má finna á vefsíðu Fjörheima.
Fjörheimar á Facebook
Listasmiðja Reykjanes
88 Húsið
88 Húsið er menningarmiðstöð ungs fólks í Reykjanesbæ á aldrinum 16 til 30 ára. Í húsinu eru fundarherbergi og aðstaða til afnota fyrir félög og klúbba á vegum ungmenna. Þar er meðal annars pool-borð, borðtennisborð og stórt sjónvarp með öllum áskriftum. Spunaspilaklúbburinn Ýmir heldur uppi starfsemi í húsinu tvisvar í viku auk þess sem ýmsir rafíþróttaklúbbar eru þar með aðsetur.
Hægt er að fá húsið lánað undir stöku viðburði eða fundi, en forvarnardagur ungra ökumanna hefur lengi farið fram í menningarmiðstöðinni, auk þess sem Vinnuskóli Reykjanesbæjar hefur aðsetur þar á sumrin.
Markmið 88 hússins eru að:
- Bjóða upp á heilbrigðan valkost í afþreyingu ungs fólks í Reykjanesbæ.
- Aðstoða ungt fólk við að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.
- Vera leiðandi í jákvæðu starfi ungs fólks í Reykjanesbæ í samstarfi við hina ýmsu aðila.
88 húsið er staðsett á sama stað og Fjörheimar að Hafnargötu 88 í Reykjanesbæ. Forstöðumaður menningarmiðstöðvarinnar er Gunnhildur Gunnarsdóttir og má ná í hana á netfangið fjorheimar@reykjanesbaer.is
88 húsið á Facebook