Barnavernd

Markmið barnaverndar er fyrst og fremst að koma börnum og fjölskyldum til aðstoðar. Ef þig grunar að barn sé beitt ofbeldi eða búi við vanrækslu ættirðu að láta barnavernd vita. Börn geta líka haft samband sjálf. Hægt er að tilkynna hér á vefnum eða í síma 421 6700 á skrifstofutíma. Ef málið er áríðandi, hringdu í 112.

Takki Hnappur

 

Tilkynning til barnaverndar er ekki kæra heldur beiðni um aðstoð fyrir barn eða fjölskyldu sem þú telur að þurfi á hjálp að halda. Börn eiga rétt samkvæmt lögum að njóta vafans ef einhver vafi er. Því á að tilkynna grun en ekki bara eitthvað sem er staðfest.

Um barnavernd

Markmið barnaverndar er að tryggja börnum viðunandi uppeldisskilyrði með því að styrkja fjölskyldur og beita úrræðum til verndar einstaka börnum þegar það á við. Allir undir 18 ára teljast börn, einnig ófædd börn.

Börn eiga rétt á að alast upp í friði, öryggi, við góðar aðstæður og vernduð gegn ofbeldi og vanrækslu. Barnavernd leggur áherslu á að hjálpa börnum sem búa við óviðeigandi uppeldisaðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu. Alltaf er reynt að hjálpa í góðu samstarfi við foreldra og börn og veita þeim nauðsynlegan stuðning. Reynt er að efla foreldra í uppeldishlutverkinu svo þeir geti mætt þörfum barna sinna og veitt þeim viðeigandi umönnun og öryggi.

Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar veitir barnvæna þjónustu með því að virða, vernda og framfylgja réttindum hvers barns. Börn fá tækifæri til að tjá skoðanir sínar miðað við aldur þeirra og þroska og taka þátt í ákvarðanatöku varðandi þeirra líf. Barnaverndarþjónusta tekur mið af stefnu Reykjanesbæjar, barnaverndarlögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Þjónusta við börn og foreldra þeirra er þverfagleg innan og milli sviða Reykjanesbæjar, og stuðningur er veittur sem mest í nærumhverfinu. Áhersla er lögð á forvarnir og almenna og sérhæfða þjónustu sem miðar að þörfum fjölskyldna í Reykjanesbæ.

Stuðningsúrræði barnaverndar eru til dæmis:

  • uppeldisleg ráðgjöf
  • persónulegir ráðgjafar
  • stuðningsfjölskylda
  • vistun utan heimilis
  • úrræði á vegum BOFS (Barna- og fjölskyldustofu)

Tilkynningahnappur fyrir börn

Grunnskólanemendur í Reykjanesbæ geta haft samband við barnavernd með því að smella á hnapp í spjaldtölvunni sinni.

 

 

Ferli

  • Ferli

    Tilkynning

    Samkvæmt barnaverndarlög er fólki skylt að tilkynna til barnaverndar ef það telur að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stefni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Það sama á við ef grunur er um að heilsu eða lífi ófædds barns sé stofnað í hættu.

    Hægt er að óska eftir nafnleynd gagnvart þeim sem tilkynnt er um nema sérstakar ástæður mæli gegn því.

    Tilkynna til barnaverndar

    Ef málið þolir ekki bið og barnið er í bráðri hættu, hafðu samband við 112. Bakvakt Barnaverndar Reykjanesbæjar sinnir neyðartilvikum utan skrifstofutíma.

    Könnun máls

    Starfsfólk barnaverndar taka ákvörðun innan 7 daga frá því að tilkynning berst hvort hefja eigi könnun máls eða ekki. Mál er ekki kannað nema rökstuddur grunur um efni tilkynningarinnar liggi fyrir.

    Mál telst barnaverndarmál þegar ákveðið hefur verið að hefja könnun. Foreldrar eru alltaf látnir vita að tilkynning hafi borist ásamt niðurstöðu móttöku- og greiningarfundar.

    Við könnun máls eru foreldrar boðnir í viðtal til að fara yfir tilkynninguna og gerð er áætlun um könnun. Leitað er eftir samvinnu við foreldra varðandi áætlunina. Undantekning á þessu er þegar barn er talið í hættu í umsjá foreldra og það séu hagsmunir barns að foreldrar viti ekki af könnuninni tímabundið.

    Í könnunarferlinu er lögð áhersla á að ræða við börn til að tryggja að sjónarmið og líðan þeirra komi skýrt fram. Reynt er að hafa könnunarferlið ekki víðameira en þörf er á en það sem er almennt skoðað er félagsleg staða og líðan barns, heima og í skóla, námsleg staða og stuðningsnet fjölskyldunnar. Að lokinni könnun er gerð greinargerð um hvaða stuðning á að veita fjölskyldunni á vegum barnaverndar. Ef ekki er talin þörf á að veita stuðning er málinu lokað.

  • Áfrýjun

    Samkvæmt 6. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er hægt að skjóta úrskurðum og einstökum ákvörðunum barnaverndarnefnda til úrskurðarnefndar velferðarmála. Kærufrestur er 4 vikur frá því að aðila máls var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun.

    Ef aðilar eru ósáttir við meðferð einstakra mála er hægt að leggja fram kvörtun til Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV).