Embætti byggingafulltrúa í Reykjanesbæ starfar á grundvelli mannvirkjalaga nr. 160/2010, byggingareglugerðar nr. 112/2012 og öðrum reglugerðum og samþykktum sem embætti byggingarfulltrúar varðar.
Viðtalstímar hjá starfsmönnum byggingarfulltrúa eru samkvæmt samkomulagi:
Hafa samband
Embætti byggingarfulltrúa í Reykjanesbæ hefur eftir fremsta megni verið leiðandi í stafrænum lausnum. Í dag tekur embættið ekki við neinum gögnum öðruvísi en á rafrænan hátt. Stafrænar lausir byggingarfulltrúa hefur sparað umhverfinu frá 1. október 2019:
Gögn eru uppfærð daglega.
Minniháttar mannvirkjagerð undanþegin byggingarheimild og -leyfi
Eftirfarandi minniháttar mannvirki og framkvæmdir eru undanþegnar byggingarleyfi. Þær eru einnig undanþegnar byggingarheimild og tilkynningarskyldu skv. 2.3.6. gr. enda séu þær í samræmi við deiliskipulag og önnur ákvæði reglugerðar þessarar sem við eiga hverju sinni.
- Allt viðhald innanhúss og utan, þ.m.t. endurnýjun léttra innveggja.
- Uppsetning móttökudiska, allt að 1,2 m að þvermáli, vegna móttöku útsendinga útvarps eða sjónvarps eða móttökuloftnets.
- Allt viðhald lóða, girðinga, bílastæða og innkeyrslna.
- Gerð palla og annar frágangur á eða við jarðvegsyfirborð.
- Skjólveggir og girðingar sem eru allt að 1,8 m að hæð og eru ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m. Ennfremur girðingar eða skjólveggir sem eru nær lóðarmörkum en 1,8 m og eru ekki hærri en sem nemur fjarlægðinni að lóðarmörkum. Einnig allt að 2,0 m langir og 2,5 m háir skjólveggir sem eru áfastir við hús og í a.m.k. 1,8 m fjarlægð frá lóðarmörkum. Lóðarhöfum samliggjandi lóða er heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingar eða skjólveggi allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum, enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina. Miðað skal við jarðvegshæð lóðar sem hærri er ef hæðarmunur er á milli lóða á lóðamörkum.
- Smáhýsi sem er að hámarki 15 m2 og mesta hæð þaks er 2,5 m mælt frá yfirborði jarðvegs. Sé smáhýsið minna en 3,0 m frá aðliggjandi lóð þarf samþykki eigenda aðliggjandi lóðar. Slík smáhýsi eru ekki ætluð til gistingar eða búsetu.
Hvar sæki ég um?
Ekki þarf að sækja um þar sem þetta er minniháttar mannvirkjagerð undanþegin byggingarheimild og -leyfi. Mannvirkjagerð skal samræmast skipulagi og öðrum ákvæðum reglugerða.
Tilkynningarskyld mannvirkjagerð undanþegin byggingarheimild og -leyfi
Eftirfarandi mannvirkjagerð er undanþegin byggingarheimild og -leyfi en skal tilkynnt leyfisveitanda. Hún skal vera í samræmi við deiliskipulag og önnur ákvæði reglugerðar þessarar eins og við á hverju sinni.
- Nýklæðning þegar byggðra mannvirkja.
- Tjaldhýsi sem nota skal í atvinnustarfsemi.
- Stöðuhýsi sem skulu standa lengur en 4 mánuði.
- Heitir og kaldir pottar eða laugar í görðum við íbúðarhús og frístundahús.
- Lítilsháttar breyting á burðarvirki sem nemur minna en 5% af hjúpfleti burðarhluta, þó aldrei meira en 5 m2.
- Lítilsháttar breyting á brunahólfun sem nemur minna en 5% af hjúpfleti brunahólfandi hluta, þó aldrei meira en 5 m2.
- Breytingar á lögnum.
- Rannsóknarmastur ætlað til mælinga, sett upp tímabundið og ekki lengur en til tveggja ára.
Byggingarfulltrúi staðfestir móttöku tilkynningar, að mannvirkjagerð falli undir 1. mgr. og að hún samræmist skipulagi. Með tilkynningum skulu fylgja aðaluppdrættir og greinargerð löggilds hönnuðar. Sé tilkynnt um breytingar á þegar byggðu mannvirki, þar sem aðaluppdrættir eru til staðar, þarf ekki að skila aðaluppdráttum í heild heldur aðeins þeim hluta aðaluppdrátta sem sýna breytingarnar.
Ekki er heimilt að hefja mannvirkjagerð án staðfestingar leyfisveitanda. Hafi byggingarfulltrúi þó ekki gert athugasemdir við tilkynnta framkvæmd innan þriggja vikna frá móttöku tilkynningar telst hún staðfest og er þá heimilt að hefja framkvæmdir.
Hvar sæki ég um?
Mitt Reykjanes.is – Tilkynningarskyld undanþegin byggingarheimild og -leyfi. Umsókn skal samræmast skipulagi.
Þarf ég hönnuð og/eða byggingarstjóra á verk?
Já, þú þarft hönnuð en ekki gerð krafa um byggingarstjóra. Mælt er með að leita til fagaðila.
Hvaða gögnum þarf ég að skila inn með tilkynningunni?
Með tilkynningu skal skila eftirfarandi:
- Aðaluppdrættir og greinargerð löggilds hönnuðar
- Sé tilkynnt um breytingar á þegar byggðu mannvirki, þar sem aðaluppdrættir eru til staðar, þarf ekki að skila aðaluppdráttum í heild heldur aðeins þeim hluta aðaluppdrátta sem sýna breytingarnar
Umsókn um byggingarleyfi í Umfangsflokki 1 (byggingarheimild).
Minni mannvirkjagerð þar sem lítil hætta er á manntjóni, efnahagslegar og samfélagslegar afleiðingar mögulegs tjóns á mannvirki eru litlar og umhverfisáhrif eru takmörkuð.
Í umfangsflokki 1 eru mannvirki þar sem ekki safnast saman mikill fjöldi fólks og fólk hefur ekki fasta búsetu.
Í umfangsflokk 1 falla m.a. geymsluhúsnæði, landbúnaðarbyggingar, frístundahús, sæluhús, stakstæðir bílskúrar, gestahús, skálar og viðbyggingar við þegar byggð mannvirki. Niðurrif mannvirkja falla hér undir. Sé mannvirki hærra en fjórar hæðir og stærra en 2000 m2 flokkast það almennt í umfangsflokk 2.
Hvar sæki ég um?
Byggingarleyfi.hms.is - Umsókn um byggingarleyfi. Umsókn skal samræmast skipulagi.
Þarf ég hönnuð og/eða byggingarstjóra á verk?
Já, hönnuðir skulu hafa löggildingu. Já, byggingarstjóri skal hafa umsjón með verki og skal hann hafa byggingarstjóratryggingu. Byggingarstjóri má vera einn iðnmeistara og eru iðnmeistarar á verki ráðnir af byggingarstjóra eða eiganda.
Hvaða gögnum þarf ég að skila inn með umsókninni?
Með umsókn þarf að skila eftirfarandi:
- Aðaluppdrættir í heild eða sýndar breytingar á áður samþykktum uppdráttum
- Byggingarlýsing uppfylli kröfu um greinagerð hönnuða
- Ný skráningartafla ef breytingar verða á stærðum eða eignarhaldi
- Yfirferð og staðfesting aðaluppdrátta
- Áætlun um meðhöndlum byggingar- og niðurrifsúrgangs skal skilað
- Séruppdráttum skal skila til leyfisveitanda til varðveislu áður en lokaúttekt fer fram.
- Staðfesting um eignarhald / samþykki meðeigenda
Þarf ég úttektir á verk?
Já, byggingarstjóri gerir áfangaúttektir og skráir í gagnasafn HMS. Byggingarstjóri eða eigandi skal boða byggingarfulltrúa til öryggis- og lokaúttektar.
Byggingarfulltrúa er heimilt að gera stöðuskoðun og úrtaksskoðun á verktíma.
Umsókn um byggingarleyfi í Umfangsflokki 2.
Meðalstór mannvirkjagerð þar sem ekki er mikil hætta á manntjóni, efnahagslegar, samfélagslegar og umhverfislegar afleiðingar tjóns á mannvirki eru viðunandi.
Í umfangsflokki 2 eru mannvirki þar sem er miðað við að fólk geti haft fasta búsetu, án þess endilega að þekkja flóttaleiðir en geti þó bjargað sér sjálft út úr mannvirkinu.
Í umfangsflokk 2 falla m.a. íbúðarhúsnæði og gistiheimili, atvinnuhúsnæði, iðnaðarhúsnæði og bílastæðahús. Sé mannvirki hærra en 8 hæðir og stærra en 10000 m2 flokkast það almennt í umfangsflokk 3.
Hvar sæki ég um?
Byggingarleyfi.hms.is - Umsókn um byggingarleyfi. Umsókn skal samræmast skipulagi.
Þarf ég hönnuð og/eða byggingarstjóra á verk?
Já, þú þarft hönnunarstjóra og aðra hönnuði sem skulu hafa löggildingu. Já, byggingarstjóri skal hafa umsjón með verki og skal hann hafa byggingarstjóratryggingu. Skrá þarf iðnmeistara í gagnasafn HMS og til byggingarfulltrúa. Iðnmeistarar á verki eru ráðnir af byggingarstjóra eða eiganda.
Hvaða gögnum þarf ég að skila inn með umsókninni ?
Með umsókn þarf að skila eftirfarandi:
- Aðaluppdrættir í heild eða sýndar breytingar á áður samþykktum uppdráttum
- Ný skráningartafla ef breytingar verða á stærðum eða eignarhaldi
- Greinagerð hönnuða
- Yfirferð og staðfesting aðaluppdrátta
- Séruppdrættir miðað við framvindu (áður en verkþáttur hefst)
- Áætlun um meðhöndlum byggingar- og niðurrifsúrgangs skal skilað
- Yfirferð séruppdrátta
- Staðfesting um eignarhald / samþykki meðeigenda
Þarf ég úttektir á verk?
Já, byggingarstjóri gerir áfangaúttektir og skráir í gagnasafn HMS. Byggingarstjóri eða eigandi skal boða byggingarfulltrúa til öryggis- og lokaúttektar.
Stöðuskoðun byggingarfulltrúa er áskilin og úrtaksskoðun á verktíma er heimil.
Umsókn um byggingarleyfi í Umfangsflokki 3.
Umfangsmikil mannvirkjagerð þar sem hætta á manntjóni er mikil, efnahagslegar og samfélagslegar afleiðingar tjóns á mannvirki eru miklar. Þessum flokki tilheyra mannvirki sem ætla má að tjón á þeim valdi miklum umhverfislegum afleiðingum. Mannvirki sem eru sérstaklega flókin í hönnun eða þjóna samfélagslega mikilvægu hlutverki og/eða eru nauðsynleg með tilliti til almannaöryggis tilheyra þessum flokki.
Í umfangsflokki 3 eru mannvirki þar sem gert ráð fyrir að mikill fjöldi fólks geti safnast saman eða að notkun þeirra sé þannig að fólk geti ekki bjargað sér sjálft úr mannvirkinu. Séu mannvirki ekki hærri en fjórar hæðir og ekki stærri en 2000 m2 er heimilt að fella þau undir umfangsflokk 2.
Í umfangsflokk 3 falla m.a. verslunarmiðstöðvar, skólar, íþrótta- og menningarmannvirki, stærri veitur, virkjanir og lokaðar stofnanir svo sem sjúkrahús, dvalar- og hjúkrunarheimili, lögreglustöðvar og fangelsi.
Hvar sæki ég um?
Byggingarleyfi.hms.is - Umsókn um byggingarleyfi. Umsókn skal samræmast skipulagi.
Hönnuður / byggingarstjóri aðilar verks ?
Já, þú þarft hönnunarstjóra og aðra hönnuði sem skulu hafa löggildingu. Já, byggingarstjóri skal hafa umsjón með verki og skal hann hafa byggingarstjóratryggingu. Skrá þarf iðnmeistara í gagnasafn HMS og til byggingarfulltrúa. Iðnmeistarar á verki eru ráðnir af byggingarstjóra eða eiganda.
Hvaða gögnum þarf ég að skila inn með umsókninni ?
Með umsókn þarf að skila eftirfarandi:
- Aðaluppdrættir í heild eða sýndar breytingar á áður samþykktum uppdráttum
- Ný skráningartafla ef breytingar verða á stærðum eða eignarhaldi
- Greinagerð hönnuða
- Yfirferð og staðfesting aðaluppdrátta
- Séruppdrættir miðað við framvindu (áður en verkþáttur hefst)
- Áætlun um meðhöndlum byggingar- og niðurrifsúrgangs skal skilað
- Yfirferð séruppdrátta
- Útvistun á yfirferð uppdrátta er heimil
- Staðfesting um eignarhald / samþykki meðeigenda
Þarf ég úttektir á verk?
Já, byggingarstjóri gerir áfangaúttektir og skráir í gagnasafn HMS. Byggingarstjóri eða eigandi skal boða byggingarfulltrúa til öryggis- og lokaúttektar.
Stöðuskoðun byggingarfulltrúa er áskilin og úrtaksskoðun á verktíma er heimil.
Meðhöndlun á byggingar- og niðurrifsúrgangi
Skila skal inn áætlun um meðhöndlun á byggingar- og niðurrifsúrgangi áður en framkvæmdir hefjast.
Samkvæmt byggingarreglugerð (kafla 15.2.2) skal þessari áætlun skilað vegna eftirfarandi framkvæmda:
- Nýbygginga, viðbygginga eða breytinga á mannvirki þar sem að brúttó flatarmál gólfflatar þess hluta sem verkið tekur til er 300 m² eða meira.
- Umfangsmikilla viðgerða útveggja, svala, þaks o.þ.h. þegar flötur verks er 100 m² eða stærri.
- Niðurrifs á byggingum eða hluta bygginga þar sem brúttó gólfflötur verks er 100 m² að flatarmáli eða meir.
- Framkvæmda þar sem búast má við að úrgangur verði 10 tonn eða meira.
Hvar sæki ég um?
Áætlun þessi er aðgengileg á vef Reykjanesbæjar undir „Umsóknir og eyðublöð“ eða á með því að smella hér.
Hvaða gögnum þarf ég að skila inn með umsókninni ?
Eyðublaðinu skal skilað samhliða umsókn um byggingarleyfi, en um er að ræða fylgiskjal þar sem magn úrgangs í hverjum flokki fyrir sig er áætlað og að lokinni framkvæmd er rauntölum skilað inn.
Af hverju þarf ég að skila áætlun um meðhöndlun á úrgangi?
Samkvæmt byggingarreglugerð (kafla 15.2.2) skal þessari áætlun skilað áður en framkvæmdir hefjast. Í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum er sérstök áhersla lögð á að draga úr umhverfisáhrifum byggingariðnaðarins en samkvæmt tölfræðiupplýsingum frá Umhverfisstofnun er úrgangur frá mannvirkjagerð stærsti úrgangsstraumurinn hér á landi. Það er því til mikils að vinna með því að hækka endurnýtingarhlutfallið á þeim straumum sem falla til á framkvæmdatíma. Með þessu er verið að auka meðvitund um þann úrgang sem myndast á framkvæmdatíma, leggja áherslu á mikilvægi þess að endurnýta allt sem hægt er og að allur úrgangur sem fellur til sé rétt flokkaður.
Hvar finn ég ítarlegri upplýsingar?
Ítarlegar leiðbeiningar um meðhöndlun byggingarúrgangs má finna á vef Grænni byggðar með því að smella hér. Fyrir áhugasama má svo finna markmið og aðgerðir til að draga úr losun í Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 2030 með því að smella hér.
Stöðuleyfi
Sækja skal um stöðuleyfi til leyfisveitanda til að láta eftirfarandi lausafjármuni standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna:
- Hjólhýsi, á tímabilinu frá 1. október til 1. maí
- Gáma, báta, torgsöluhús, frístundahús í smíðum, sem ætlað er til flutnings, og stór samkomutjöld
Hvar sæki ég um?
Mitt reykjanes.is - Umsókn um stöðuleyfi.
Hvaða gögnum þarf ég að skila inn með umsókninni ?
- Í umsókn skal gerð grein fyrir tilgangi og lengd stöðuleyfis
- Með umsókn skulu fylgja uppdrættir og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að sýna staðsetningu, útlit og gerð, fyrirkomulag og öryggi lausafjármunanna
- Staðfestingu um eignarhald / samþykki meðeigenda
Hve lengi gildir stöðuleyfi?
Stöðuleyfi skulu mest veitt til 12 mánaða nema ákvæði skipulags mæli fyrir um annað.