Forvarnir

Reykjanesbær vinnur að forvörnum í samvinnu við ýmsa aðila í bæjarfélaginu. Forvarnarvinnan gengur þvert á öll svið bæjarins og meginmarkmið hennar eru að:

  • Stuðla að auknu heilbrigði og hamingju barna, ungmenna og fullorðinna, og þar með fjölskyldunnar í heild sinni
  • Skapa aðstæður sem eru líklegar til að hafa jákvæð áhrif á íbúa
  • Efla sjálfstraust og sjálfsmat barna og ungmenna
  • Stuðla að betri menntun
  • Stuðla að öryggi á heimilum og bættu umhverfi barna og unglinga

Hafþór B. Birgisson er íþrótta- og tómstundafulltrúi Reykjanesbæjar en það má ná í hann á netfangið hafthor.Birgisson@reykjanesbaer.is.

SAMTAKA-hópurinn

SAMTAKA-hópurinn í Reykjanesbæ er þverfaglegur samstarfshópur um forvarnir í Reykjanesbæ. Ásamt fulltrúum Reykjanesbæjar, eiga fulltrúar foreldra, grunn- og framhaldsskóla, lögreglunnar og heilbrigðisstofnunar sæti í hópnum.

Sjá erindisbréf SAMTAKA-hópsins.

Helstu verkefni

Helstu verkefni eru að útbúa áætlanir í forvarnarmálum og halda utan um forvarnarmál sem unnin eru hjá Reykjanesbæ og samstarfsaðilum. Þá er fylgst grannt með árangri hvers verkefnis, hvað megi betur fara og hvar megi bæta við verkefnum. Helstu forvarnarverkefni sem sveitarfélagið tekur þátt í eru:

  • Heilsueflandi samfélag á vegum embættis landlæknis, sem hefur það markmið að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa.
  • Forvarnardagur ungra ökumanna fyrir nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, sem miðar að því að auka öryggi ungs fólks í umferðinni.
  • Forvarnardagurinn, þar sem sjónum er beint að nemendum í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla, og þau hvött til þess lýsa upplifun sinni og reynslu.
  • Heilsu- og forvarnarvika Reykjanesbæjar, þar sem lögð er áhersla á að draga úr þeim áhættuþáttum sem einstaklingar geta staðið frammi fyrir á lífsleiðinni og hlúa að verndandi þáttum með þátttöku allra bæjarbúa.
  • Samvinna við Rannsóknir og Greiningu og Íslensku æskulýðsrannsóknina til að fylgjast náið með líðan barna og ungmenna í Reykjanesbæ.
  • Fræðsla í grunn- og framhaldsskólum bæjarins sem hefur verið stóraukin að beiðni Ungmennaráðs Reykjanesbæjar.
  • Allir með forvarnarverkefni, sem miðar að því að auka þátttöku barna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og að þjálfa leiðtoga og þjálfara í markvissri vinnu með börnum og ungmennum.