Flokkun úrgangs og úrgangshirða

Innleiðingu á nýju flokkunarkerfi til samræmis við lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs lauk á árinu 2023. Nú er flokkað í fjóra flokka á hverju heimili og eru flokkarnir þessir:

Pappír / Pappi

Plastumbúðir

Blandaður úrgangur

Matarleifar

Til viðbótar við þessa fjóra flokka er frekari söfnun á grenndarstöðvum þar sem gleri, málmum og textíl er einnig safnað til viðbótar við pappír / pappa og plastumbúðir.

Matarleifum / lífrænum eldhúsúrgangi safnað í körfu með bréfpoka

Öll heimili ættu að hafa fengið körfur og bréfpoka þar sem matarleifum er safnað. Mikilvægt er að notast við bréfpoka fyrir matarleifarnar þar sem það eru þeir pokar sem jarðgerast best svo hægt verði að nýta moltuna sem vinnst úr sérsöfnuninni.

Karfan er svo sérstaklega hönnuð til þess að tryggja loftflæði að pokanum sem vinnur gegn því að pokinn fari að leka og rifna.

 

Merkingin gildir

Tunnur við heimili eru merktar með ákveðnum merkingum, sem sjást hér að ofan, og þá skiptir litur tunnunnar ekki máli heldur er það merkingin sem stýrir innihaldinu.

 

Borgað þegar hent er

Samkvæmt lögum nr. 55/2003 er sveitarfélögum skylt að innheimta gjald sem næst raunkostnaði við hirðu og meðhöndlun úrgangs. Reykjanesbær byggir gjaldskrá sína á áætluðum kostnaði við málaflokkinn en sú breyting varð á 1.janúar 2024 að nú er greitt fyrir þær tunnur sem eru við hvert heimili. Íbúar geta því að einhverju leyti stýrt því hvaða tunnur henta best við sitt heimili svo lengi sem krafan um fjóra flokka er uppfyllt. Nánari upplýsingar um verð og hvaða tunnutegundir eru í boði má sjá í gjaldskrá Reykjanesbæjar.

Hver er kostnaður við hirðu og meðhöndlun úrgangs fyrir mitt heimili?

Kostnaðurinn er breytilegur eftir því hvaða tunnur þú velur við þitt heimili. Þú þarft að vera með sérsöfnun á fjórum flokkum en getur að einhverju leyti stýrt hvaða ílát hentar þér best. Verð og tegundir er að finna í gjaldskrá Reykjanesbæjar.

Öll heimili greiða svo fastan kostnað við rekstur grenndar- og gámastöðva.

Breytingagjald verður innheimt fyrir breytingar á tunnum við heimili og hvetjum við því íbúa til þess að ígrunda vel hvaða ílát henta þeirra heimili áður en ráðist er í breytingar.

Kostnaður þessi er innheimtur samhliða fasteignagjöldum.

Dæmi um kostnað við sérbýli skv. gjaldskrá 2024:

Tvískipt ílát | Blandaður úrgangur og matarleifar 240 L – 40.560 kr
Pappi og pappír 240 L – 7.920 kr
Plastumbúðir 240 L – 7.920 kr
Rekstur grenndar- og gámastöðva – 13.500 kr

Samtals: 69.900 kr á ári

Hvenær verða tunnurnar mínar tæmdar?

Tveir þjónustuaðilar sinna hirðu frá heimilum í Reykjanesbæ.

• Endurvinnslutunnurnar, pappír/ pappi og plast, eru tæmdar á fjögurra vikna fresti og sér Íslenska Gámafélagið um að tæma þær.
Dagatal fyrir þessa flokka má nálgast á vef Íslenska Gámafélagsins og á vef Kölku.

• Tunnur fyrir matarleifar og blandaðan úrgang eru tæmdar á tveggja vikna fresti og sér Terra Umhverfisþjónusta um að tæma þær.
Dagatal fyrir þessa flokka má nálgast á vef Terra Umhverfisþjónustu og á vef Kölku.

Hversu margar tunnur verða við mitt heimili?

Misjafnt er hversu margar tunnur verða við hvert heimili eftir aðstæðum á hverjum stað fyrir sig. Grunnílát á hvert heimili eru þrjár tunnur, ein fyrir pappír / pappa, önnur fyrir plastumbúðir og sú þriðja tvískipt þar sem annað hólfið er fyrir blandaðan úrgang og hitt hólfið fyrir matarleifar / lífrænan eldhúsúrgang.

Mismunandi aðstæður kalla þó á ólíkar stærðir og fjölda íláta og geta íbúar að einhverju leyti stýrt því sjálfir hvað hentar við þeirra heimili. Krafa er þó um að flokkað sé í fjóra flokka fyrir utan öll heimili.

Hvað verður um matarleifarnar mínar?

Matarleifar / lífrænn eldhúsúrgangur frá Suðurnesjum fer í gas- og jarðgerðarstöðina GAJU þar sem honum verður umbreytt í metangas annars vegar og jarðvegsbæti (moltu) hins vegar.

Hvað á ég að gera við málma og gler?

Málmar og gler eiga að fara í sérsöfnun á grenndarstöðvum.

Hvar eru grenndarstöðvarnar staðsettar?

Staðsetningu grenndarstöðva í Reykjanesbæ má finna á kortavef sveitarfélagsins > Umhverfi > Grenndar- og endurvinnslustöðvar.

Hvað má fara í tunnurnar?

Tunnurnar eru merktar með lýsandi merkingum um það sem má fara í þær. Þegar íbúar eru í vafa um í hvaða flokk eigi að setja úrgang hvetjum við til þess að leitarvélin á www.flokkum.is verði notuð en ef ekki gefst tími til þess er betra að setja í blandaðan úrgang en að rangflokka í hina flokkana. Við berum sameiginlega ábyrgð á því að heimtur á endurvinnsluefnum verði góðar og gæði efnisins eins góð og mögulegt er.

Af hverju þarf ég að flokka?

Flokkun úrgangs er gríðarlega stórt umhverfisverkefni þar sem mikilvægt er að endurnýta það sem hægt er og sporna þannig gegn ágangi á auðlindir jarðar. Þegar við flokkum komum við efnunum aftur inn í hringrásina og getum þannig dregið úr úrgangsmyndun.

Þegar við flokkum vel og tryggjum gæði endurvinnsluefna má vænta þess að tekjur frá Úrvinnslusjóði hækki sem leiðir af sér lægri gjöld fyrir íbúa við hirðu og meðhöndlun úrgangs.

Hvað gerist ef ég flokka ekki?

Þegar ekki er rétt flokkað í tunnur við heimili er sveitarfélögum óheimilt að tæma þær. Tunnurnar verða því skildar eftir og íbúar gerðir ábyrgir fyrir því að flokka rétt í þær svo þær verði tæmdar í næstu tæmingu.

Hversu hreint þarf endurvinnsluefnið að vera áður en það er sett í tunnurnar?

Endurvinnsluefnið þarf að vera nokkuð hreint en ekki er þörf á að sótthreinsa umbúðir.

Hvað á ég að gera ef ég þarf að breyta þeim tunnum sem eru á mínu heimili?

Íbúar geta að einhverju leyti stýrt þeim ílátum sem eru á þeirra heimilum. Að því gefnu að krafan um fjóra flokka sé uppfyllt. Upplýsingar um stærð og tegundir íláta sem í boði eru má finna í gjaldskrá Reykjanesbæjar.

Ef þörf er á breytingum bendum við íbúum á að hafa samband við Kölku sem sér um að skipta um ílát. Mikilvægt er að ígrunda vel hvað hentar áður en óskað er eftir breytingu þar sem innheimt er breytingagjald fyrir breytingu samkvæmt gjaldskrá Reykjanesbæjar.

Hvað geri ég ef tunnan mín er brotin?

Ef tunnan þín þarfnast lagfæringar bendum við íbúum á að hægt er að fylla út beiðni á vefsvæði Kölku, sjá nánar hér.

Ef þörf er á úrbótum á aðbúnaði við húsnæði er það alfarið á ábyrgð eigenda og hvetjum við íbúa til þess að huga að því að aðgengi sé gott og að sorpskýli / sorpgerði samræmist byggingarreglugerð. Við minnum einnig á að við berum sameiginlega ábyrgð á umhverfi okkar og að snyrtilegt samfélag verður til með þátttöku þeirra sem í samfélaginu búa.