Heimilisofbeldi

Mikilvægt er að þau sem verða fyrir heimilisofbeldi hafi samband við Lögregluna á Suðurnesjum með því að hringja í 112 eða í Velferðarsvið Reykjanesbæjar í síma 421 6700. Enginn á að þurfa að búa við ofbeldi frá sínum nánustu.

Heimilisofbeldi, einnig kallað ofbeldi í nánu sambandi, getur haft varanleg andleg og líkamleg áhrif á manneskju sem verður fyrir því. Börn sem alast upp við ofbeldi á heimilinu þróa oft með sér depurð, lágt sjálfsmat, verkkvíða, skerta félagsfærni, samskiptavanda og tilfinninga- og hegðunarvanda. Börn sem verða vitni að ofbeldi á heimilinu sýna svipuð einkenni og ef þau eru sjálf beitt ofbeldi. Það er því mikilvægt að veita börnum sem búa við heimilisofbeldi stuðning svo þau geti unnið úr reynslu sinni.

Lesa um ofbeldi í nánum samböndum.

Verklag

Þegar tilkynning berst til lögreglu um heimilisofbeldi er farið á heimilið til að rannsaka málið og veita fyrstu hjálp. Málinu er fylgt eftir þannig að starfsmaður Velferðarsviðs hefur samband við þolanda innan þriggja daga til að meta þörf á stuðningi og að veita upplýsingar um úrræði. Meintum geranda er einnig boðið að koma í viðtal til að fara yfir hans stöðu. Lögreglan og starfsmaður Velferðarsviðs fara svo á heimili þolenda til að fara yfir stöðuna.