18. fundur

19.02.2021 08:30

18. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn, 19. febrúar 2021, kl. 08:30

Viðstaddir: Friðjón Einarsson formaður, Arnar Páll Guðmundsson, Eydís Hentze Pétursdóttir, Sigrún Inga Ævarsdóttir, Trausti Arngrímsson, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar verkefnastofu og Hrefna Höskuldsdóttir ritari.

1. Markaðsmál (2021020545)

Farið var yfir stöðuna á ýmsum verkefnum.

2. Atvinnumál (2021010176)

Á fundinn mætti Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar og fór yfir stöðuna á ýmsum verkefnum sem eru í undirbúningi.

3. Atvinnuleysistölur (2021010175)

Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fundinn.
Atvinnuleysi í lok janúar samkvæmt skráningum Vinnumálastofnunar stóð í stað á milli mánaða. Þannig voru 2.717 skráðir í atvinnuleit og 352 á hlutabótaleið. Eftir sem áður er fjöldi þeirra sem klára 30 mánaða bótarétt áhyggjuefni og mikilvægt að sá tími verði lengdur.

4. Menningarsjóður 2021 (2021010178)

Umsóknarfrestur í Menningarsjóð Reykjanesbæjar rann út 14. febrúar sl. Alls bárust 14 umsóknir um verkefnastyrki og 12 umsóknir um þjónustusamning. Ráðið fer nú yfir umsóknir og niðurstöður úthlutunar liggja fyrir á næsta fundi.

5. Eiffelturn og víkingasverð – Fyrirspurn (2021020444)

Erindinu vísað til afgreiðslu umhverfissviðs.

6. Aðventugarðurinn (2020100172)

Málinu frestað.

7. Umhverfis- og loftlagsstefna Reykjanesbæjar - Beiðni um umsögn (2020021391)

Drög að umhverfis- og loftslagsstefnu Reykjanesbæjar lögð fram. Umhverfis- og skipulagsráð og framtíðarnefnd óska eftir umsögn um stefnuna.
Nefndarmenn eru hvattir til að senda athugasemdir til forstöðumanns Súlunnar sem kemur þeim á framfæri.

8. Þjónustu- og gæðastefna - Beiðni um umsögn (2021020193)

Drög að þjónustu- og gæðastefnu Reykjanesbæjar lögð fram. Bæjarráð óskar eftir umsögn um stefnuna.
Nefndarmenn eru hvattir til að senda athugasemdir til forstöðumanns Súlunnar sem kemur þeim á framfæri.
Málinu er frestað til næsta fundar.

9. Ársskýrsla Súlunnar verkefnastofu 2020 (2021020295)

Ársskýrslur Súlunnar verkefnastofu lögð fram.

10. Starfsáætlanir Súlunnar verkefnastofu 2021 (2021020397)

Starfsáætlanir Súlunnar verkefnastofu lagðar fram.

11. Nýjar sýningar Byggðasafns og Listasafns (2021020542)

Menningar- og atvinnuráð vekur athygli á nýjum sýningum sem opnaðar verða í Duus Safnahúsum laugardaginn 20. febrúar kl. 14.
Byggðasafn Reykjanesbæjar opnar sýninguna Fast þeir sóttu sjóinn – Bátasafn Gríms Karlssonar. Um er að ræða endurgerða sýningu á bátalíkönum Gríms Karlssonar í Bryggjuhúsinu. Sýningunni er ætlað að gefa gestum innsýn í þennan mikilvæga þátt í atvinnulífi Reykjaness, þar sem allt snerist í aldir og áratugi um fiskveiðar. Þá er upplifun í sjálfu sér að skoða einstakan bátaflota Gríms og fær sýningin endurnýjun lífdaga í nýrri uppsetningu í rými sem skapar áhugaverða umgjörð um bátalíkönin. Á nýju sýningunni gefur að líta nánast öll módel Gríms í eigu Byggðsafnsins. Einnig verður sögu vélbátaútgerðar, hafnargerðar og skipasmíða í Keflavík og Njarðvík gerð skil.
Listasafn Reykjanesbæjar opnar sýninguna á og í ; sem samanstendur af nýjum verkum listamannanna, Bjarkar Guðnadóttur, Helgu Páleyjar Friðþjófsdóttur og Yelenu Arakelow, sem sérstaklega eru búin til fyrir sali Listasafns Reykjanesbæjar. Sýningin er unnin í samstarfi við Dansverkstæðið, sem valdi Yelenu Arakelow, sjálfstætt starfandi danshöfund og dansara sem starfar á mörkum myndlistar og danslistarinnar, til liðs við nýja sýningu Listasafns Reykjanesbæjar.
á og í ; er sýning séð út frá sjónarhorni mannslíkamans í gegnum fjölbreytta miðla. Myndverkin eru ólík en hverfast þó öll um þann skala sem líkaminn tekst á við daglega og skynjun manneskjunnar í manngerðu umhverfi. Nálgun listamannanna á viðfangsefnið færir áhorfandanum fjölbreytt sjónarhorn á umfjöllunarefnið, sem að þessu sinni er hugveran og þeir kraftar sem eru áþreifanlega mótandi fyrir manneskjuna í umhverfi hennar.

12. Leiksýning Leikfélags Keflavíkur (2021020543)

Ráðið óskar Leikfélagi Keflavíkur til hamingju með vel heppnaða sýningu á gamanaleiknum Beint í æð eftir Ray Cooney og hvetur íbúa til að sjá hana.

13. Mælaborð Súlunnar verkefnastofu (2020040101)

Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður fór yfir mælaborð vegna desember 2020.

14. Saga Keflavíkur (2019050831)

Fundargerð lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð

15. Fundargerð neyðarstjórnar (2021010061)

Fundargerð neyðarstjórnar lögð fram.
Með því að smella hér opnast fundargerðir neyðarstjórnar   

Samþykkt var að bæta við eftirfarandi máli á dagskrá:

16. Melódíur minninga – sýning í Rokksafni (2021010361)

Rokksafn Íslands opnar nýja sérsýningu þann 7. mars sem heitir Melódíur minningana & Jón Kr. Ólafsson. Sýningin fjallar um söngvarann Jón Kr. Ólafsson og tónlistarsafn hans Melódíur minninga sem staðsett er á Bíldudal. Undirbúningur að sýningunni hefur staðið yfir síðan í júní í fyrra. Á sýningunni má finna fjölmarga muni sem Jón hefur safnað í gegnum tíðina frá tónlistarferli sínum og öðrum tónlistarmönnum svo sem Elly Vilhjálms, Ragga Bjarna, Hauki Morthens, Svavari Gestssyni, Stuðmönnum og fleirum.
Gestir sýningarinnar mun geta upplifað safnið Melódíur minningana sem staðsett er á Bíldudal með aðstoð tækninnar en hluti af sýningunni á Rokksafni Íslands eru gagnvirk sýndarveruleikagleraugu sem gerir gestum kleift að skoða og ganga um tónlistarsafnið sem myndað var sérstaklega fyrir sýninguna.
Sýningin verður formlega opnuð þann 7. mars kl. 15:00 og eru allir velkomnir. Á dagskránni verða tónlistaratriði og mun bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson, opna sýninguna formlega. Léttar veitingar í boði.
Athugið að vegna sóttvarnartakmarkana verður aðeins 150 gestum veittur aðgangur að opnuninni (miðað við núgildandi takmarkanir). Grímuskylda er á safninu og tveggja metra regla. Við biðjum gesti að gæta að persónulegum sóttvörnum og nýta sér spritt sem er á staðnum.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 09.50. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 2. mars 2021.