Geirfuglinn

Geirfuglinn

Neðan við Valahnúk á Reykjanesi.

Verk eftir listamanninn Todd McGrain sett upp á Reykjanesi á Ljósanótt 2010.

Styttan er hluti af verkefni hans The Lost Bird Project þar sem hann vinnur skúlptúra af útdauðum fuglum og kemur þeim fyrir í upprunalegum heimkynnum þeirra. Með því vill hann vekja athygli samtímans á umhverfisvernd og ást á náttúrunni. Hann vinnur fuglana í brons og er hverjum fugli ætlaður staður eftir því hvar upprunanleg heimkynni hans voru. Í tilefni þess að talið er að síðasti geirfuglinn hafi verið drepinn í Eldey 3. júní 1844 var ákveðið að styttan af geirfuglinum yrði sett upp neðan við Valahnúk á Reykjanesi þar sem fuglinn horfir út til Eldeyjar og minnir okkur um leið á sameiginlega ábyrgð allra þjóða á náttúru og umhverfisvernd.

Um verk sitt segir Todd McGrain m.a. „Snerting er mjög mikilvæg í verkinu mínu, einn mikilvægasti þáttur þess. Yfirborð styttunnar er mjúkt eins og steinn sem hefur verið slípaður af sjó og sandi. Þú getur gengið upp að styttunni, snert hana og horft út til eyjarinnar.“ Hann segir staðsetningu þess afar mikilvæga og að með henni náist hið sögulega samhengi. Verkið sé minnisvarði um útdauða tegund auk þess sem útliti geirfuglsins sé breytt með þeim hætti að hann standi eins og maður, frekar en fugl. „Þegar fólk skoðar skúlptúrinn mun það átta sig á því að ákveðin viðkvæmni er í lögun hans sem gerir það að verkum að hann er ekki hrein birtingarmynd geirfuglsins heldur frekar áhrifamikill skúlptúr í líki geirfugls.“

Auk geirfuglsins á Reykjanesi er að finna tvo aðra eftir McGrain, þó ekki nákvæmlega eins, einn við dýragarðinn í Róm og annan á Nýfundnalandi, nærri Funk-eyju. Fimm útdauðar fuglategundir eru í verki McGrain: flökkudúfa, skaftpáfi, labradorönd, lynghæna og geirfugl. Hinir fuglarnir fjórir verða staðsettir í Bandaríkjunum.

 

Ábyrgðaraðili: Listasafn Reykjanesbæjar