Fráveita

Á undanförnum árum hefur verið lögð áhersla á að bæta frárennslismál á Reykjanesi. Fráveitur samanstanda af mannvirkjum sem eru reist til að meðhöndla, flytja eða hreinsa skólp, þar á meðal lagnir, leiðslukerfi, safnræsi og búnað sem er notaður við hreinsun og meðhöndlun skólps.

Fráveita og mengun

Fráveitukerfi Reykjanesbæjar er að mestu tvöfalt í nýrri hverfum sem reist voru eftir 1970. Fráveitukerfið flytur skólp frá heimilum og fyrirtækjum í hreinsistöð á Fitjabraut 1c.

Ofanvatn, sem er regnvatn og leysingarvatn, rennur af húsþökum, götum, bílastæðum, gangstéttum og öðru þéttu yfirborði. Það er leitt í sérstakt ofanvatnskerfi sem fer fram hjá hreinsistöðvum og er losað beint í næsta viðtaka, svo sem læki, ár eða strandsjó. Í nýrri byggð er lögð áhersla á að nýta blágrænar ofanvatnslausnir þar sem ofanvatn er leyst innan lóðar. Í eldri byggð rennur regnvatn hins vegar enn í skólpkerfið, en unnið er markvisst að breytingum til að aðskilja það frá skólpi.

Heilbrigðiseftirlit

Heilbrigðiseftirlit Reykjanesbæjar fær reglulega ábendingar um mengun sem berst með ofanvatni í viðtaka á svæðinu. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að mengandi efni, svo sem málning, þynni, fita eða olía, endi í niðurföllum. Eingöngu vatn sem skaðar hvorki lífríki né heilsu manna á að fara í ofanvatnslagnir. Öll spilliefni skulu afhent á grenndarstöð eða móttökusvæði Kölku.

Almennt um fráveitu

Fráveituvatn er það vatn sem hefur verið notað, til dæmis baðvatn, vatn úr vöskum, klósettum, þvottavélum eða við bílaþvott. Við notkun blandast vatnið ýmsum efnum eins og úrgangi, matarleifum, olíum, sápum og hreinsiefnum. Hver og einn ber ábyrgð á að koma í veg fyrir að mengandi efni fari í fráveituvatnið, þar sem slík losun getur haft skaðleg áhrif á umhverfið, lífríkið og einnig valdið skemmdum á fráveitukerfinu.

Regluverk

Í gildi er reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp, sem byggir á evróputilskipun nr. 271/1991/EBE. Reglugerðin setur fram kröfur um hreinsun skólps og hefur það markmið að vernda almenning og umhverfið gegn mengun af völdum skólps.

Auk þess eru í gildi lög nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna, sem kveða á um skyldur sveitarfélaga varðandi uppbyggingu og rekstur fráveitna.

Skyldur fasteignaeigenda

Í 12. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitu er fjallað um fráveitulagnir og skyldur fasteignaeigenda

  • Fasteignaeigendur bera ábyrgð á lagningu og viðhaldi heimæða að tengingu við fráveitukerfi.
  • Heimæðar skulu tengjast fráveitukerfi á tilgreindum stað með réttum hæðarsetningi.
  • Endurnýjun heimæða skal tryggja að ofanvatn og skólp séu aðgreind, nema annað sé heimilað.
  • Húseigendur skulu tryggja að fráveitulagnir stíflist ekki og séu í góðu ástandi.

Rotþrær og siturlagnir

Skólp frá húseignum í Reykjanesbæ, sem ekki er hægt að tengja við fráveitukerfi bæjarins, skal leiða um rotþró. Í slíkum tilfellum ber húseigendum að senda umsókn um byggingu eða endurgerð rotþróar til Byggingafulltrúa Reykjanesbæjar ásamt nauðsynlegum teikningum og fylgigögnum.

Almennar reglur um rotþrær eru settar fram í reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp, sem kveður á um skilyrði og kröfur varðandi uppsetningu og notkun rotþróa. Frekari leiðbeiningar og sértækar kröfur í Reykjanesbæ má fá hjá Byggingafulltrúanum, sem sér um að samræma framkvæmd við gildandi reglur.

Bráðamengun

Með bráðamengun er átt við skyndilegan atburð sem krefst tafarlausra viðbragða. Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með bráðamengun hafs og stranda og mengunaróhöppum almennt á landinu í heild. Skipulag sjálfra viðbragðanna er hins vegar skipt eftir staðsetningu mengunaróhappsins. Slökkviliðsstjóri á hverjum stað hefur með höndum stjórn á vettvangi við mengunaróhöpp á landi skv. lögum nr. 75/2000 um brunavarnir. 

  • Bráðamengun á landi skal tilkynna til slökkviliðs eða lögreglu í síma 112.
  • Bráðamengun á sjó skal tilkynna til Landhelgisgæslunnar í síma 511 3333.

Bílaþvottur

Bílaþvottur með efnum við heimahús er ekki æskilegur þar sem mengandi efni geta komist út í náttúruna. Notið bílaþvottastöðvar með viðeigandi mengunarvarnarbúnaði.
Reglur

  • Þvoið bílinn á þvottastöð þar sem frárennslisvatn er hreinsað.
  • Sleppið notkun efna ef hægt er eða notið umhverfisvottuð hreinsiefni.

 

Blágrænar ofanvatnslausnir í Reykjanesbæ

Nýr veitustjóri fráveitu í Reykjanesbæ