Heilbrigðisráðherra hefur í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis ákveðið að herða til muna sóttvarnaaðgerðir til að sporna við hraðri útbreiðslu Covid-19. Aðgerðirnar taka gildi á miðnætti. Almennar fjöldatakmarkanir verða 50 manns en með notkun hraðprófa verður heimilt að efna til viðburða með að hámarki 500 manns í sóttvarnahólfi. Opnunartími veitingastaða verður styttur um klukkustund. Hámarksfjöldi gesta á sund- og baðstöðum, líkamsræktarstöðvum og skíðasvæðum miðast við 75% af heimiluðum hámarksfjölda samkvæmt starfsleyfi. Reglugerð um þessar aðgerðir gildir til og með 8. desember.
Mikil fjölgun smita innanlands með vaxandi álagi á heilbrigðiskerfið, smitrakningu og sóttvarnahúsa er meginástæða hertra takmarkana. Vegna ástandsins hefur orðið veruleg röskun á ýmissi þjónustu Landspítala og skortur er á starfsfólki. Vaxandi álag er á Sjúkrahúsinu á Akureyri og sama máli gegnir um margar aðrar heilbrigðisstofnanir segir í minnisblaði sóttvarnalæknis til ráðherra. Þá sé starfsemi rakningateymis í uppnámi, sóttvarnahús að fyllast og álag á Læknavaktina og heilsugæsluna hefur aukist vegna faraldursins. Sóttvarnalæknir segir harðar sóttvarnaaðgerðir nauðsynlegar meðan unnið er að því að ná víðtæku ónæmi í samfélaginu með örvunarbólusetningum sem þegar eru hafnar. Gert er ráð fyrir að boða um 160.000 manns um allt land í örvunarbólusetningu fyrir áramót.
Takmarkanir sem taka gildi á miðnætti, aðfaranótt 13. nóvember:
- Almennar fjöldatakmarkanir 50 manns: Börn fædd 2016 og síðar teljast ekki með. Í þessu felst að óheimilt er að fleiri en 50 komi saman, hvort heldur inni eða utandyra, í opinberum rýmum eða einkarýmum.
- Nálægðarmörk 1 metri milli ótengdra aðila: Ef ekki er hægt að virða mörkin er skylt að nota andlitsgrímu. Þrátt fyrir þetta eru íþróttir með snertingu áfram heimilar hjá börnum og fullorðnum. Enn fremur eru leikskólabörn og nemendur í 1. til 4. bekk í grunnskóla undanþegin 1 metra reglunni.
- Grímunotkun: Skylt er að nota grímu sé ekki hægt að virða 1 metra reglu, s.s. í verslunum, almenningssamgöngum og starfsemi sem krefst nándar, t.d. á hárgreiðslustofum. Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin grímuskyldu.
- Fjölmennir viðburðir með notkun hraðprófa: Heimilt er að halda viðburði fyrir 500 manns í hverju sóttvarnahólfi ef allir gestir fæddir 2015 og fyrr framvísa neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi sem má ekki vera eldra en 48 klst. Ef ekki er hægt að uppfylla 1 metra reglu skulu gestir bera grímu, að undanskildum börnum fæddum 2006 eða síðar. Heimilt er að víkja frá 1 metra reglu þegar gestir sitja en þá ber að nota grímu. Skylt er að skrá gesti í föstum sætum með nafni, kennitölu og símanúmeri. Óheimilt er að selja veitingar í hléi. Á skólaskemmtunum með hraðprófum í grunn- og framhaldsskólum er undanþága frá 1 metra reglu og grímuskyldu.
- Sund-, baðstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðasvæði mega taka á móti 75% af leyfilegum hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi. Börn fædd 2016 eða síðar teljast ekki með.
- Opnunartími veitingastaða o.fl.: Veitingahúsum og öðrum stöðum þar sem áfengisveitingar eru heimilar er óheimilt að hleypa inn nýjum viðskiptavinum eftir kl. 22.00 og allir gestir eiga að vera farnir hið síðasta kl. 23.00. Vínveitingar skulu aðeins bornar fram til sitjandi gesta. Skylt er að halda skrá yfir gesti. Einkasamkvæmi á stöðum með vínveitingaleyfi eru óheimil eftir kl. 23.00.
- Verslanir og söfn: Í verslunum og söfnum gilda almennar reglur um 50 manna fjöldatakmörk, 1 metra reglu og grímuskyldu. Þó er heimilt að taka á móti fimm viðskiptavinum til viðbótar á hverja 10 m² en þó aldrei fleirum en 500 að hámarki.
Skólastarf:
- Í skólastarfi gilda almennar reglur um 50 manna fjöldatakmörk nema börn fædd 2016 og síðar eru undanskilin. Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin grímuskyldu.
- Starfsfólki í leikskólum er ekki skylt að nota grímu í samskiptum við leikskólabörn.
- Kennurum í grunnskólum er heimilt að taka niður grímu eftir að sest er niður inni í skólastofum.
- Nemendum og kennurum í framhaldsskólum er heimilt að taka niður grímu eftir að sest er niður inni í skólastofum.
- Blöndun milli hópa í skólastarfi er heimil á öllum skólastigum.
Sjá nánar: