Hægðu á þér. 30 kílómetra hámarkshraði.
Mikill árangur hefur náðst í auknu umferðaröryggi í Reykjanesbæ með lækkun hámarkshraða í 30km íbúahverfum. Því hefur m.a. verið fylgt eftir með mælingum í hverfum með sérstökum hraðagreini sem gefur ýmsar upplýsingar um umferðina s.s. fjölda bíla, meðalhraða þeirra og fleira. Þetta er talið eiga stóran þátt í verulegri fækkun umferðarslysa í Reykjanesbæ á undanförnum árum.
Þetta kom fram á umferðaröryggisþingi sem haldið var í Reykjanesbæ s.l. fimmtudag en þar komu saman til skrafs og ráðagerða starfsmenn umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar, lögreglu, umferðarstofu, fulltrúar foreldrafélaga og íbúar.
Upplýsingar úr hraðagreinum eru nýttar til þess að greina umferð í hverfunum og m.a. þörf fyrir hraðahamlandi aðgerðir eins og hraðahindranir. Einnig eru þær sendar til lögreglunnar sem nýtir þær í starfi sínu. Jafnframt hefur Reykjanesbær unnið með lögreglu í sérstöku átaki í hraðamælingum sem gerðar eru þá viku í senn í ákveðnum hverfum og hafa þá ökumenn fengið sekt fyrir að aka hraðar en 30 km í íbúahverfi.
Þessar aðgerðir hafa aukið meðvitund íbúa um umferðarhraða í hverfum og lækkað hann umtalsvert.