Heiðursborgararnir ásamt bæjarstjórn og bæjarstjóra Reykjanesbæjar
Tveir nýir heiðursborgarar útnefndir á 30 ára afmælisdegi Reykjanesbæjar
Albert Albertsson og Sólveig Þórðardóttir voru útnefnd heiðursborgarar Reykjanesbæjar á hátíðarfundi bæjarstjórnar í gær 11. júní.
Albert og Sólveig eru annar og þriðji heiðursborgari Reykjanesbæjar en árið 2016 fékk Ellert Eiríksson fyrrum bæjarstjóri þá nafnbót. Í ræðu Guðnýjar Birnu Guðmundsdóttur forseta bæjarstjórnar á fundinum kom fram að Albert og Sólveig hafi bæði unnið ötullega í sínum málaflokkum og um leið fyrir samfélagið í heild þó málaflokkar þeirra séu eins ólíkir og hugsast getur. Sólveig var útnefnd fyrir mikilvægt framlag til fæðingarþjónustu og Albert fyrir mikilvægt framlag til þróunar og sjálfbærni.
Umsögn um Albert Albertsson
Albert er fæddur 30. desember 1948 og uppalinn á Skólavörðuholtinu í Reykjavík.
Albert hefur talað um að hafa alist upp með sjálfbærni að markmiði allt sitt líf en hann lærði snemma að bera virðingu fyrir náttúrunni og dýrmætum gjöfum hennar.
Albert lærði vélaverkfræði frá Háskóla Íslands og fór í mastersnám í Stokkhólmsháskóla. Albert hóf störf hjá Hitaveitu Suðurnesja árið 1977 þar sem hann hafði tæknilega yfirstjórn með virkjun jarðhitans í Svartsengi og gerð hitaveitunnar, þar sem rýni hönnunar, reksturs og viðhalds mannvirkja var kjarninn í störfum hans. Hann starfaði alla sína starfsævi, eða í 45 ár hjá Hitaveitu Suðurnesja og síðar hjá HS Orku.
Leiðarljós í störfum Alberts hjá Hitaveitunni var að nýta ætti auðlindirnar þ.e. grunnvatnið og jarðhitann á ábyrgan hátt og sóa þeim ekki. Þessi stefna ásamt því að fjölnýta auðlinda straumana til að auka nýtingu þeirra án þess að ganga frekar á auðlinda forðann mótaði fyrirtækið til framtíðar. Þetta hefur einkennt hitaveituna frá upphafi og skapað henni fyrirmyndar orðspor bæði hér heima og erlendis. Eðli starfsins krafðist þess að starfsemi hitaveitunnar yrði skipulögð til langrar framtíðar.
Fyrir rúmum 30 árum síðan setti Albert fram eins konar tillögu sem hann kallaði Auðlindagarðshugsun sem hefur yfirskriftina samfélag án sóunar.
Kjarni auðlinda hugsunarinnar er að jörðin er heilög og ómetanleg og því ber okkur að umgangast hana og auðlindir hennar af ábyrgð, manninum ber að nýta auðlindir jarðar á sem hagkvæmastan hátt og sóa þeim ekki. Úrgangur og afföll eins fyrirtækis getur reynst dýrmætt hráefni fyrir annað fyrirtæki, nýta verður auðlindirnar á sjálfbæran hátt, endurnýta ber alla hluti svo lengi sem unnt er ásamt því að byggja brú á milli ólíkra menningar- og tækniheima.
Af þessari hugsun spratt svo Auðlindagarður HS Orku sem er í grennd varmaveranna í Svartsengi og á Reykjanesi. Fyrirtæki Auðlindagarðsins eru m.a. Bláa Lónið, CRI, Matorka, Laugafiskur, Haustak, Stolt Fishfarm Iceland o.fl. Öll eiga þessi fyrirtæki það sameiginlegt að þau nýta affall frá varmaverunum sem hráefni og eru í útflutningi.
Auðlindagarðar og hugsunin að baki þeirra hafa nú fest rætur á Íslandi og erlendis en Albert hlaut fálkaorðu forseta Íslands árið 2018 fyrir framlag sitt á vettvangi jarðhitanýtingar.
Að sögn Alberts hefur hann
„verið eitt lítið tannhjól í flóknu klukkuverki Hitaveitu Suðurnesja og síðar HS Orku.“
Til hamingju Albert og kærar þakkir fyrir framlag þitt til sjálfbærnimála og uppbyggingar samfélagsins okkar síðastliðna áratugi.
Umsögn um Sólveigu Þórðardóttur
Sólveig er fædd í Keflavík þann 1. október 1940. Hún bjó með eiginmanni sínum Jónatan Björns Einarssyni og börnum í Keflavík fram til ársins 1984 þegar þau fluttu á Tunguveg í Njarðvík.
Sólveig lauk gagnfræðaprófi frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði árið 1974, ljósmæðranámi frá Ljósmæðraskóla Íslands árið 1978 og hjúkrun frá Nýja hjúkrunarskólanum árið 1981. Sólveig lauk einnig námi í hugrænni atferlismeðferð árið 2007.
Sólveig starfaði við fiskvinnslu, sem kaupakona í sveit, kokkur á síldarbát og gangastúlka á Sjúkrahúsi Keflavíkur á sínum yngri árum. Að loknu námi starfaði hún á fæðinga- og kvensjúkdómadeild Sjúkrahúss Keflavíkur þar af sem deildarstjóri frá árinu 1982 og gegndi því starfi til ársins 1997, fyrir utan eitt og hálft ár þegar hún starfaði sem yfirljósmóðir Fæðingarheimilis Reykjavíkur (1989-1991). Árið 1997 gerðist hún hjúkrunarforstjóri á Heilsugæslu HSS í Grindavík en lét af því starfi árið 2008.
Sólveig hefur unnið mikið að félagsstörfum og stjórnmálum á Suðurnesjum. Hún var stofnfélagi í Styrktarfélagi aldraðra á Suðurnesjum sem stofnað var 1974. Hún var einnig stofnfélagi Suðurnesjadeildar Ljósmæðra og formaður 1977-1982.
Sólveig var félagi í Alþýðubandalaginu í Keflavík frá stofnun og leiddi N-lista Félagshyggjufólks í Njarðvík 1990, sat í bæjarráði og var forseti bæjarstjórnar Njarðvíkurbæjar í aðdraganda sameiningar sveitarfélaganna.
Jafnrétti kynjanna hefur alla tíð verið Sólveigu hugleikið, ekki síst í tengslum við málefni nýorðinna foreldra þar sem hún beitti sér sérstaklega fyrir auknum rétti feðra. Sólveig hefur skrifað bæði fræðsluefni og blaðagreinar til að styrkja þessi fyrstu tengsl föður og barns, einnig var hún hvatamaður að stofnun Áhugafélags um brjóstagjöf. Auk þessa hefur Sólveig verið ötull talsmaður uppbyggingar heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum og komið víða að í þeirri baráttu.
Sólveig Þórðardóttir hefur verið frumkvöðull í þjónustu við þungaðar konur, við fæðingarþjónustu og var framsýn á sínum tíma um uppbyggingu á góðri heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum. Í gömlu blaðaviðtali við Sólveigu sagði hún árið 1986:
„Ég sem ljósmóðir hef sýn á ýmsum málum sem viðkemur ungu fólki. Og um Suðurnesin sagði hún „hér eru mörg ónýtt tækifæri, svo sem í ferðaþjónustu, heilsurækt og nýting orkunnar. Hér getur verið vagga iðnaðar í landinu“.
Til hamingju Sólveig og kærar þakkir fyrir framlag þitt til fæðingar- og heilbrigðisþjónustu og uppbyggingar samfélagsins okkar í gegnum árin.