Frá gróðursetningu í Aldingarði æskunnar á sumardaginn fyrsta sl. sumar. Garðurinn er í umsjón Suðurnesjadeildar Garðyrkjufélags Íslands, sem er mjög drífandi félag.
Í byrjun árs hafa margir strengt áramótaheit um ýmiskonar betrun og bætingu á eigin sjálfi. Þá er upplagt að skoða einnig hvaða áhrif maður getur haft á samfélagið í kringum sig.
Hvað getur þú gert til að hafa jákvæð áhrif á þitt nánasta umhverfi og bæjarfélagið?
Áhrifin sem íbúar hafa eru stórkostleg. Allt sem við veljum hefur lykiláhrif á til dæmis loftslagsbreytingar, keyrir áfram efnahag samfélagsins og byggir upp okkar eigin heilsu og hamingju.
Hvað nýársheiti getum við strengt til að bæta líf okkar og fjölskyldu okkar? Til að gera okkur kleift að verða hamingjusamari, heilbrigðari og njóta meiri velgengni samhliða því að bæta samfélagið fyrir alla?
Hér eru nokkrar hugmyndir:
- Notaðu fjölbreyttan ferðamáta. Labbaðu, hjólaðu, renndu þér, notaðu almenningssamgöngur eins oft og þú getur. Auðvitað verða margir að nota bíl, en ef það þarf bara að skjótast í búð og hún er í göngufæri? Jafnvel hjólafæri?
- Kenndu börnunum þínum hvaða leið er hægt að labba eða hjóla í skólann eða á æfingu. Kennum þeim að klæða sig eftir veðri og labba meira. Minnkum skutlið!
- Notaðu tækifærin til að staldra við. Stoppaðu við í skrúðgarðinum, taktu stuttan labbitúr í bænum. Nærvera þín býr til aukið líf, orku og öryggi fyrir aðra á svæðinu og svæðið þar að leiðandi aðlaðandi fyrir alla.
- Farðu á bókasafnið, því fleiri sem nýta sér þjónustu bókasafnsins því betra verður það. Þar er frábært aðgengi að bókum, tímaritum og skemmtilegum viðburðum fyrir fjölskylduna. Árskort kostar aðeins 1.900kr og það er ókeypis fyrir börn!
- Verslaðu í heimabyggð. Þá á ég ekki við að þú þurfir að versla alltaf allt í heimabyggð, en með því að styrkja listamenn og þjónustuaðila á svæðinu eru minni líkur á að þeir hætti rekstri. Bæjarlífið verður auðugra þegar hlúð er að litlum atvinnurekstri, skapandi starfsemi og veitingahúsum. Það gefur bæjarlífinu mikinn karakter og hjálpar staðbundinni menningu til að blómstra.
- Verslaðu líka minna. Það er öllum holt að skoða neysluvenjur sínar og þá ekki bara í matarinnkaupum. Flest eigum við alltof mikið af öllu.
- Hugsaðu vel um lóðina þína. Týndu upp ruslið og hreinsaðu arfann. Það tekur ekki svo langan tíma og er mannbætandi fyrir sál og líkama. Ef þú átt auka tíma hugsaðu þá líka út fyrir lóðamörkin, allt umhverfið skiptir máli og það líður öllum betur þegar því er vel við haldið. Vertu umhverfishetja sem gerir og græjar, en þú getur líka látið vita á rétta staði ef eitthvað er í ólagi. Betur sjá augu en auga og þetta er jú bærinn okkar og ábyrgðin okkar.
- Hafðu fjölbreyttan gróður í garðinum þínum. Það eru ekki bara tré á bæjarlandinu eða úti í sveit sem hafa áhrif á loftslagsbreytingar og kolefnisjafna. Mikið af gróðri bindur einnig svifryk og aðra mengun og hreinsar andrúmsloftið. Það er því mikilvægt að viðhalda öllum okkar grænu innviðum.
- Ertu búin(n) með plássið í garðinum þínum eða áttu ekki garð? Gakktu til liðs við skógræktarfélagið á svæðinu. Tilvalin leið til að minnka flugviskubitið eða bara til þess að láta gott af sér leiða úti í guðs grænni náttúrunni. Hægt er að skrá sig í flest skógræktarfélög inn á www.skog.is.
- Gakktu til liðs við hvaða félag sem er á svæðinu, sérstaklega félög sem taka þátt í einhverri uppbyggingu. Því fleiri sem taka þátt því líklegra er það til árangurs og því fjölbreyttara og skemmtilegra verður samfélagið.
- Taktu myndir af því sem er fallegt og deildu á samfélagsmiðlum. Opnaðu augun fyrir þeirri fegurð sem er í umhverfinu og njóttu þeirrar gleði að taka þátt í að gera samfélagið betra. Hjálpaðu svo öðrum að gera slíkt hið sama.
- Taktu þátt. Fylgstu með því sem yfirvöld á svæðinu er að gera og mættu á íbúafundinn og síðast en ekki síst, mættu á kjörstað. Það er mikilvægt að taka þátt í að velja þá ráðamenn sem munu hafa völd og áhrif á okkar daglega líf.
Ég óska ykkur öllum hamingju og farsældar á komandi ári og hlakka til að sjá allt sem við getum gert saman verða að veruleika.
Berglind Ásgeirsdóttir garðyrkjufræðingur hjá Reykjanesbæ