Gul viðvörun er nú í gildi á Faxaflóasvæði. Ljósmynd: Veðurstofan
Uppfærð frétt.
Enn er búið að gefa út gula viðvörun fyrir Faxaflóasvæði enda hríðarveður með blindbyl á köflum. Samkvæmt upplýsingum frá veðurstofu er nú suðvestan 5 til 23 m/s með éljagangi og verður frameftir degi. Búast má við takmörkuðu eða lélegu skyggni í éljum, versnandi akstursskilyrðum og samgöngutruflunum, einkum í efribyggðum. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.
Foreldrar eru beðnir um að fylgja börnum til skóla og tómstundum í verstu byljunum.
Flug hefur raskast í dag og eru notendur strætó beðnir um að fylgjast með tilkynningum hjá Bus4u og Strætó bs.
Frétt 7. janúar kl. 13:00
Veðurstofan spáir hvassviðri eða stormi þegar líða tekur á daginn og er fólk hvatt til að fylgjast vel með viðvörunum. Íbúar eru beðnir um að huga vel að lausamunum og að meta ástandið hverju sinni þegar börn eru að fara til og frá skóla eða tómstundum.
Gul viðvörun hefur verið gefin út fyrir allt landið í dag. Búast má við hvassviðri eða stormi frá kl. 15:00 í dag og frameftir morgni þann 8. janúar. Á Faxaflóa getur vindur farið í allt að 25m/s úr suðvestri með éljagangi.
Röskun verður á flugi í dag og á morgun og er fólk hvatt til að fylgjast með komum og brottförum á vef Isavia.
Landsnet hefur gefið það út að viðbragðsáætlun hafi verið virkjuð fyrir Reykjanes, þar sem veðuráraun eykst á raforkukerfið.
Þá hefur Strætó bs. sent frá sér tilkynningu um að tvísýnt verði með ferðir á Suðurnesjum þegar líða tekur á daginn.
Vefur Veðurstofu Íslands
Vefur Isavia, keflavíkurflugvöllur
Vefur Landsnets
Vefur almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra
Vefur Strætó