Frá verðlaunaafhendingunni í Hörpu í gær.
Leikskólinn Holt fékk í gær gæðaviðurkenningu Erasmun+ fyrir verkefnið „Gegnum lýðræði til læsis“ sem framúrskarandi Evrópuverkefni. Bók um verkefnið er væntanleg.Viðurkenningin var veitt á 30 ára afmælishátíð Erasmus áætlunarinnar sem haldin var í Hörpu.
Verkefni leikskólans hófst árið 2015 og er starfsverkefni skóla í fjórum löndum: Íslandi, Póllandi, Spáni og Slóveníu. Holt var stýriskóli verkefnisins og verkefnastjórar voru Anna Sofia Wahlström, Kristín Helgadóttir og Heiða Ingólfsdóttir.
Verkefninu var skipt niður í fjögur tímabil þar sem unnið var að ákveðnum þáttum í skólastarfinu. Fyrsta tímabil var hlutverk kennarans skoðað, annað tímabil var einblínt á þátttöku barna og lærdómsferli þeirra, þriðja var hlutverk foreldra og síðasta tímabilið var dagskipulagið og umhverfi skólana skoðað. Hvert tímabil innihélt kennaraskipti, eTwinning verkefni og aðferðir tengdar lýðræði og læsi skoðaðar. Verkefnið hefur verið afar lærdómsríkt, skemmtilegt og gefandi fyrir kennara skólans og að fá verðlaun sem þessi er til að efla kennarahópinn til enn frekara þróunarstarfs.
Erasmusinn 2017 var afhentur við hátíðlega athöfn í tónlistarhúsinu Hörpunni miðvikudaginn 8. nóvember sl. í tilefni af 30 ára afmæli Erasmus áætlunarinnar. Leikskólinn Holt var tilnefndur til verðlauna ásamt fjölda annarra verkefna frá leikskóla til háskóla. Á afmælishátíðinni voru veittar gæðaviðurkenningar Erasmus+ fyrir framúrskarandi Evrópuverkefni og hlutu sex verkefni, sem hafa verið styrkt af áætluninni, viðurkenningarnar í ár. Dómnefnd horfði til gæða, nýsköpunar, yfirfærslumöguleika, áhrifa, varanleika og verkefnastjórnunar við val á verðlaunaverkefnunum. Holt hlaut verðlaun í flokknum Rafrænt skólasamstarf fyrir verkefnið „Gegnum lýðræði til læsis“.