Undirbúningur að Listahátíð barna stendur nú sem hæst yfir en hún er nú haldin í 5. sinn og er grunnurinn að stórri barnahátíð í Reykjanesbæ sem haldin verður 21. - 25. apríl n.k.
Listahátíð barna sem nú verður haldin hátíðleg í 5. sinn er samvinnuverkefni Listasafns Reykjanesbæjar og allra 10 leikskóla Reykjanesbæjar. Hátíðin hefur vaxið og eflst með hverju ári og segja má að hún hafi orðið kveikjan að þeirri stóru barnahátíð sem nú verður haldin í Reykjanesbæ þar sem virðing fyrir börnum og störfum þeirra og þörfum er höfð að leiðarljósi.
Yfirskrift listahátíðar barna árið 2010 er Hafið og á öllum leikskólum hafa börnin fræðst um hafið og með margvíslegum hætti. Alls kyns listaverk hafa litið dagsins ljós, æfðir hafa verið nýir söngvar um fiska og haf, sjávardýr hafa verið krufin og svona mætti lengi telja. Hápunkturinn er sjálf listahátíðin sem sett verður með formlegum hætti í Duushúsum síðasta vetrardag, miðvikudaginn 21. apríl kl. 10.30. Það er vel við hæfi að sá viðburður verður einnig upphafsatriði Barnahátíðar í Reykjanesbæ.
Á listahátíðinni verður leitast við að skapa neðansjávarheim í Listasal með öllum þeim undrum sem þar finnast. Listasmiðja verður starfrækt í Bíósal sem stendur öllum bæjarbúum opin og þar verða einnig myndlistarverk frá öllum leikskólunum. Dagana 23. - 30. apríl koma leikskólarnir í heimsókn og standa fyrir stuttri skemmtidagskrá sem er öllum opin.
Sérstakur viðburður tengdur hátíðinni verður heimsókn Svabba sjóara sem fræðir börnin um íslensk vatnaskrímsli í Bíósal, laugardaginn 24. apríl kl. 14.00 og 15.00
Sýningin stendur frá 21. apríl til 2. maí og listasmiðjan verður starfrækt allan tímann. Opið virka daga frá kl. 11.00 - 17.00 og um helgar frá kl. 13.00 - 17.00. Ókeypis aðgangur.