Fallegur jólagluggi Bústoðs.
Reykjanesbær hefur staðið fyrir samkeppni um Ljósahús bæjarins frá árinu 2001 og er þetta því í tólfta sinn sem veittar eru viðurkenningar fyrir bestu ljósaskreytingarnar í bænum. Reykjanesbær hefur lengi verið þekktur fyrir mikla ljósadýrð og margir gera sér sérstaka ferð á aðventunni til bæjarins til að skoða ljósadýrðina. Viðurkenningar í samkeppninni um Ljósahús Reykjanesbæjar 2012 voru afhentar mánudaginn 17. des. kl. 18.00.
Í ár var breytt verklag tekið upp og hin skipaða „jólanefnd“ tilnefndi nú tíu hús sem bæjarbúar sjálfir fengu að velja úr í rafrænni kosningu á vef Víkurfrétta í stað þess að áður tilnefndu bæjarbúar fjölda húsa sem nefndin valdi svo úr. Tæplega 1.500 manns tóku þátt í valinu og er það miklu fleira fólk en sendi venjulega inn tilnefningar. Þessi aðferð virðist því ná betur til íbúanna og ákveðið er að halda þessu verklagi áfram á næsta ári. Í valnefndinni sátu fulltrúar frá menningarráði, umhverfis- og skipulagsráði ásamt fulltrúa Víkurfrétta en það voru auðvitað íbúarnir sjálfir sem kusu sér Ljósahús.
Úrslitin urðu eftirfarandi:
1. Týsvellir 1
2. Bragavellir 3
3. Óðinsvellir 6
Verðlaunahafa fengu viðurkenningarskjal frá Reykjanesbæ og frá Hs-Orku/Veitu fengust ávísanir upp í orkureikninginn í desember að upphæð kr. 30.000 fyrir fyrsta sætið, 20.000 fyrir annað sætið og 15.000 fyrir þriðja sætið. Enn er hægt að sjá hvað hús voru tilnefnd og myndir af þeim öllum á vef Víkurfrétta vf.is.
Við sama tækifæri voru veittar þrjár viðurkenningar fyrir fallegustu jólagluggana í verslunum og fyrirtækjum bæjarins og eftirfarandi fyrirtæki hlutu viðurkenningar fyrir glæsilegar skreytingar.
1. Bústoð
2. Cabo
3. Hárfaktorý