Sæþór Elí og Aron Gauti sýna virkni vélmennisins sem hópurinn smíðaði. Hjá stendur Íris Dröfn Halldórsdóttir kennari og annar umsjónaraðila Legó keppninnar.
Myllarnir úr Myllubakkaskóla munu enn á ný spreyta sig í FIRST LEGO League hönnunarkeppninni sem fram fer í Háskólabíói laugardaginn 11. nóvember. Vatn er viðfangsefni keppninnar í ár og mun þau einblína á sóun vatns og dýrmæti vatnsins sem auðlindar. Þau fengu að æfa sig í Ráðhúsi Reykjanesbæjar í morgun og vakti verkefnið mikla athygli.
Myllarnir samanstanda af 7 nemendum úr 8. bekk í Myllubakkaskóla, þeim Aroni Gauta, Gyðu Dröfn, Helgu Rut, Júlíu Mist, Maksymilian, Maríu Rós og Sæþór Elí sem áhuga hafa á hönnunarkeppninni. Markmiðið hönnunarkeppninnar er að vekja áhuga ungs fólks á vísindum og tækni en um leið efla sjálfstraust, leiðtogahæfni og lífsleikni. Umsjón með æfingum Myllanna hafa kennararnir Íris Dröfn Halldórsdóttir og Ingibjörg Jóna Kristinsdóttir.
Keppnin er þríþætt, rannsókn, hönnun vélmennis og samvinna og liðsheild. Allt þarf að ganga upp til að ná langt í keppninni. Það tókst svo sannarlega hjá Myllunum í fyrra, sem sigruðu keppnina og fóru með verkefni sitt í keppni á erlendri grundu.
Mikil vinna hefur farið í að finna rannsóknarefni sem tengist vatninu. Að endingu ákvað hópurinn að einblína á þá sóun sem á sér stað við framleiðslu á bómullarfatnaði á sama tíma og margar þjóðir búa við vatnsskort. Rannsókn hópsins leiddi í ljós að 3000 lítra af vatni þarf til að búa til einn bol. Þau vilja því beina sjónum fólks að því að þó Íslendingar búi ekki við vatnsskort er það veruleiki margra þjóða þar sem framleiðsla bómullarvara fer fram. Því þurfi fólk að spyrja sig hvort þörf sé á öllum þessu fatnaði, hvernig draga megi úr offramleiðslu og sóun vatns, s.s. með endurnýtingu og kaupum á lífrænum vörum sem ekki nýta vatn í þessu mæli. Aðeins 1% vatns í heiminum er drykkjarhæft. Það vilja Myllarnir að fólk sé meðvitað um.
Hér má horfa á kynningarmyndband Myllanna