Frá kynningu nýja bæjarhliðsins.
Í dag fór fram stutt athöfn við eitt af nýju bæjarhliðunum sem eru staðsett við Reykjanesbraut. Hliðin hafa sterka skírskotun í náttúru svæðisins en þau eru grjóthlaðin með hraunhellum af Reykjanesi með fallegum merkingum sem bjóða gesti velkomna á ýmsum tungumálum og vísa þeim veginn inn í miðbæ Reykjanesbæjar.
Við þetta tilefni flutti Magnea Guðmundsdóttir, formaður, umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar stutt ávarp þar sem hún rakti hvernig og hverjir stóðu að framkvæmdinni um leið og hún lýsti því að í Reykjanesbæ ríkti hlýja, kraftur og lífsgleði og með þeim hætti tækju íbúar Reykjanesbæjar á móti bæði heimafólki og gestum sem fara í gegnum hin nýju bæjarhlið. Ávarp Magneu má lesa í heild sinni hér að neðan.
Ávarp Magneu Guðmundsdóttur:
Kæru gestir,
Það er ánægjulegt að vera hér í dag á öðrum degi Ljósanæturhátíðarinnar og fá tækifæri til að kynna bæjarhliðin okkar. Eins og sjá má hafa hafa þau sterka skírskotun í náttúru svæðisins þar sem hraunhellur af Reykjanesi setja svip sinn á hliðin en þær þurfti að færa vegna framkvæmda á Reykjanesi og nýtast því hér hjá okkur. Hraunhleðslan var í höndum fyrirtækisins Grjótgarða og unnin undir handleiðslu Birgis Axelssonar, skrúðgarðsmeistara. Ellert Skúlason sá um mótun mana og þökulögn og Nesraf um raflagnir. Inga Rut hjá arkitektastofunni Forma kom að hönnun hliðanna.
Við bjóðum gesti velkomna á nokkrum tungumálum sem er vel við hæfi þar sem við erum staðsett við alþjóðaflugvöllinn og mikill meirihluti þeirra gesta sem sækja Ísland heim fara um svæðið.
Gömlu bæjarnöfnin okkar, Njarðvík, Keflavík eiga sér ríka sögu og því er viðeigandi að þau komi fram á merkingunum auk merkis Reykjanesbæjar. Þá þekkja flestir orðið Center eða miðbær og með því viljum við vekja athygli á miðbænum og vonandi verður það til þess vekja áhuga ferðamanna á bænum okkar.
Á þessum fallega degi er vel við hæfi að hafa nýtt slagorð Ljósanætur í huga, við syngjum um lífið. Í bænum okkar ríkir hlýja, kraftur og lífsgleði og með þeim hætti tökum við á móti þeim bæði heimafólki og gestum sem fara í gegnum hin nýju bæjarhlið.