Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar
Eins og komið hefur í ljós hefur Covid19 heimsfaraldurinn haft margvíslegar afleiðingar í för með sér, aðrar en heilsufarslegar. Á Suðurnesjum birtast afleiðingarnar meðal annars í mesta atvinnuleysi sem sést hefur frá upphafi mælinga. Undanfarna daga og vikur höfum við átt samtöl við þingmenn, ráðherra, starfsmenn ráðuneyta og aðra fulltrúa ríkisvaldsins og bindum miklar vonir við stuðning úr þeirri átt á næstu vikum.
Til þess að bæta þá stöðu sem upp er komin þarf margþættar aðgerðir ríkis, sveitarfélaga, menntastofnanna og atvinnulífs. Breyta þarf og sveigja margvísleg lög og reglur og hugsa hlutina uppá nýtt. Hjá Reykjanesbæ er nú unnið að gerð áætlunar sem nær yfir mismunandi aðgerðir og mismunandi tímabil. Núna strax er til að mynda ætlunin að fjölga fjölbreyttum störfum sem hægt verður að vinna í sumar.
Til aðeins lengri tíma er horft til samstarfs við Vinnumálastofnun um að nýta ýmis úrræði sem gerir sveitarfélaginu kleift að ráða fólk til margvíslegra starfa. Til lengri tíma er svo horft til stærri verkefna og framkvæmda á vegum ríkis og sveitarfélaga, aukinnar nýsköpunar og frumkvöðlastarfs, hærra menntunarstigs o.s.frv.
Tillaga að aðgerðaráætlun Reykjanesbæjar var til umræðu í bæjarráði í morgun 8. apríl og fékk undirritaður heimild bæjarráðs til að halda þessari vinnu áfram í samvinnu við kraftmikið starfsfólk Reykjanesbæjar. Það er ljóst að kerfið snýst hægar en við myndum vilja.
Samkvæmt fjármálareglum sveitarstjórnarlaga þurfa sveitarfélög að sýna fram á hvernig þau hyggjast fjármagna aukin útgjöld og fá heimild sveitarstjórnarráðuneytisins til þess. Sú vinna hefst strax eftir páska og mun birtast í viðauka við fjárhagsáætlun sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga þarf að fara yfir og samþykkja áður en hægt verður að hefjast handa.
Nú er páskahelgin að ganga í garð og mikilvægt að allir fylgi ráðleggingum Almannavarna um að takmarka ferðalög eins og kostur er. Við höfum lagt áherslu á að hreinsa göngustíga og vinsælar gönguleiðir s.s. með fram strandlengjunni því sjaldan eða aldrei hafa fleiri nýtt sér þessa stíga en undanfarna daga og vikur. Við ættum því að geta haldið áfram að hreyfa okkur um páskana og hlúð að heilsunni sem er gríðarlega mikilvægt á tímum sem þessum.
Að lokum vil ég þakka stjórnendum og starfsmönnum Reykjanesbæjar fyrir góð störf við erfiðar og ófyrirséðar aðstæður á síðastliðnum vikum. Einnig vil ég skila batakveðjum til þeirra sem eru veikir og í einangrun.
Gleðilega hátíð.
Kjartan Már Kjartansson.