Grunnskólakennurum með réttindi hefur fjölgað mjög í grunnskólum Reykjanesbæjar undanfarin ár. Frá hausti 2011 eru 93% kennaranna með full réttindi til kennslu. Þeir leiðbeinendur sem starfa við skólana eru flestir með einhverja háskólamenntun. Hafa ber í huga að þeir sem nýlega hafa lokið þriggja ára kennaranámi (B.Ed. gráðu), en eiga eftir að ljúka tilskildu mastersnámi, teljast nú til leiðbeinenda í starfi og á það við um nokkra þeirra leiðbeinenda sem nú starfa við skólana. Gera má ráð fyrir því að þetta sé einn þátturinn í því að margir skólanna sýna betri árangur á niðurstöðum samræmdra könnunarprófa en áður.