Kjartan Már Kjartansson afhjúpar skiltið með aðstoð nokkra af elstu leikskólabörnum Tjarnarsels. Þau heimsóttu hann í febrúar sl. en munu senn kveðja leikskólann og hefja grunnskólagöngu.
Bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson afhjúpaði í dag, ásamt nokkrum af elstu leikskólabörnum Tjarnarsels, nýtt söguskilti við Stein og Sleggju. Söguskiltið er gjöf til leikskólans á 50 ára afmæli, en hugmynd að skiltinu og útsýnispallinum milli steintröllanna kemur einmitt frá leikskólanum. Þá sögu má lesa á skiltinu bæði á íslensku og ensku. Bæjarbúar eru hvattir til að taka sér ferð á hendur um Strandleið í dag eða næstu daga til að kíkja á nýja skiltið. Það er fallega myndskreytt með teikningum barnanna.
Eftir afhjúpun sagði Árdís Jónsdóttir leikskólastjóri á Tjarnarseli nokkur orð um lýðræðisstarfið í leikskólanum, en skiltið er afsprengi þess starfs. Þá voru sungin nokkur lög, m.a. afmælissöngurinn með ferföldu húrrahrópi í lokin. Hann lengi lifi....
Söguskiltið við Stein og Sleggju er fyrsta skiltið sem sett er upp við Strandleið á íslensku og ensku, utan fuglaskilta, en þeim mun fjölga á næstu vikum. Ferðamönnum hefur fjölgað mikið í bænum og sýna þeir skiltunum töluverðan áhuga. Þau sem þýdd hafa verið og endurunnin fjalla um sögu bæjarins, sögu þjóðar og landafræði.
Um leikskólann Tjarnarsel segir á vef leikskólans: „Tjarnarsel er elsti leikskóli Reykjanesbæjar og tók til starfa 18. ágúst 1967. Hann er staðsettur í hjarta bæjarins steinsnar frá Ráðhúsi Reykjanesbæjar og skrúðgarðinum.
Árið 1954 réðust kvenfélagskonur í Keflavík í að byggja dagheimili og félagsheimili sem þær nefndu Tjarnarlund. Var þetta fyrsta dagheimilið í Keflavík.
Árið 1967 afhentu kvenfélagskonur Keflavíkurbæ lóð til eignar undir annan leikskóla sem nefndur var Tjarnarsel og hófst starfsemin þar 1967. Bærinn keypti síðan Tjarnarlund af kvenfélaginu árið 1983 undir rekstur leikskóla. Fram til ársins 2000 fór starfsemin fram í tveimur húsum. Árið 1999 var ráðist í að byggja tengibyggingu á milli húsanna, í dag fer öll starfsemi fram undir sama þaki.“