Styrkleikar í umhverfi Reykjaness mynda álitlegustu framtíðarklasana í atvinnuverkefnum. Á íbúafundum með bæjarstjóra, sem nú standa yfir í Reykjanesbæ, ræðir hann m.a. um styrkleika svæðisins í atvinnumálum. Hann lýsir því hvernig sé unnið að styðja sköpun fjölbreyttra starfa sem byggi á sameiginlegum kjarna. , s.s. tónlist, alþjóðaflugvelli, orku, stórskipahöfn og nálægð við fiskimið. Hann segir að unnið hafi verið markvisst að þessu undanfarin ár þótt ýmsar hindranir hafi birst á veginum. Árni segir að þegar hafi skapast fyrirtækjahópar og geti enn verulega styrkst ef þeir viti betur hver af öðrum og nái samstarfi. Á fundunum er m.a. fjallað um fyrirtæki tengd flutningaklasa, tækniklasa, jarðauðlindaklasa, sjávarútvegsklasa og listum. Hver klasi um sig saman stendur af fyrirtækjum, stórum sem smáum, sem geta styrkt sig með samstarfi hvert við annað og skapa þannig meiri möguleika til aukningar starfa og menntatækifæra. Árni nefndi fiskeldisfyrirtæki á Reykjanesi sem dæmi um þetta, sem nýti aukaafurðir jarðhitavirkjana HS orku, þ.e. jarðvökvann eftir að hann kemur frá virkjunum, sjókæliholur þeirra osfrv. Jarðaulindaklasinn er einnig grundvöllur raforku og hitaveitu fyrir öll önnur atvinnufyrirtæki. Nú er verið að undirbúa fleiri fyrirtæki sem nýta heita vatnið og rafmagnið beinlínis til ræktunar á nýjum sviðum.
Annað dæmi sem Árni nefnir tengist sjávarútvegi og vinnslu. Hann nefndi að í Reykjanesbæ væru starfandi á þriðja tug fiskvinnslufyrirtækja, auk útgerða, en fjöldi tæknifyrirtækja byggði svo afkomu sína á þjónustu við þau. Nýjasta tæknifyrirtækið sem nýlega gekk frá samningi um aðstöðu að Ásbrú, í Reykjanesbæ er Málmey, sem hannaði m.a. tæki fyrir Nesfisk og vinnslulínur fyrir Haustak á Reykjanesi.
Samgönguklasinn byggir á Keflavíkurflugvelli og þeim gríðarlegu tækifærum sem alþjóðaflugvöllur veitir bæði í vöruflutningum og ferðaþjónustu. Meðal dæma um nýtingu tækifæranna nefndi Árni uppbyggingu Keilis að Ásbrú, sem sérhæfir sig í flugtengdu námi, bílaleigur, viðgerðar- og þjónustuverkstæði tengd samgöngutækjum, ævintýraferðir, hótel- og veitingarekstur o.s.frv.
Tækniklasinn byggir bæði á sjávarútvegi og vinnslu, og fyrirhuguðu álveri og kísilveri. Tæknin sé einnig samofin hugmyndum um rafræn gangaver. Hátæknifræði hjá skólafélaginu Keili horfi til þessara verkefna allra. Árni segir að frá þessum fyrirtækjum skapist gríðarleg tækifæri fyrir uppbyggingu smærri þjónustu- og tæknifyrirtækja. Á fundi í Njarðvík nefndi hann að Fjölbrautaskóli Suðurnesja byði áhugaverðar brautir á tæknisviðum, en að auki hefur Skólafélagið Keilir einmitt búið sig stöðugt betur undir tæknisviðin og beintengingu við framtíðar atvinnurekstur með tilkomu tæknifræðináms.