Ljósanótt í Reykjanesbæ var sett í gær með þátttöku allra grunnskólabarna bæjarins og elstu barna leikskólans. Börnin sungu saman og náði stundin hámarki þegar blöðrum í öllum regnbogans litum var sleppt til himins til tákns um fjölbreytileika samfélagsins. Síðdegis opnuðu myndlistarsýningar hver á fætur annarri um allan bæ auk þess sem hönnuðir sýndu vörur sínar og verslanir voru með sérstök Ljósanæturtilboð. Mikil og góð stemning ríkti í bænum og eftirvænting í lofti fyrir viðburðum helgarinnar.
Í kvöld verður öllum gestum hátíðarinnar boðið upp á ekta íslenska kjötsúpu, en það er fyrirtækið Skólamatur, sem árum saman hefur yljað og mettað gesti með súpunni góðu. Við tekur Bryggjusöngur, þar sem fram kemur m.a. Bæjarstjórnarbandið, skipað hæfileikafólki úr bæjarstjórn Reykjanesbæjar með bæjarstjórann í fararbroddi, og svo er það auðvitað Veðurguðinn Ingó sem stýrir fjöldasöng af alkunnri snilld. Við taka svo heimatónleikar í gamla bænum, sem er nýjung á hátíðinni, og dansleikir m.a. Júdasarballið, með keflvísku hljómsveitinni Júdas, sem sprengir af sér húsnæðið ár hvert . Þá býður skemmtistaðurinn Center upp á tónleika með stórhljómsveitinni Hjálmum sem á ættir sínar að rekja til Reykjanesbæjar.
Bærinn er svo auðvitað fullur af sölutjöldum, tívolítækjum og því helsta sem prýðir góða bæjarhátíð enda löng og viðburðarík helgi framundan.
Dagskrá Ljósanætur er að finna á www.ljosanott.is