Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar munu undirrita „Þjóðarsáttmála um læsi“ í Ráðhúsi Reykjanesbæjar þriðjudaginn 15. september. Dagskráin hefst kl. 13:00 með ávarpi ráðherra og bæjarstjóra og lýkur með flutningi Ingólfs Veðurguðar á laginu „Það er gott að lesa“ sem er einkennislag verkefnisins. Markmið Þjóðarsáttmálans er að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns og að læsi festi sig í sessi sem hluti af almennu skólastarfi til framtíðar.
Gott læsi er nauðsynlegt til að hver og einn geti nýtt hæfileika sína til fulls samfélaginu öllu til góða, auk þess sem lestrarfærnin er forsenda fyrir þátttöku í lýðræðissamfélagi. Að undanförnu hafa áhyggjur manna vaxið vegna hrakandi lesskilnings og í ljós hefur komið að við lok grunnskóla getur of stór hluti barna ekki lesið sér til gagns. Lakur lesskilningur getur haft neikvæð áhrif á námsframvindu og þar með atvinnutækifæri síðar meir.
Verkefnið „Þjóðarsáttmáli um læsi“ kveður á um að á næstu fimm árum verði gert margþætt átak sem muni skila sér í enn betra menntakerfi á Íslandi til framtíðar. Menntamálastofnun hefur umsjón með verkefninu og ráðnir hafa verið ráðgjafar um læsi sem munu styðja við lærdómssamfélag skóla og sveitarfélaga, halda námskeið og leiðbeina skólastjórnendum, kennurum og öðru skólafólki um læsi og lestrarnám. Reykjanesbær og nágrannasveitarfélög eiga fulltrúa í þessum hópi.
Ekki er síður mikilvægt að foreldrar og aðstandendur taki virkan þátt í námi barna sinna og fylgist með framvindu og árangri. Mikilvægt er að foreldrar fái stuðning og fræðslu frá skólum og sérfræðiþjónustu sveitarfélaga til þess að hlúa að lestrarnámi barna sinna, ekki síst þeirra barna sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda. Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun semja sérstaklega við Heimili og skóla - landssamtök foreldra um aðkomu þeirra að því að virkja foreldra í stuðningi við læsi barna sinna.