Reykjanesbær stendur fyrir umferðaröryggisþingi sem haldið verður í dag í Bíósal Duushúsa kl. 17:00.
Reykjanesbær hefur unnið skipulega að því að auka umferðaröryggi í sveitarfélaginu en Þann 7. apríl 2009 var skrifað undir samkomulag við Umferðarstofu um gerð umferðaröryggisáætlunar í bæjarfélaginu. Þessi Áætlunin er unnin í samstarfi við lögreglu, vegagerð, slökkvilið, ökukennara og foreldrafélög í bænum.
Markmið með umferðaröryggisáætlun eru meðal annars:
· Að kortleggja slys í bænum og finna lausnir til að útrýma þeim
· Að bæta umferðaröryggisvitund íbúa um hvetja þá til að vinna að auknu umferðaröryggi
· Að mynda heildarsýn og samhengi í umferðaröryggismálum
· Að bæta samvinnu þeirra sem koma að umferðar- og umferðaröryggismálum
Unnið hefur verið að ýmsum úrbótum til að auka umferðaröryggi og má þar nefna hraðamælingar, aðgerðir til að draga úr hraðakstri og markvisst samstarf við lögreglu þar sem unnið hefur verið gegn hraðakstri í bæjarfélaginu. Nánast allar húsagötur í bænum hafa nú 30 km hámarkshraða en tengibrautir, safnæðar og lífæðar hafa enn 50 km hámarkshraða. Sérstök áhersla hefur verið lögð á umferðaröryggi í og við skólahverfi og við gönguleiðir barna til og frá skóla. Unnið er að því að bæta enn frekar við gott göngustígakerfi í bæjarfélaginu en með þeim hætti er gerð tilraun til að koma í veg fyrir umferð gangandi vegfarenda við stórar umferðargötur.
Nýleg könnun sýnir að mest hefur dregið úr slysum í Reykjanesbæ undanfarin ár en gera má miklu betur.
Umferðaröryggisþing er einn liður í gerð umferðaröryggisáætlunar en þar munu starfsmenn umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar og aðrir fagaðilar s.s. lögregla, vegagerð og umferðarstofa koma saman ásamt íbúum bæjarins til skrafs og ráðagerða og skoða þær hættur sem finna má í bænum. Mikilvægt er að bæjarbúar taki þátt í þessari vinnu þar sem þeir sjá best hættumerkin í sínu nærumhverfi .
Við vonum að sem flestir sjái sér fært að vinna með okkur að bættu umferðaröryggi í Reykjanesbæ.