Frá vígslu Asparinnar. Frá vinstri Kristín Blönda deildarstjóri, Ásgerður Þorgeirsdóttir skólastjóri Njarðvíkurskóla, Jóhann Friðrik Friðriksson forseti bæjarstjórnar og Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri.
Viðbygging við sérdeildina Ösp við Njarðvíkurskóla var vígð í lok ágúst. Nokkuð var farið að þrengja að nemendum en verkið gekk hratt og vel fyrir sig enda veðurblíðan með eindæmum í sumar. Það var Sparri byggingaverktakar sem sáu um framkvæmdina, en að undirbúningi komu fjölmargir.
Sérdeildin Ösp er hugsuð fyrir nemendur í 1. – 10. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar sem þurfa á mjög sértæku námsúrræði að halda. Hún var stofnuð árið 2002 og er þetta fjórða viðbyggingin við húsið. Nú eru 23 nemendur í Öspinni og starfsmenn eru jafnmargir. Starfinu stýrir Kristín Blöndal deildarstjóri..
Það var verkfræðistofa Suðurnesja sem sá um hönnun á húsinu í góðu samstarfi við starfsfólk Asparinnar. Það mátti heyra á starfsfólki mikla ánægju með þá viðbót sem það fékk með viðbyggingunni. Auk frábærrar aðstöðu fyrir nemendur fékk það bjarta og fallega kaffistofu með frábært útsýni yfir skrúðgarðinn í Njarðvík.
Viðbyggingin er 282 m² að stærð og hófust framkvæmdir við hana í byrjun maí. Kostnaður við verklegar framkvæmdir verður rúmlega 100 milljónir.
Ásgerður Þorgeirsdóttir skólastjóri þakkaði velunnurum Asparinnar sérstaklega fyrir þeirra stuðning í gegnum árin. Þar ber hæst Linonsklúbbarnir tveir í Njarðvík, Kvenfélagið Njarðvík og Ásmundur Friðriksson þingmaður, sem m.a. gaf búnað í skynjunarrými.