242. fundur

11.06.2020 17:00

242. fundur stjórnar Reykjaneshafnar var haldinn fimmtudaginn 11. júní 2020 kl. 17:00 á skrifstofu Reykjaneshafnar að Víkurbraut 11, 230 Reykjanesbæ.

Mættir: Hjörtur Magnús Guðbjartsson formaður, Hanna Björg Konráðsdóttir aðalmaður, Kristján Jóhannsson aðalmaður, Sigurður Guðjónsson aðalmaður, Úlfar Guðmundsson aðalmaður og Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri.

1. Lánasjóður sveitarfélaga (2020040161)

Á 237. fundi stjórnar Reykjaneshafnar þann 16. janúar s.l. var samþykkt að hefja vinnu við endurfjármögnun á hluta af langtímaskuldum Reykjaneshafnar til að létta greiðslubyrði hafnarinnar til framtíðar. Var þar um að ræða endurfjármögnun á skuldbindingum hafnarinnar gagnvart Lánasjóði sveitarfélaga ohf. sem námu 863 milljónum króna þann 31.12.2019. Á 240. fundi stjórnarinnar þann 16. apríl s.l. voru samþykktir tveir lánasamningar sem endurfjármögnuðu 72% af fyrrnefndum skuldbindingum. Nú liggur fyrir fundinum lánasamningur sem endurfjármagnar þau 28% sem eftir standa. Eftirfarandi var lagt fram: Stjórn Reykjaneshafnar samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstólsfjárhæð 254.536.518.- kr. og að útgreiðslufjárhæð 288.817.667.- kr. til 35 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Er lánið tekið til endurfjármögnunar lána Reykjaneshafnar hjá Lánasjóði sveitarfélaga, sem falla undir lánshæf verkefni, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Jafnframt er Halldóri Karli Hermannssyni, kennitala ekki birt, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga f.h. Reykjaneshafnar sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari.

Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu láns þessa, ásamt vöxtum, verðbótum og kostnaði stendur einföld óskipt ábyrgð eigenda sem er Reykjanesbær sbr. heimild í 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og setja þau til tryggingar tekjur sínar sbr. 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Samþykkt samhljóða.

2. 583. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar – dagskráliður 6 (2020030106)

Lögð eru fram eftirfarandi svör við fyrirspurn í 8 liðum sem lögð var fram af Margréti Þórarinsdóttur bæjarfulltrúa til stjórnar Reykjaneshafnar á 583. fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar 3. mars s.l.:

1. Hverjar eru skuldir Reykjaneshafnar 1. janúar 2020?

Svar: Skuldir og skuldbindingar Reykjaneshafnar eru 1. janúar 2020 kr. 4.227.645.913.-.

2. Í fundargerð frá 20. febrúar s.l. kemur fram að endurfjármagna eigi langtímaskuldir hafnarinnar, hvað eru þær háar?

Svar: Endurfjármögnunin nær til krafna Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. á hendur Reykjaneshöfn að upphæð 31.12.2019 kr. 863.234.681.-

3. Hvað eru skammtímaskuldir hafnarinnar háar?

Svar: Skammtímaskuldir Reykjaneshafnar eru 31.12.2020 kr. 357.465.331.-

4. Á sama fundi var veitt heimild til að taka skammtímalán hjá Lánasjóði sveitarfélaga til að mæta fjárþörf til greiðslu afborgana á skuldbindingum gagnvart sjóðnum meðan endurfjármögnun þeirra skuldbindinga liggur fyrir. Hver er upphæð þessa láns?

Svar: Viðkomandi lánafyrirgreiðsla var kr. 67.000.000.-.

5. Vofir greiðslufall yfir Reykjaneshöfn komi þessi lánveiting ekki til?

Svar: Reykjaneshöfn er b-hluta fyrirtæki í eigu Reykjanesbæjar og rekin samkvæmt Hafnarlögum nr. 61/2003. Sem eigandi hafnarinnar ber Reykjanesbær ábyrgð á skuldbindingum Reykjaneshafnar samanber. 16. gr. laganna. Greiðslufall verður því ekki hjá Reykjaneshöfn.

6. Hvað greiddi höfnin í vexti af lánum 2019, 2018, 2017, 2016 og 2015?

Svar: Samkvæmt rekstrarreikningum Reykjaneshafnar fyrir viðkomandi ár voru niðurstöður fjármagnsliða, þ.e. vaxtatekna, verðbóta og vaxtagjald, eftirfarandi:

2015 kr. -388.205.517.-
2016 kr. -417.499.747.-
2017 kr. -530.656.938.-
2018 kr. -348.442.135.-
2019 kr. -55.257.629.-
Samtals kr. -1.740.061.966.-

7. Hverjar voru tekjur Reykjaneshafnar 2019, 2018, 2017, 2016 og 2015?

Svar: Samkvæmt rekstrarreikningum Reykjaneshafnar fyrir viðkomandi ár voru rekstrartekjur eftirfarandi:

2015 kr. 250.915.958.-
2016 kr. 322.607.424.-
2017 kr. 371.542.258.-
2018 kr. 354.073.412.-
2019 kr. 270.138.086.-
Samtals kr. 1.569.277.138.-

8. Er unnið að leiðum til að auka tekjur Reykjaneshafnar, ef svo er hverjar eru þær?

Svar: Ávallt er unnið að leiðum til að auka tekjur Reykjaneshafnar. Stjórn Reykjaneshafnar hefur þá stefnu að upplýsa sem minnst um þá vinnu fyrr en viðunandi árangur liggur fyrir. Það er þó opinbert að Reykjaneshöfn er í samstarfi við Reykjanesbæ og Markaðsstofu Reykjaness við að markaðssetja Keflavíkurhöfn sem ákjósanlegan viðlegustað fyrir minni skemmtiferðaskip.

Samþykkt samhljóða.

3. Hafnasamband Íslands (2020021399)

Fundargerð 423. fundar Hafnasambands Íslands dags. 19.05.20. Lögð fram til kynningar.

Fundargerð 424. fundar Hafnasambands Íslands dags. 28.05.20. Lögð fram til kynningar.

Ársreikningur Hafnasambands Íslands fyrir árið 2019. Lagður fram til kynningar.

Fylgigögn:

Fundargerð 423. fundar Hafnasambands Íslands
Fundargerð 424. fundar Hafnasambands Íslands
Ársreikningur Hafnasambands Íslands 2019

4. Cruise Iceland (2020060195)

Aðalfundur Cruise Iceland var haldinn á Siglufirði fimmtudaginn 4. júní s.l. Hafnarstjóri sótti fundinn og fór yfir það sem þar kom fram.

5. Orkuskipti í höfnum (2020060197)

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið (UAR) auglýsti í vor eftir umsóknum um styrk frá ráðuneytinu í tengslum við aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 til verkefna sem tengjast orkuskiptum í höfnum, þ.e. landtengingum skipa í rafmagn. Reykjaneshöfn sendi inn umsókn vegna verkefnis sem tengist Keflavíkurhöfn. Með tölvupósti dags. 15.05.20 barst tilkynning frá UAR um að Reykjaneshöfn væri úthlutað 12 milljónum króna vegna þessa verkefnis. Lagt fram til kynningar.

Fylgigögn:

Tilkynning um úthlutun styrkja til orkuskipta í höfnum

6. Rannsóknarnefnd samgönguslysa (2020060198)

Þann 3. nóvember 2018 strandaði sementsskipið ms. Fjordvik á utanverðum sjóvarnargarðinum við Helguvíkurhöfn. Frá þeim tíma hefur Rannsóknarnefnd samgönguslysa haft strandið til rannsóknar í samræmi við lög nr. 18/2013 um rannsókn samgönguslysa. Skýrsla nefndarinnar varðandi strandið var send Reykjaneshöfn með tölvupósti þann 9. maí s.l. Eftirfarandi var lagt fram: Stjórn Reykjaneshafnar þakkar framkomna skýrslu og þau vönduðu vinnubrögð sem þar koma fram. Samkvæmt skýrslunni er ekki hægt að rekja strandið til eins ákveðins atviks heldur samspil margra smærri þátta og misskilnings í samskiptum hafnsögumanns og skipstjóra skipsins. Í skýrslunni eru tillögur til úrbóta í samskiptum við slíkar aðstæður, jafnt til skipstjóra, útgerðar og hafnar. Stjórn Reykjaneshafnar felur hafnarstjóra að yfirfara þær tillögur og nýta til að skerpa á verklagi hafnarinnar í framtíðinni. Samþykkt samhljóða.

Fylgigögn:

Rannsóknarskýrsla um sjóatvik

7. Upplýsingagjöf hafnarstjóra (2020010519)

Hafnarstjóri fór yfir stöðu ýmissa mála er varða starfsemi hafnarinnar.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:45. Fundargerð fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 16. júní 2020.