562. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 19. mars 2019 kl. 17:00.
Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þórir Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét Ólöf A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Hrefna Höskuldsdóttir ritari. Í forsæti var Jóhann Friðrik Friðriksson.
1. Fundargerðir bæjarráðs 7. og 14. mars 2019 (2019010002)
Forseti gaf orðið laust. Til máls tók: Margrét Þórarinsdóttir sem lagði fram eftirfarandi bókanir:
Bókun varðandi lið 1 í fundargerð 7. mars 2019.
„Þann 7. júní 2016 birtust fréttir úr Kauphöllinni um að á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sem haldinn var í byrjun maí það ár hefði verið upplýst um að heildarsamkomulag við alla kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu fjárhags Reykjanesbæjar og stofnana hans væri ekki í sjónmáli. Var samþykkt að tilkynna Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga að samningar væru ekki í sjónmáli. Kom jafnframt fram í tilkynningunni að að öllu óbreyttu kæmi til greiðslufalls á skuldbindingum Reykjaneshafnar. Í kjölfarið var óskað eftir því að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga yrði skipuð yfir Reykjanesbæ og vógu skuldir Helguvíkurhafnar þar þyngst.
Náðst hefur árangur í því að lækka skuldir bæjarins og því ber að fagna, engu að síður er skuldahlutfallið enn mjög hátt og má lítið út af bregða svo horfi til verri vegar hvað varðar tekjustofna. Óvissa ríkir í efnahagsmálum, dregið hefur úr komu ferðamanna og kjarasamningar eru lausir. Ekki liggur fyrir hvaða áhrif þetta kemur til með að hafa á fjárhag bæjarins. Nýlegar fréttir um skerðingu á framlagi ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna auka síðan enn frekar á óvissuna.
Sveitarfélög eiga að forgangsraða í þágu lögbundinnar þjónustu sveitarfélags auk grunnþjónustu. Því skýtur skökku við að nú sé verið að gera tillögur um hundruð milljóna útgjöld í stjórnsýslu Reykjanesbæjar. Tillögu Miðflokksins um niðurgreiðslu á skólamáltíðum er ekki sinnt og er borið við fjárskorti hjá bæjarfélaginu.
Þessi tillaga meirihlutans lýsir einkennilegri forgangsröðun á tímum óvissu og aðhalds í fjármálum bæjarins. Minna má á að ekki var hægt að standa við gefin kosningaloforð til kennara um sérstakar aukagreiðslur vegna fjárskorts.
Miðflokkurinn leggst alfarið gegn þessum hugmyndum af fjárhagslegum ástæðum en óskar starfsmönnum bæjarins velfarnaðar í starfi.“
Bókun varðandi lið 1 í fundargerð 14. mars 2019
„Ég fagna þessari skýrslu en lýsi jafnframt furðu minni á því að allir flokkar áttu ekki þátt í að móta hana. Við upphaf verkefnisins var ákveðið að viðmælendur yrðu bæjarstjóri, sviðsstjórar, formaður bæjarráðs og forseti bæjarstjórnar. Síðan kemur í ljós að tekin voru viðtöl við kjörna fulltrúa en sú sem hér stendur var ekki þeirra á meðal. Ég spyr því hvort að bæjarfulltrúi Miðflokksins sé ekki kjörinn fulltrúi í augum meirihluta bæjarstjórnar.
Ég harma þessi vinnubrögð. Að allir flokkar komi ekki að því að móta endurskoðun á stjórnskipulagi Reykjanesbæjar er með öllu óásættanlegt. Það er ekki í anda góðra stjórnsýsluhátta eða lýðræðis að útiloka einn flokk sem hlaut rúm 13% atkvæða í kosningunum um uppbyggingu og framtíð stjórnsýslunnar. Ég skora á meirihlutann að leiðrétta þetta, sem ég vil fyrir kurteisissakir kalla mistök en ekki ásetning.“
Bókun varðandi lið 3 í fundargerð 14. mars 2019.
„Náðst hefur sátt við Gildi lífeyrissjóð og ber að fagna því. Ég vil þó minna aftur á að Helguvíkurhöfn var einkaframkvæmd.
Þegar sveitarfélag fer í hafnarframkvæmdir þá sækir það um hjá Vegagerðinni um fjárframlag og ef ríkið samþykkir þá fer viðkomandi höfn inn á samgönguáætlun sbr. 25. gr. hafnarlaga, sem síðan er samþykkt í fjárlögum hvers árs. Þetta ferli var ekki virt í tilliti Helguvíkurhafnar og farið var með höfnina í einkaframkvæmd. Grunnurinn að þessu máli er þessi og nú sér fyrir lokin á fjármögnuninni með þessari réttarsátt. Aðrir kröfuhafar hafa náð sátt við bæinn með afskriftum og samningum. Helguvíkurhöfn hefur verið útsvars-greiðendum Reykjanesbæjar þung í skauti en það er von bæjarfulltrúa Miðflokksins að lært verði af þessum dýrkeyptu mistökum og að í framtíðinni komi höfnin til með að skila bæjarfélaginu mikilvægum tekjum.“
Til máls tóku: Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson og Gunnar Þórarinsson.
Jóhann Friðrik Friðriksson forseti las upp tillögu að umsögn um þingsályktunartillögu um stöðu sveitafélagana á Suðurnesjum. Tillagan hljóðar þannig:
„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar fagnar framkominni tillögu til þingsályktunar og vonar að hún nái fram að ganga. Eins og fram kemur í tillögunni er staða Suðurnesja um margt sérstök og miklar sveiflur verið í atvinnulífi. Íbúafjölgun síðustu ár hefur verið fordæmalaus með tilheyrandi álagi á félagslega innviði, ekki síst þá sem eru á forræði ríkisins s.s. heilbrigðisþjónustu, löggæslu, framhaldsskóla, vegakerfi o.fl.
Fulltrúar sveitarfélaganna ásamt forsvarsmönnum helstu ríkisstofnanna á Suðurnesjum hafa fundað með þingmönnum, ráðherrum, ráðuneytisstjórum og öðrum fulltrúum ríkisins og vakið athygli á þeim margvíslegu áskorunum sem opinberar stofnanir, bæði ríkis og sveitarfélaga, standa frammi fyrir. Málflutningur Suðurnesjamanna hefur fengið góðar undirtektir en efndir og viðbrögð látið á sér standa. Á meðan hefur íbúum fjölgað enn frekar og staðan versnað.
Furðu sætir að þrátt fyrir að gerðar hafi verið breytingar á úthlutun úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga með tilliti til vaxtarsvæða hefur dregið úr fjárveitingum til ríkisstofnanna á svæðinu á sama tíma. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar vill einnig benda á að tillagan er í megindráttum í samræmi við verkefnismarkmið um vaxtarsvæði núgildandi byggðaáætlunar og þegar hefur verið samþykkt á Alþingi. Því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að hefja vinnu sem miðar að því að gera ríki og sveitarfélög færari um að bregðast við þenslu á vaxtarsvæðum án tafar.
Íbúar á Suðurnesjum fara fram á að sitja við sama borð og aðrir landsmenn enda eiga nýir íbúar sama tilkall og rétt til opinberrar þjónustu óháð fyrri búsetustað. Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa lagt sig fram um að sinna þeim skyldum og verkefnum sem þeim ber, með tilheyrandi uppbyggingu félagslegra innviða, og gera þá kröfu að ríkið geri slíkt hið sama.“
Forseti gaf orðið laust um tillöguna. Til máls tóku: Margrét Þórarinsdóttir, Margrét Ólöf A. Sanders, Baldur Þ. Guðmundsson og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Tillagan er samþykkt 11 - 0.
Fundargerðirnar samþykktar 11 – 0.
2. Fundargerð umhverfis– og skipulagsráðs 15. mars 2019 (2019010176)
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi liði fundargerðarinnar til sérstakrar samþykktar:
Annar liður fundargerðarinnar Hótel Grásteinn - Niðurstaða grenndarkynningar (2019010117) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum án umræðu.
Þriðji liður fundargerðarinnar Flugvellir 2 og 4 - Sameining lóða (2019030147) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum án umræðu.
Fimmti liður fundargerðarinnar Hafnagata 31b - Byggingarleyfi (2019030016) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum án umræðu.
Tíundi liður fundargerðarinnar Brekadalur 67 - Fyrirspurn (2018050041) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum án umræðu.
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11 – 0 án umræðu.
3. Fundargerð menningarráðs 8. mars 2019 (2019010150)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók: Baldur Þ. Guðmundsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Guðbrandur Einarsson og Friðjón Einarsson.
Fundargerðin samþykkt 11 – 0.
4. Fundargerð velferðarráðs 13. mars 2019 (2019010160)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku: Guðný Birna Guðmundsdóttir, Margrét Þórarinsdóttir sem lagði fram eftirfarandi bókanir við liði 4 og 5 í fundargerð velferðarráðs:
„Ég furða mig á að í fundargerðinni eru engin gögn varðandi lið 1, 2 og 3. Óska hér með eftir því að fá upplýsingar varðandi þessa liði.
Jafnframt langar mig að koma inn undir lið númer 4 í fundargerð velferðarsviðs um starfsáætlun sviðsins.
Þetta er góð skýrsla og greinilegt að mikil vinna hefur verið lögð í hana og vil ég þakka fyrir það.
Miðflokkurinn leggur áherslu á NPA samninga en á bls. 9 í skýrslunni er fjallað um þá.
Stærstu tíðindin í málefnum fatlaðs fólks í dag eru jú nýsamþykkt lög frá Alþingi um svokallaða NPA aðstoð eða Notendastýrða Persónulega Aðstoð. Þar með hvílir lagaskylda á sveitarfélögunum um að veita þessa mikilvægu þjónustu. Um tímamótalög er að ræða þar sem NPA verður og er helsta þjónustuformið við fatlað fólk.
Markmiðið með þessum lögum er að gera fötluðu fólki kleift að búa heima en í því felst langþráð frelsi. Einstaklingar geta þar með ráðið sér aðstoðarmann sem fylgir viðkomandi hvert sem hann vill fara.
Það er ekki nóg að setja mikilvæg lög heldur verður fjármagn að fylgja með. Ríkið tryggir mótframlög til sveitarfélaganna fyrir ákveðnum fjölda NPA samninga, hins vegar er þörfin meiri.
Atvinnumál fatlaðra
Í atvinnumálum fatlaðra þarf að stuðla að vitundarvakningu meðal atvinnurekenda á svæðinu. Þegar valið stendur á milli fatlaðs og ófatlaðs fólks þegar kemur að vinnu þá þarf ekki alltaf að ganga fram hjá þeim sem eru t.d. í hjólastól. Reykjanesbær á að sýna gott fordæmi og ráða í vinnu fólk sem hefur ekki fulla starfsgetu.
Miðflokkurinn leggur til að sveitarfélögin beiti sér fyrir því á sínum sameiginlega vettvangi að þrýsta á ríkisvaldið að afnema krónu á móti krónu skerðingu þegar kemur að atvinnumálum fatlaðra. Hér erum mikið réttlætismál að ræða og ekki síst lýðheilsumál.
Ferðaþjónusta fatlaðs fólks
Ferðaþjónusta fatlaðs fólks er ein af grundvallarþjónustum fyrir fatlaða. Án góðrar ferðaþjónustu fá fatlaðir ekki að njóta sjálfsagðra mannréttinda á borð við atvinnu, nám og tómstundir.
Reykjanesbær er með hámarks ferðafjölda í mánuði, sem er rúmlega 60 ferðir. Sjálfsagt er að skoða hvort ekki þurfi að bæta þessa þjónustu og í því sambandi er mikilvægt að sá sem notar þjónustuna verði hafður með í ráðum.
Miðflokkurinn óskar eftir því að verkefnahópurinn muni taka tillit til þessa.“
„Miðflokkurinn fagnar Samtakahópnum fyrir að gera grein fyrir því að efla þurfi forvarnir vegna fíkniefna og nefnir hópurinn að árangursríkast er að fræða en ekki hræða.
Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum þá er Ísland með langhæstu tíðni dauðsfalla vegna fíkniefna í Evrópuríkjunum. Á árunum 2007 til 2015 létust 221 einstaklingur á Íslandi vegna fíkniefna. Næstir okkur voru Svíar en þar létust 124 einstaklingar. Þetta eru mjög sláandi tölur og ekkert bendir til þess að þær muni lækka næstu árin án fræðslu.
Árið 2017 var gerð rannsókn á neyslu kannabis hjá grunnskólanemum og kom í ljós að 8% hefðu neytt kannabis. Þessi tala er ekki há en hún er engu að síður mikið áhyggjuefni þar sem við erum að tala um grunnskólanema.
Það voru mikil vonbrigði þegar tillaga Miðflokksins var ekki samþykkt að styrkja foreldrafélög grunnskólanna til að allir nemendur í 9. og 10. bekk myndu fá að sjá myndina Lof mér að falla. Myndin hefur fengið mikla umræðu í þjóðfélaginu og hún hefur haft mikilvægt forvarnargildi, þegar kemur að vímuefnaneyslu ungs fólks.
Bæjarstjórn þarf að sameinast í því að efla forvarnir í grunnskólum Reykjanesbæjar og verða fyrirmynd annarra sveitarfélaga.
Við eigum bara eitt líf.“
Til máls tóku: Anna Sigríður Jóhannesdóttir og Friðjón Einarsson.
Fundargerðin samþykkt 11 – 0.
5. Menningarstefna Reykjanesbæjar - fyrri umræða (2018010147)
Forseti gaf orðið laust um stefnuna. Til máls tóku: Baldur Þ. Guðmundsson, Kjartan Már Kjartansson,
Samþykkt 11 - 0 að vísa stefnunni til bæjarráðs.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:26.