564. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 16. apríl 2019 kl. 17:00
Viðstaddir: Díana Hilmarsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Margrét Þórarinsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Gunnar Þórarinsson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Ríkharður Ibsen, Andri Örn Víðisson, Hanna Björg Konráðsdóttir, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Guðný Birna Guðmundsdóttir.
1. Fundargerðir bæjarráðs 4. og 11. apríl 2019 (2019010002)
Forseti gaf orðið laust og bauð Hönnu Björgu Konráðsdóttur velkomna á sinn fyrsta bæjarstjórnarfund. Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokknum og lagði fram eftirfarandi bókun:
Liður 4 í fundargerð bæjarráðs frá 11. apríl 2019.
„Ég fagna þessum nýju reglum sem eru vissulega heppilegra fyrirkomulag fyrir bæjarbúa að fylgjast með umræðunni í bæjarstjórn og eru hluti af auknu gagnsæi í stjórnsýslu bæjarins. Þetta gefur bæjarbúum og fjölmiðlum möguleika á frekara aðhaldi.
Bæjarbúar eiga núna auðveldara með að átta sig á ákvörðun bæjarfulltrúa og fulltrúum bæjarráðs.“
Bæjarfulltrúi Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.
Forseti gaf orðið laust um fundargerð bæjarráðs frá 4. apríl 2019. Til máls tók Andri Örn Víðisson.
Forseti gaf orðið laust um fundargerð bæjarráðs frá 11. apríl 2019. Til máls tók Hanna Björg Konráðsdóttir.
Fundargerðirnar samþykktar 11-0.
2. Fundargerð umhverfis– og skipulagsráðs 5. apríl 2019 (2019010176)
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi liði fundargerðarinnar til sérstakrar samþykktar og gaf orðið laust undir hverjum lið:
Fyrsti liður fundargerðarinnar Hafnargata - Suðurgata - Kynning á deiliskipulagstillögu (2019040026) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum án umræðu.
Fimmti liður fundargerðarinnar Vatnsnesvegur 22 - Ósk um heimild til byggingar bílskúrs - Niðurstaða grenndarkynningar (2018090131) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum án umræðu.
Áttundi liður fundargerðarinnar Hafdalur 6-14 - Tveggja hæða raðhús verði ein hæð (2018100080) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum án umræðu.
Níundi liður fundargerðarinnar Víkurbraut 21-23 - Staðfesting deiliskipulags (2017090121) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum án umræðu.
Ellefti liður fundargerðarinnar Hafnarbakki 3-5 - Sameining lóða (2019030171) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum án umræðu.
Tólfti liður fundargerðarinnar Tjarnabakki 2 - Fyrirspurn (2019030237) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum án umræðu.
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti án umræðu 11-0.
3. Fundargerð fræðsluráðs 5. apríl 2019 (2019010177)
Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun:
Liður 1 í fundargerð fræðsluráðs frá 5. apríl 2019.
„Það er mikilvægt að foreldrum standi til boða fjölbreytt dagvistunarúrræði þegar fæðingarorlofi lýkur. Vegna fordæmalausrar fólksfjölgunar hér í Reykjanesbæ á undanförnum árum hefur ungbörnum fjölgað. Mikil skortur er á vist fyrir börn hjá dagmæðrum og biðlistar hafa myndast.
Ég fagna þessari könnun og nú er hægt að hefjast handa, kostnaðargreina og koma á fót deildum innan leikskólanna sem taka við börnum frá 18 mánaða aldri.
Hérna er um jafnréttismál að ræða því eins og við öll þekkjum þá er það yfirleitt móðirin sem er heimavinnandi eftir að fæðingarorlofi lýkur.“
Liður 3 og liður 4 í fundargerð fræðsluráðs frá 5. apríl 2019.
„Í fundargerðinni eru engin gögn varðandi þessa liði. Úr því verður að bæta. Óska ég hér með eftir því að svo verði gert, þannig að greinargóðar upplýsingar liggi fyrir áður en málið verður rætt hér.“
Bæjarfulltrúi Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.
Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Andri Örn Víðisson og Guðbrandur Einarsson.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
4. Fundargerð velferðarráðs 10. apríl 2019 (2019010160)
Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókanir:
Liður 1 í fundargerð velferðarráðs frá 10. apríl 2019.
„Ég fagna þessari skýrslu. Hún er vel unnin. Forvarnir eru besta vörnin til að halda unglingum frá áfengis og vímuefnaneyslu.
Neysla á munn og neftóbaki unglinga hefur aukist til muna hér á landi ásamt neyslu á kannabis og svokölluðum VAPE rafsígarettum. Það er mikið áhyggjuefni. Þó ber að fagna því hversu góður árangur hefur náðst í því að draga úr áfengisneyslu ungs fólks hér á landi, sem er sú minnsta á Norðurlöndum.
Allar rannsóknir og kannanir hafa sýnt fram á ótvírætt forvarnargildi þegar kemur að íþróttastarfi. Við þurfum að halda betur utan um íþróttafélögin okkar með auknum styrkveitingum þannig að þau geti sinnt starfi sínu sem best.
Einnig þurfum við að efla forvarnir í skólum en rannsóknir hafa sýnt fram á að þeir unglingum sem líður vel í skóla eru ekki eins líklegir til að neyta vímuefna eins og þeir sem finna sig illa í skólastarfinu. Gerum skólaumhverfið í Reykjanesbæ að enn betri vinnustað fyrir alla.“
Liður 3 í fundargerð velferðarráðs frá 10. apríl 2019.
„Enn og aftur gerist það að í fundargerðum eru engin gögn undir ákveðnum liðum. Ég óska eftir því að meirihlutinn vandi betur til verka og að héðan í frá muni gögn eða minnisblöð fylgja.
Ég óska hér með eftir því að fá upplýsingar varðandi notendaráð fatlaðs fólks sem er liður númer 3 í fundargerð Velferðarráðs.“
Bæjarfulltrúi Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.
Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Guðný Birna Guðmundsdóttir, Guðbrandur Einarsson og Kjartan Már Kjartansson.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
5. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 11. apríl 2019 (2019010286)
Fimmta mál frá 228. fundi stjórnar Reykjaneshafnar 11. apríl 2019 var tekið sérstaklega fyrir með eftirfarandi bókun:
„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir hér með að veita einfalda ábyrgð vegna lántöku Reykjaneshafnar hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 30.000.000 kr. til 7 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Ábyrgð þessi er veitt sbr. heimild í 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og veitir sveitarstjórnin lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar þeirri ábyrgð, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til greiðslu höfuðstóls láns þessa, ásamt vöxtum og verðbótum auk hvers kyns innheimtukostnaðar. Lánið er tekið til endurfjármögnunar afborgana af lánum Reykjaneshafnar, sem fellur undir lánshæf verkefni, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Reykjaneshafnar til að selja ekki eignarhlut sinn í Reykjaneshöfn til einkaaðila, í heild eða að hluta, fram til þess tíma að lán þetta er að fullu greitt.
Fari svo að Reykjanesbær selji eignarhlut í Reykjaneshöfn til annarra opinberra aðila, skuldbindur Reykjanesbær sig til þess að tryggja að samhliða yfirtaki nýr eigandi ábyrgð á láninu í hlutfalli við eignarhlut sinn í félaginu.
Jafnframt er Kjartani Má Kjartanssyni, kennitala ekki birt, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að samþykkja f.h. Reykjanesbæjar veitingu ofangreindrar ábyrgðar og veðsetningar og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast veitingu ábyrgðar þessarar.“
Heimildin samþykkt 11-0.
Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Ríkharður Ibsen, Guðbrandur Einarsson, Hanna Björg Konráðsdóttir og Friðjón Einarsson.
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.
6. Fundargerð menningarráðs 12. apríl 2019 (2019010150)
Forseti gaf orðið laust.
Fundargerðin samþykkt 11-0 án umræðu.
7. Ársreikningur Reykjanesbæjar og stofnana hans 2018 - fyrri umræða (2018120209)
Forseti gaf Kjartani Má Kjartanssyni orðið og kynnti hann ársreikninga Reykjanesbæjar og stofnana hans.
Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Guðbrandur Einarsson og lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, Beinnar Leiðar, Samfylkingar og Framsóknarflokks:
„Ársreikningur Reykjanesbæjar staðfestir að sveitarfélagið er á góðri leið með að ná þeim fjárhagslegu markmiðum sem stefnt hefur verið að undanfarin ár. Niðurstaðan er mjög hagfelld og staðfestir að sú leið sem ákveðin var í Sókninni var hin rétta leið.
Tekjur bæjarsjóðs héldu áfram að vaxa og voru 15,6 milljarðar, samanborið við 14,4 milljarða á árinu 2017 og jukust því um tæp 11 prósent á milli ára. Rekstrartekjur samstæðu voru skv. ársreikningi 23,2 milljarðar.
Rekstrargjöld bæjarsjóðs voru 12,1 milljarður samanborið við 11,7 milljarða útgjöld á árinu 2017 og nemur hækkun gjalda tæpum 4% milli ára. Rekstrargjöld samstæðu voru skv. ársreikningi 16,6 milljarðar.
Rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs fyrir afskriftir og fjármagnsliði var jákvæð um 3,5 milljarða króna en að teknu tilliti til þeirra er rekstrarniðurstaða jákvæð um 2,6 milljarða. Rekstrarniðurstaða skv. samstæðu var jákvæð um 2,3 milljarða króna.
Heildareignir sveitarfélagsins í samstæðu námu um 70 milljörðum króna og voru heildareignir bæjarsjóðs um 37,3 milljarðar króna í árslok 2018.
Heildarskuldir og skuldbindingar samstæðu námu um 48,5 milljörðum króna og í efnahagsreikningi bæjarsjóðs voru skuldir og skuldbindingar 29,1 milljarður króna í árslok 2018.
Heildarskuldir og skuldbindingar samstæðu eru 48,6 milljarðar og skuldaviðmið er komið niður fyrir 150% viðmiðið og var 137,29% í árslok 2018.
Sveitarfélagið er því samkvæmt nýrri aðferð um útreikning skuldaviðmiðs búið að ná undir 150% lögbundið skuldaviðmið.
Það má þó gera ráð fyrir að skuldaviðmið hækki tímabundið þegar uppsöfnuðu handbæru fé verður ráðstafað til byggingar Stapaskóla. Í árslok 2018 ríkir áfram óvissa um endanlegt virði langtímakröfu Reykjanesbæjar í Fagfjárfestingasjóðnum ORK sem heldur á hlutabréfum í HS Orku. Það má þó gera ráð fyrir að einhverjir fjármunir heimtist vegna sölu á þeim hlutabréfum sem verða þá nýttir til uppgreiðslu skulda.
Það er því ljóst að Reykjanesbær er á réttri leið. Þessi árangur næst ekki af sjálfu sér og eru starfsfólki Reykjanesbæjar færðar þakkir fyrir að sveitarfélagið er að komast á þann stað að vera eitt af best reknu og sjálfbærustu sveitarfélögum á Íslandi.“
Bæjarfulltrúar Guðbrandur Einarsson, Friðjón Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Díana Hilmarsdóttir.
Til máls tók Ríkharður Ibsen.
Til máls tók Gunnar Þórarinsson og lagði fram eftirfarandi bókun Frjáls afls:
„Eftir kosningar í bæjarstjórn 2014 var myndaður meirihluti sem setti sér það meginmarkmið að ná niður skuldum bæjarsjóðs og hafnarinnar og annarra B-hluta rekstrareininga. Aðgerðirnar fólust m.a. í því að auka framlegð í rekstri bæjarins, semja við kröfuhafa um lægri vexti og gera rekstur B-hluta sjálfbæran. Með „Sókninni“ eins og aðgerðirnar voru kallaðar náðist sá árangur sem stefnt var að, að ná skuldaviðmiði undir þau lögskyldu mörk sem sett hafa verið af ríkisvaldinu, eða undir 150% í árslok 2022. Nú þegar í árslok 2018 er skv. ársreikningi gert ráð fyrir að skuldaviðmið A hluta sé 122,6% fyrir A-hluta og 137,29% fyrir A+B hluta í árslok 2018.
Í áætlun sem gerð var í desember s.l. er síðan gert ráð fyrir að skuldaviðmiðið lækki á árinu 2019 um 4,9 prósentustig fyrir A-hluta en 5,5 prósentustig fyrir A+B hluta. Gert er ráð fyrir lækkun á hverju ári allt til ársloka 2022 og verði skuldaviðmiðið því vel undir lögskyldum mörkum á árunum 2019-2022 ef áætlanir ganga eftir.
Það er því augljóst að bæjarstjórnin hefur náð verulegum árangri í rekstri bæjarins á undanförnum árum. Til að halda áfram sömu vegferð þarf að ná skuldum bæjarins enn frekar niður, þannig að vaxtarbyrðin verði hófleg og hægt sé að sinna þeim verkefnum sem blasa við.“
Gunnar Þórarinsson, Frjálst afl.
Til máls tóku Ríkharður Ibsen, Friðjón Einarsson, Gunnar Þórarinsson, Guðbrandur Einarsson, Andri Örn Víðisson, Kjartan Már Kjartansson, Hanna Björg Konráðsdóttir og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Samþykkt 11-0 að vísa ársreikningnum til síðari umræðu 7. maí n.k.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:15.