591. fundur

16.06.2020 17:00

591. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn í Merkinesi, Hljómahöll þann 16. júní 2020, kl. 17:00

Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Jóhann Friðrik Friðriksson.

1. Fundargerðir bæjarráðs 4. og 11. júní 2020 (2020010002)

Í upphafi fundar afhenti bæjarstjóri Baldri Þóri Guðmundssyni blóm í tilefni af setu á 200 bæjarstjórnarfundum.

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku Díana Hilmarsdóttir og Kjartan Már Kjartansson.

Kjartan Már Kjartansson las síðan upp bókun fyrir hönd bæjarstjórnar Reykjanesbæjar:

„Í kjölfar aukins atvinnuleysis á svæðinu vegna COVID-19 var skipaður vinnuhópur undir handleiðslu Súlunnar. Nú er fyrsta áfanga lokið en verkefnið er engan veginn á enda. Markmið hópsins var að kortleggja áhrif atvinnuleysis út frá COVID-19.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar færir atvinnuátaksteyminu sérstakar þakkir fyrir skjót og fagleg vinnubrögð við undirbúning og framkvæmd aðgerða sem áttu sér stað í kjölfar COVID-19.
Einnig vill bæjarstjórn færa sérstakar þakkir til mannauðsdeildar og launadeildar Reykjanesbæjar fyrir skjót og fagleg vinnubrögð við sumarátaksúrræði fyrir námsfólk 18 ára og eldri og öllum þeim sem að því verkefni stóðu.
Það hefur sýnt sig undanfarna mánuði hversu mikilvægt það er fyrir sveitarfélagið að hafa á að skipa vel menntuðu, dugmiklu og úrræðagóðu starfsfólki sem er tilbúið til að leggja á sig ómælda vinnu í þágu samfélagsins.“

Anna Sigríður Jóhannesdóttir (D), Baldur Þ. Guðmundsson (D), Díana Hilmarsdóttir (B), Friðjón Einarsson (S), Guðbrandur Einarsson (Y), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Gunnar Þórarinsson (Á), Jóhann Friðrik Friðriksson (B), Margrét A. Sanders (D), Margrét Þórarinsdóttir (M), Styrmir Gauti Fjeldsted (S).

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Baldur Þórir Guðmundsson og Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Til máls tók Jóhann Friðrik Friðriksson og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 5 í fundargerð bæjarráðs frá 11. júní 2020:

„Félagsmálaráðuneytið hefur óskað eftir samstarfi við Reykjanesbæ vegna uppbyggingar þjónustukjarna fyrir öryggisvistun fólks með margþættan vanda en rekstur hans verður í höndum ríkisins. Ætlunin er að ríkið taki málaflokkinn að sér og umgjörð hans verði með því besta sem þekkist.
Félagsmálaráðuneytið óskar eftir samstarfi við Reykjanesbæ um hentuga staðsetningu undir uppbyggingu þjónustukjarna fyrir skjólstæðinga og til skemmri tíma á meðan á framkvæmdatíma stendur. Ekki er gert ráð fyrir að skammtíma né langtímaúrræði verði staðsett í miðri íbúabyggð og unnið verður markvisst að því að ekkert ónæði hljótist af starfseminni í bæjarfélaginu. Ráðgert er að uppbygging varanlegs þjónustukjarna auk þjálfunar á sérhæfðu starfsfólki verði lokið 2023 og er kostnaður áætlaður um 550 milljónir við fyrsta áfanga. Áætlað er að rekstur þjónustukjarnans verði um 350 milljónir króna á ári og þjálfun starfsfólks fari fram í samvinnu við menntastofnanir á svæðinu. Fjármögnun verkefnisins hefur þegar verið samþykkt af hálfu ríkisins.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar tekur undir með bæjarráði og samþykkir að taka þátt í verkefninu og áréttar mikilvægi þess að vandað verði til verka við staðsetningu, uppbyggingu og kynningu þjónustunnar í sátt við íbúa bæjarfélagsins.“

Anna Sigríður Jóhannesdóttir (D), Baldur Þ. Guðmundsson (D), Díana Hilmarsdóttir (B), Friðjón Einarsson (S), Guðbrandur Einarsson (Y), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Gunnar Þórarinsson (Á), Jóhann Friðrik Friðriksson (B), Margrét A. Sanders (D), Margrét Þórarinsdóttir (M), Styrmir Gauti Fjeldsted (S).

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Guðbrandur Einarsson, Margrét A. Sanders og Gunnar Þórarinsson.

Jóhann Friðrik Friðriksson tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 2 í fundargerð bæjarráðs frá 4. júní 2020:

„Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar þann 24. maí 2018 var lögð fram og samþykkt tillaga um að gerð yrði úttekt á þeim verkferlum sem voru viðhafðir í samskiptum Reykjanesbæjar við United Silicon hf. Undanfari þess var skýrsla Ríkisendurskoðunar þar sem fram kom að víða hafi verið pottur brotinn í samskiptum og eftirlitshlutverki stofnana ríkisins við uppbyggingu og rekstur kísilversins. Nú liggur sú stjórnsýsluúttekt fyrir.
Megin niðurstaða skýrslunnar er að annmarkar hafi verið á útgáfu byggingarleyfa og byggingar því ekki í samræmi við deiliskipulag og umhverfismat. Svo virðist sem mikil pressa hafi verið sett á embættismenn um að afgreiða erindi framkvæmdaaðila með hraði sem hafi leitt til verulegra mistaka. Það skal tekið fram að ekkert bendi til þess að annarleg sjónarmið hafi ráðið ferð í samskiptum stjórnenda sveitarfélagsins við fyrirtækið.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar telur að bæjarfélagið hafi verið illa í stakk búið til þess að ráða við svo viðamikið verkefni. Mikilvægt er að lærdómur sé dreginn af þeim hrakförum sem áttu sér stað við uppbyggingu kísilvers United Silicon í Helguvík.“

Anna Sigríður Jóhannesdóttir (D), Baldur Þ. Guðmundsson (D), Díana Hilmarsdóttir (B), Friðjón Einarsson (S), Guðbrandur Einarsson (Y), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Gunnar Þórarinsson (Á), Jóhann Friðrik Friðriksson (B), Margrét A. Sanders (D), Styrmir Gauti Fjeldsted (S).

Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 2 í fundargerð bæjarráðs frá 4. júní 2020:

Ég er ekki sammála því að Reykjanesbær hafi ekki verið í stakk búinn að takast á við verkefnið. Ólöglegar pólitískar ákvarðanir þáverandi meirihluta eru meginástæða þess hvernig fór.
Eins og fram kemur í skýrslunni hafði Reykjanesbær skuldbundið sig með sérstökum samningi við United Silicon að afgreiða umsóknir um byggingarleyfi innan 6 virkra daga. Slíkur samningur er ólögmætur og á sér ekki hliðstæðu í stjórnsýslunni. Skýrsluhöfundar leggja ríka áherslu á þetta. Með því voru mannvirkjalög og byggingarreglugerð brotin. Hafa ber í huga að þessi ólögmæti samningur skrifast fyrst og fremst á meirihluta bæjarstjórnar á þeim tíma. Embættismenn á vegum sveitarfélagsins koma ekki að slíkri samningagerð, ef svo ólíklega vildi til, væri það aldrei gert nema að fyrirmælum meirihluta bæjarstjórnar.

Skýrsluhöfundar benda réttilega á að sá stutti tími sem afgreiða þurfti umsóknir United Silicon hafi aukið líkur á því að mistök yrðu gerð í afgreiðslu umsókna og að eftirlit yrði af skornum skammti. Það kom síðan á daginn að mörg afdrifarík mistök áttu sér stað af hálfu starfsmanna og stofnana Reykjanesbæjar.
Niðurstaða skýrslunnar er sláandi og áfellisdómur yfir stjórnsýslu bæjarins. Afleiðingarnar voru afdrifaríkar og öllum bæjarbúum kunnar. Ábyrgðin er fyrst og fremst pólitísk, það má glöggt sjá í áðurnefndum ólögmætum 6 daga samningi. Brottrekstur þáverandi byggingarfulltrúa var fyrst og fremst táknrænn. Ábyrgðin er hjá þáverandi meirihluta sem sá um daglegan rekstur bæjarfélagsins og var æðsti yfirmaður starfsliðs.

Margrét Þórarinsdóttir (M).

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Baldur Þórir Guðmundsson, Jóhann Friðrik Friðriksson og Guðbrandur Einarsson.

Fundargerðirnar samþykktar 11-0. Baldur Þórir Guðmundsson (D) lýsti sig vanhæfan í máli 13 frá fundargerð bæjarráðs 11. júní 2020.

Fylgigögn:

Fundargerð 1272. fundar bæjarráðs 4. júní 2020
Fundargerð 1273. fundar bæjarráðs 11. júní 2020

2. Fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs 5. og 11. júní 2020 (2020010012)

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi liði fundargerðarinnar frá 5. júní til sérstakrar samþykktar:

Sjötti liður fundargerðarinnar Baugholt 7 - Viðbygging (2019050449) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.

Sjöundi liður fundargerðarinnar Heiðarvegur 18 - Viðbygging (2020050081) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.

Áttundi liður fundargerðarinnar Bogatröð 10 - Viðbygging (2019090221) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.

Tíundi liður fundargerðarinnar Freyjuvellir 28 - Viðbygging (2020050485) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.

Ellefti liður fundargerðarinnar Suðurvellir 9 - nýbygging (2020030507) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.

Fjórtándi liður fundargerðarinnar Sóltún 20 - Viðbygging (2020050028) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tók Margrét A. Sanders.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 1 í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. júní 2020:

„Miðflokkurinn hefur ávallt hafnað uppbyggingu/endurræsingu kísilverksmiðjunnar í Helguvík og hefur barist ötullega á móti endurræsingu hennar. Það hefur berlega komið í ljós að uppbygging verksmiðjunnar er þvert gegn vilja íbúa Reykjanesbæjar en íbúar sveitarfélagsins vilja ekki mengandi stóriðju við bæjardyrnar. Eigendur Stakksbergs hljóta að vera farnir að gera sér grein fyrir því og ættu þeir að horfa til samfélagslegrar ábyrgðar.
Ég fagna þessari skýrslu sem er mjög faglega unnin af umhverfis- og skipulagsráði og vil ég þakka ráðinu fyrir góð vinnubrögð. Það kemur berlega í ljós í skýrslunni að endurræsing verksmiðjunnar hefur mjög neikvæð áhrif á okkar samfélag enda snýst endurreisn verksmiðjunnar um lýðheilsu íbúa.“

Margrét Þórarinsdóttir (M).

Til máls tók Guðbrandur Einarsson og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 1 í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. júní 2020:

„Bæjarfulltrúar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar taka undir umsögn umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar frá 11. júní 2020 þar sem fram koma efasemdir um að breytingar þær sem áætlaðar eru af hálfu eigenda séu til þess fallnar að gera verksmiðju Stakksbergs í Helguvík rekstrarhæfa á ný. Reykjanesbær hefur orðið fyrir verulegum fjárhagslegum og samfélagslegum skaða vegna gjaldþrots United Silicon í Helguvík og ljóst að starfsemin hefur verið ein samfelld sorgarsaga. Bæjarstjórn hefur áhyggjur af að neikvæð umhverfisáhrif fylgi áætluðum breytingum er snúa að samfélagi, loftgæðum og heilsu íbúa. Bæjarstjórn hvetur eigendur til að vinna frekar að annarri uppbyggingu á svæðinu í sátt við íbúa bæjarfélagsins.“

Baldur Þ. Guðmundsson (D), Díana Hilmarsdóttir (B), Friðjón Einarsson (S), Guðbrandur Einarsson (Y), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Gunnar Þórarinsson (Á), Jóhann Friðrik Friðriksson (B), Margrét A. Sanders (D), Styrmir Gauti Fjeldsted (S).

Til máls tók Baldur Þórir Guðmundsson.

Fundargerðin frá 5. júní samþykkt 11-0.

Fundargerðin frá 11. júní samþykkt 7-0, Margrét A. Sanders (D), Baldur Þórir Guðmundsson (D), Anna Sigríður Jóhannesdóttir (D) og Gunnar Þórarinsson (Á) sátu hjá.

Fylgigögn:

Fundargerð 250. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 5. júní 2020
Fundargerð 251. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 11. júní 2020

3. Fundargerð menningar- og atvinnuráðs 3. júní 2020 (2020010011)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Fundargerðin samþykkt án umræðu 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 10. fundar menningar- og atvinnuráðs 3. júní 2020

4. Fundargerð fræðsluráðs 5. júní 2020 (2020010006)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Jóhann Friðrik Friðriksson.

Bæjarstjórn samþykkti 11-0 að 1. og 3. máli í fundargerð fræðsluráðs verði vísað í bæjarráð.

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Margrét A. Sanders, Guðbrandur Einarsson, Anna Sigríður Jóhannesdóttir og Margrét Þórarinsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 334. fundar fræðsluráðs 5. júní 2020

5. Fundargerð lýðheilsuráðs 10. júní 2020 (2020010008)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Anna Sigríður Jóhannesdóttir og Jóhann Friðrik Friðriksson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 9. fundar lýðheilsuráðs 10. júní 2020

6. Fundargerð velferðarráðs 10. júní 2020 (2020010007)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókanir:

Liður 1 í fundargerð velferðarráðs frá 10. júní 2020:

“Ég styð heilshugar þetta verkefni og vona svo sannarlega að Reykjanesbær muni taka þátt í þessu tilraunaverkefni. Eins og kemur fram í fundargerðinni þá er þetta fjölkerfameðferð fyrir fjölskyldur barna frá sex ára aldri þar sem börn búa við ofbeldi og vanrækslu. Eitt af grundvallarmannréttindum barna er mikilvægi verndar. Það kemur fram í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að fjölskyldan er það form sem veitir börnum ríkustu verndina. MST- CAN úrræðið hefur sýnt góðar niðurstöður í hvívetna og hefur opnað enn frekar fyrir mikilvægi þess að börn njóti umönnunar foreldris. . Verkefnið er mjög mikilvægt og með þátttöku mun félagsþjónustan styrkjast að mínu mati.”

Liður 2 í fundargerð velferðarráðs frá 10. júní 2020:

„Ég virkilega fagna þessari úttekt á starfsumhverfi á velferðarsviði.
Starfsaðstæður starfsmanna velferðarsviðs ná til allra þátta í starfsumhverfinu og geta haft áhrif á hvernig viðkomandi sinnir starfi sínu. Þetta eru þættir eins og vinnuaðstaða, þ.e. að segja öryggi í vinnuumhverfi, vinnutæki, vinnuálag, vinnutími, samskipti á vinnustað, starfsánægja og eðli starfsins. Það er almennt viðurkennt að starfsaðstæður geti haft veruleg áhrif á vellíðan starfmanna. Vinnustaðamenning, gildi og hefðir móta vinnustaðinn.
Ég hef áður lýst verulegum áhyggjum mínum af álagi og starfsmannaveltu í barnavernd Reykjanesbæjar sérstaklega í ljós þess að ekki er unnt að manna öll stöðugildi með viðeigandi fagmenntun.
Ég vona svo sannarlega að unnið verði eftir þeim tillögum að úrbótum á velferðarsviði sem Líf og sál, sálfræði- og ráðgjafastofa kom með til að bæta starfsumhverfi velferðarsviðs.“

Liður 8 í fundargerð velferðarráðs frá 10. júní 2020:

„Ég fagna því að velferðarráði þyki æskilegt að í umhverfisstefnunni verði áhersla lögð á aðgengismál fatlaðs fólks. Ég kom með bókun þann 7. maí þess efnis að Reykjanesbær geri greiningu á aðgengismálum fatlaðra í bæjarfélaginu og að sviðsstjóri kæmi með tillögur um endurbætur, sem hægt er að ráðast í hið fyrsta. Einnig að sviðsstjóri skyldi skila skýrslu fyrir næsta bæjarráðsfund og að sótt yrði um styrk til fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs til verkefnanna.
Því miður þá er ekkert að frétta af þessu verkefni sem ég tel mjög sorglegt og ég óska svo sannarlega og vona að meirihlutinn hlusti á velferðarráð því það er greinilegt að þeir hlusta ekki á mig.“

Liður 12 í fundargerð velferðarráðs frá 10. júní 2020:

„Reykjanesbær stendur svo sannarlega frammi fyrir miklum samdrætti í tekjum vegna COVID- 19 veirufaraldursins og að sama skapi hafa og munu útgjöld stóraukast með haustinu en nú þegar hefur orðið samdráttur í tekjum og útgjöld aukist. Þessar tölur eru sláandi og valda mér hugarangri eins og ég hef komið áður að er síðustu tölur voru birtar. Við þurfum að forgangsraða verkefnum og halda vel utan um þau verkefni sem Reykjanesbær hefur sett í forgang þannig að þau fari ekki fram úr áætlun. Einnig má ekki gleyma að verkefnunum sé forgangsraðað samkvæmt stefnu Reykjanesbæjar.“

Margrét Þórarinsdóttir (M).

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Guðný Birna Guðmundsdóttir og Díana Hilmarsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 388. fundar velferðarráðs 10. júní 2020

7. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 11. júní 2020 (2020010252)

Fyrsta mál frá 242. fundi stjórnar Reykjaneshafnar 11. júní 2020 var tekið sérstaklega fyrir með eftirfarandi bókun:

Lánasamningur LSS nr. 2006_58
„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir hér með að veita einfalda ábyrgð vegna lántöku Reykjaneshafnar hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstólsfjárhæð 254.536.518.- kr., að útgreiðslufjárhæð 288.817.667.- kr., í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Ábyrgð þessi er veitt sbr. heimild í 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og veitir sveitarstjórnin lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar þeirri ábyrgð, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til greiðslu höfuðstóls láns þessa, ásamt vöxtum og verðbótum auk hvers kyns innheimtukostnaðar. Lánið er tekið til endurfjármögnunar á lánum Reykjaneshafnar, sem falla undir lánshæf verkefni, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Reykjaneshafnar til að selja ekki eignarhlut sinn í Reykjaneshöfn til einkaaðila, í heild eða að hluta, fram til þess tíma að lán þetta er að fullu greitt.
Fari svo að Reykjanesbær selji eignarhlut í Reykjaneshöfn til annarra opinberra aðila, skuldbindur Reykjanesbær sig til þess að tryggja að samhliða yfirtaki nýr eigandi ábyrgð á láninu í hlutfalli við eignarhlut sinn í félaginu.
Jafnframt er Kjartani Má Kjartanssyni, kennitala ekki birt, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að samþykkja f.h. Reykjanesbæjar veitingu ofangreindrar ábyrgðar og veðsetningar og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast veitingu ábyrgðar þessarar.“

Heimildin samþykkt 11-0.

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Fundargerðin samþykkt án umræðu 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 242. fundar stjórnar Reykjaneshafnar 11.06.20

8. Fyrirspurn til stjórnar Reykjaneshafnar (2020030106)

Kjartan Már Kjartansson lagði fram svör við fyrirspurnum Margrétar Þórarinsdóttur (M) sem bókaðar voru á bæjarstjórnarfundi 3. mars 2020.

Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir.

Fylgigögn:

Bæjarstjórn RNB- svarbréf 11.06.20

9. Forsetakosningar 27. júní 2020 - kosning í undirkjörstjórn (2020040072)

Forseti gaf orðið laust. Til umræðu var framlögð kjörskrá vegna forsetakosninga 2020.

Bæjarstjórn samþykkir framlagða kjörskrá vegna forsetakosninga 2020 í Reykjanesbæ og veitir bæjarráði fullnaðarumboð til að annast leiðréttingar og afgreiðslu athugasemda vegna kjörskrár.

Tilnefnd eru í undirkjörstjórn vegna forsetakosninga 2020 eftirtaldir aðilar:

Aðalheiður Júlírós Óskarsdóttir
Agatha Atladóttir 
Agnes Margrét Garðarsdóttir
Ásta Björk Benónýsdóttir
Ástríður Helga Sigurðardóttir
Ástríður Helga Sigurvinsdóttir
Bjarney Sigríður Snævarsdóttir
Dagbjört Linda Gunnarsdóttir
Dagbjört Þórey Ævarsdóttir
Elín Gunnarsdóttir
Elínborg Sigurjónsdóttir
Eygló Anna Tómasdóttir
Guðný Húnbogadóttir
Guðríður Gestsdóttir
Guðríður Walderhaug
Guðríður Þórsdóttir
Gunnar Dagur Jónsson
Gunnhildur Þórðardóttir
Halldóra Vala Jónsdóttir
Helga Ingimundardóttir
Helga Jónsdóttir
Hildur Bára Hjartardóttir
Hildur Elísabet Þorgrímsdóttir
Iðunn Ingólfsdóttir
Iðunn Kristín Grétarsdóttir
Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir 
Jóhann Rúnar Kristjánsson
Júlía Elsa Ævarsdóttir
Kristín Blöndal
Kristín Hjartardóttir
Kristín Rún Sævarsdóttir
Margrét Helga Jóhannsdóttir
Margrét Kolbeinsdóttir
Melkorka Sigurðardóttir
Ragna Kristín Árnadóttir
Sigríður Guðbrandsdóttir
Sigurbjörg Hallsdóttir
Sigurbjörg Jónsdóttir
Sigurborg Magnúsdóttir
Sigurður Kr. Sigurðsson
Sjöfn Olgeirsdóttir
Svana A. Daðadóttir
Sveindís Árnadóttir
Þórey Garðarsdóttir
Þórunn Þorbergsdóttir


Tilnefningar samþykktar 11-0.

Fylgigögn:

Kosning undirkjörstjórna vegna forsetakosninga 2020

10. Kosningar til eins árs sbr. samþykkt um stjórn Reykjanesbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar (2020060099)

2.1. Forseti bæjarstjórnar sbr. 15. gr.
Jóhann Friðrik Friðriksson óskaði eftir tilnefningu um forseta bæjarstjórnar. Tillaga kom um Guðbrand Einarsson (Y) sem forseta bæjarstjórnar og var tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
2.2. 1. varaforseti. Uppástunga kom um Guðnýju Birnu Guðmundsdóttur (S) og var hún sjálfkjörin.
2.3. 2. varaforseti. Uppástunga kom um Baldur Þóri Guðmundsson (D) og var hann sjálfkjörinn.
2.4. Tveir skrifarar og tveir til vara sbr. 16. gr.
Aðalskrifarar. Uppástunga kom um Jóhann Friðrik Friðriksson (B) og Önnu Sigríði Jóhannesdóttur (D) og voru þau sjálfkjörin.
Varaskrifarar. Uppástunga kom um Díönu Hilmarsdóttur (B) og Baldur Þóri Guðmundsson (D) og voru þau sjálfkjörin.
2.5. Bæjarráð - 5 aðalmenn og 5 til vara sbr. 44. gr.
Uppástunga kom um aðalmenn: Friðjón Einarsson (S), Jóhann Friðrik Friðriksson (B), Guðbrandur Einarsson (Y), Margrét Ólöf A. Sanders (D) og Baldur Þórir Guðmundsson (D) og voru þau sjálfkjörin.
Uppástunga kom um varamenn: Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Díana Hilmarsdóttir (B), Kolbrún Jóna Pétursdóttir (Y), Anna Sigríður Jóhannesdóttir (D) og Gunnar Þórarinsson (Á) og voru þau sjálfkjörin.

11. Sumarleyfi bæjarstjórnar (2020060100)

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir að fela bæjarráði fullnaðarafgreiðslu mála á meðan á sumarleyfi bæjarstjórnar stendur yfir frá 17. júní til 12. ágúst n.k. Næsti bæjarstjórnarfundur verður þriðjudaginn 18. ágúst 2020 í Merkinesi í Hljómahöll.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:05.