611. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Merkinesi, Hljómahöll 18. maí 2021, kl. 17:00
Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted og Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Guðbrandur Einarsson.
1. Fundargerðir bæjarráðs 6. og 12. maí 2021 (2021010002)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar.
Til máls tók Margrét A. Sanders (D) og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Liður 7 í fundargerð bæjarráðs frá 12. maí 2021:
„Við, bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, leggjum til að fræðslusviði Reykjanesbæjar verði falið að kanna kosti, galla og kostnað við að bjóða upp á forskóladeild fyrir 5 ára börn í Reykjanesbæ. Mörg sveitarfélög hafa þegar farið þessa leið og væri æskilegt að fá upplýsingar um hvernig til hefur tekist. Með tilkomu 5 ára deildar mun fjölbreytni á námsúrræðum fyrir börnin aukast og foreldrar geta þá valið um það hvort barnið þeirra verði áfram í leikskóla eða fari í grunnskóla. Einnig gæti myndast svigrúm til að brúa bilið frá fæðingarorlofi til 18 mánaða aldurs.“
Margrét A. Sanders (D), Anna Sigríður Jóhannesdóttir (D) og Baldur Þórir Guðmundsson (D).
Til máls tóku Guðbrandur Einarsson, Jóhann Friðrik Friðriksson og Friðjón Einarsson.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (M) og lagði fram eftirfarandi bókun:
Liður 9 í fundargerð bæjarráðs frá 6. maí 2021:
„Þar sem ég er áheyrendafulltrúi í bæjarráði þá vil ég koma því á framfæri að ég tek undir með bæjarfulltrúunum Margréti Sanders og Baldri Þ. Guðmundssyni og mun ég því ekki samþykkja þennan lið fundargerðarinnar.“
Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.
Til máls tóku Guðbrandur Einarsson, Margrét A. Sanders, Baldur Þórir Guðmundsson og Díana Hilmarsdóttir.
Fundargerðirnar samþykktar 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 1318. fundar bæjarráðs 6. maí 2021
Fundargerð 1319. fundar bæjarráðs 12. maí 2021
2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 7. maí 2021 (2021010010)
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi liði fundargerðarinnar frá 5. mars til sérstakrar samþykktar:
Annar liður fundargerðarinnar Aðalgata 17 - niðurstaða grenndarkynningar (2021020392). Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og bar fram eftirfarandi tillögu:
„Ég óska þess að þessum lið verði vísað aftur til umhverfis- og skipulagsráðs í ljósi þess að Reykjanesbær er ekki með almennar reglur varðandi leyfisveitingar eins og þessa. USK samþykkti þessa leyfisveitingu þrátt fyrir mótbárur sem bárust frá 2 nágrönnum.“
Forseti bar upp tillögu bæjarfulltrúa Margrétar Þórarinsdóttur (M). Tillagan felld 8-0. Gunnar Þórarinsson (Á) og Margrét A. Sanders sitja hjá.
Annar liður samþykktur 10-0, Margrét Þórarinsdóttir situr hjá.
Þriðji liður fundargerðarinnar Eikardalur 2 - stækkun á byggingarreit (2021030524) samþykktur 11-0 án umræðu.
Fimmti liður fundargerðarinnar Skógarbraut 918A - fjölgun íbúða (2021040446) samþykktur 11-0 án umræðu.
Sjötti liður fundargerðarinnar Deiliskipulag Kalmanstjörn - Nesvegur 50 (2020080234) samþykktur 11-0 án umræðu.
Sjöundi liður fundargerðarinnar Íshússtígur 6 - klæðning og kjallari (2020100162) samþykktur 11-0 án umræðu.
Þrettándi liður fundargerðarinnar Þverholt 11 - viðbygging (2021030335) samþykktur 11-0 án umræðu.
Forseti gaf orðið laust.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (M) og lagði fram eftirfarandi bókun:
Liður 20 í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. maí 2021:
„Hér er á ferðinni einkennilegt mál stjórnsýslulega séð. Málið snýst um deilu um stærðarmörk lóðar sem er erfðafestuland. Kjörnum fulltrúum var tjáð að samningar stæðu yfir og að stefnt væri að farsælli lausn. Það er hins vegar ekki rétt þegar málið er skoðað betur. Deilurnar milli húseiganda og skipulagsyfirvalda virðast vera óleysanlegar. Það allra versta í málinu er að búið er að blanda Vegagerðinni í málið sem talin var þurfa þennan lóðarskika sem um er deilt og það jafnvel til að leggja nýtt tvöfalt hringtorg. Öllu þessu hefur verið haldið fram við kjörna fulltrúa af skipulagsyfirvöldum sem seinna kom í ljós að væru ósannindi. Skipulagsmál í sveitarfélögum eru stundum mjög eldfim og þegar svona misræmi kemur fram er það merki um afar slaka stjórnsýslu.“
Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.
Til máls tók Guðbrandur Einarsson.
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti án umræðu 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 270. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 7. maí 2021
3. Fundargerð velferðarráðs 12. maí 2021 (2021010011)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (M) og lagði fram eftirfarandi bókun:
Liður í fundargerð velferðarráðs frá 12. maí 2021:
„Ég fagna þessari stöðuskýrslu. Ég tek undir með velferðarráði að það er ánægjulegt hvernig til hefur tekist með verkefnið. Grundvallaratriði öldrunarþjónustu er það að gera hinum aldraða kleift að búa eins lengi heima og unnt er. Margir aldraðir eiga enga nána ættingja sem eru í aðstöðu til að veita þeim reglulega hjálp og því er nauðsynlegt að hafa góða og virka heimaþjónustu og að heimaþjónustan og heimahjúkrun vinni vel saman sem eitt teymi. Þrátt fyrir heilsubrest og hækkandi aldur, á að gera hinum aldraða kleift að halda sem lengst áfram að vera hann sjálfur þ.e.a.s. að hinn aldraði hafi val og áhrif á þá þjónustu sem honum er veitt. Þjónustan við hinn aldraða þarf því að vera sem fjölbreyttust og í sem bestu samræmi við þarfir hans og óskir.“
Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.
Til máls tóku Guðbrandur Einarsson, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þórir Guðmundsson og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 398. fundar velferðarráðs 12. maí 2021
4. Fundargerð fræðsluráðs 14. maí 2021 (2021010005)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.
Fundargerðin samþykkt án umræðu 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 343. fundar fræðsluráðs 14. maí 2021
5. Ársreikningur Reykjanesbæjar og Reykjaneshafnar 2020 (2021040123) – síðari umræða
Forseti gaf Friðjóni Einarssyni orðið. Fór hann yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið á ársreikningi frá fyrri umræðu.
Forseti gaf orðið laust.
Til máls tók Margrét A.Sanders (D) og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Frjáls afls og Miðflokks:
„Bókun vegna ársreiknings 2020:
Það vekur athygli að á þessum erfiðu tímum þá skilar Reykjanesbær ársreikningi með 83 milljónum í hagnað.
Samkvæmt endurskoðendum Reykjanesbæjar þá eru tekjur oftaldar um 150 milljónir og bæjarsjóður því með réttu rekinn með tapi.
Starfsfólki heldur áfram að fjölga hlutfallslega umfram fjölgun bæjarbúa. Stöðugildum fjölgar um 85 milli ára og þá eru vinnumarkaðsúrræði ekki meðtalin. Fjölgun starfsmanna hjá Reykjanesbæ er um 9,7% á meðan íbúum fjölgar um 1,3% og launakostnaður eykst um rúmlega 17% á milli ára (leiðrétt vegna vinnumarkaðsúrræða). Annar rekstrarkostnaður eykst síðan um 14% á milli ára skv. endurskoðendaskýrslu.
Frá kosningum 2018:
Frá 2018 eða þegar nýr meirihluti Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar tók við hefur aukning á stöðugildum verið meiri en fjölgun íbúa. Á þessum tíma hefur stöðugildum fjölgað um 160 og launakostnaður sveitarfélagsins aukist um 32% (leiðrétt fyrir vinnumarkaðsúrræði) á meðan íbúum hefur fjölgað um 3,9%.
Vöru- og þjónustukaup hafa aukist um 1 milljarð frá 2018 eða 27%.
Í skýrslu endurskoðenda Reykjanesbæjar kemur fram að „samkvæmt fjárhagsáætlun 2021-2025 þá mun Reykjanesbær ekki uppfylla fjárhagsleg viðmið sem sett eru í sveitarstjórnarlögum á komandi árum“. Mikilvægt er því að gæta aðhalds í rekstri og hemja þessa gríðarlegu fjölgun starfsmanna og aukinn rekstrarkostnað.“
Margrét Sanders (D), Baldur Þórir Guðmundsson (D), Anna Sigríður Jóhannesdóttir (D), Gunnar Þórarinsson (Á), Margrét Þórarinsdóttir (M).
Til máls tók Guðbrandur Einarsson (Y) og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, Beinnar Leiðar, Samfylkingar og Framsóknarflokks:
„Ársreikningur Reykjanesbæjar vegna ársins 2020 sýnir glögglega þær miklu breytingar og þær áskoranir sem sveitarfélagið hefur staðið frammi fyrir á árinu. Þetta er ár sem verður öllum minnistætt. Það er með réttu hægt að fullyrða að starfsfólk sveitarfélagsins hefur lyft grettistaki, til að sveitarfélagið geti veitt lögbundna þjónustu og um leið skapað ýmiss konar úrræði sem m.a. gerðu það að verkum að hægt var að veita ungum íbúum sveitarfélagsins störf sl. sumar.
Þá hafa fjölmargir starfsmenn tekið verulega áhættu til þess að láta starfsemi sveitarfélagsins ganga. Kennarar í grunnskólum og leikskólum hafa m.a. sinnt sínu starfi við erfiðar aðstæður til þess að líf barna og ungmenna gæti verið sem eðlilegast.
Við viljum koma á framfæri þakklæti til allra þessara starfsmanna fyrir þeirra óeigingjarna starf.
Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2020 námu um 25 milljörðum króna samkvæmt samstæðureikningi A og B hluta. Rekstrartekjur bæjarsjóðs eða A hluta námu um 17.3 milljörðum króna. Rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs fyrir afskriftir og fjármagnsliði var jákvæð um 1.4 milljarða króna en að teknu tilliti til þeirra liða er rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins jákvæð um 82,6 milljónir króna.
Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins fyrir A og B hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 4.4 milljörðum króna, en að teknu tilliti til þeirra liða, var niðurstaðan jákvæð um 69,7 milljónir króna.
Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins námu um 10.4 milljörðum króna en stöðugildi hjá sveitarfélaginu voru að meðaltali 1.096. Þetta er hækkun upp á 1,7 milljarða milli ára eða um 18%. Skýringar er að finna í nokkrum atriðum s.s. launabreytingar vegna kjarasamninga, fjölgun stöðugilda og átaksverkefni sem ráðist var í á árinu til þess til að halda uppi atvinnustigi. Stöðugildum á fræðslusviði fjölgaði um 53,7, sem að stærstum hluta má rekja til fjölgunar í Stapaskóla. Þá fjölgaði starfsmönnum á velferðarsviði um 8,43 sem má rekja til faraldursins og ýmissa úrræða í málefnum fatlaðs fólks. Átaksverkefni sem farið var í á árinu hafa einnig haft talsverð áhrif. Orlofsskuldbinding hækkar um tæpar 200 milljónir sem m.a. kemur til vegna breytinga í kjarasamningum sem jók lágmarksorlofsrétt úr 24 dögum í 30.
Einnig er rétt að nefna breytingu á lífeyrisskuldbindingum sem hækka um tæpar 500 milljónir króna, úr 200 milljónum í 700 milljónir króna og hefur það sín áhrif á niðurstöðu ársreiknings.
Eiginfjárhlutfall bæjarsjóðs er 23,81%. Heildarskuldir og skuldbindingar bæjarsjóðs nema 31.2 milljörðum króna og er skuldahlutfall samkvæmt því 179,93%.
Skuldaviðmið bæjarsjóðs er hins vegar 98,92%.
Eiginfjárhlutfall samstæðu er 36,19%. Heildarskuldir og skuldbindingar samstæðu A og B hluta nema 48 milljörðum króna og er skuldahlutfall samkvæmt því 192,02%.
Skuldaviðmið er hins vegar 122,94%.
Það hlýtur að teljast viðunandi niðurstaða að skila jákvæðri afkomu við þessar aðstæður sem uppi hafa verið. Fyrri áætlanir sem unnar voru fyrir Covid, gerðu ráð fyrir að bæjarsjóður yrði rekinn með tæplega 500 milljóna tekjuafgangi, en útkomuspá í október gaf til kynna að afkoman yrði neikvæð um einn milljarð.
Jákvæð niðurstaða nú ætti að gefa fyrirheit um að viðspyrnan verði hraðari en í upphafi var talið og hægt verði að lifa eðlilegu lífi að nýju innan skamms.
Við viljum nota tækifærið og koma á framfæri þakklæti til bæjarstjóra og hans góða starfsfólks fyrir að halda vel utan um reksturinn.
Við höfum þrátt fyrir allt, verið á góðri siglingu sem sveitarfélag og þeirri góðu siglingu verður fram haldið.“
Guðbrandur Einarsson (Y), Friðjón Einarsson (S), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Styrmir Gauti Fjeldsted (S), Jóhann Friðrik Friðriksson (B), Díana Hilmarsdóttir (B).
Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Gunnar Þórarinsson, Friðjón Einarsson, Baldur Þórir Guðmundsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir og Guðbrandur Einarsson.
Ársreikningur 2020 samþykktur 10-0. Margrét Þórarinsdóttir (M) situr hjá.
Fylgigögn:
Ársreikningur Reykjanesbæjar 2020
Reykjanesbæjar endurskoðunarskýrsla 2020
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:15.