626. fundur

15.02.2022 17:00

626. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Merkinesi, Hljómahöll 15. febrúar 2022, kl. 17:00

Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Eydís Hentze Pétursdóttir, Gunnar Þórarinsson, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Trausti Arngrímsson og Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Guðbrandur Einarsson.

1. Fundargerðir bæjarráðs 3. og 10. febrúar 2022 (2022010004)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar.

Til máls tók Friðjón Einarsson. Lagði hann fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarstjórnar:

Liður 1 í fundargerð bæjarráðs frá 10. febrúar 2022:

"Á síðasta fundi bæjarráðs þann 10. febrúar sl. var ráðið upplýst um verulega framúrkeyrslu vegna framkvæmda sem farið var í við Njarðvíkurskóla sl. sumar.

Verkið var boðið út og var tilboði Ístaks upp á kr. 102.432.085 tekið.
Endanlegt uppgjör leiðir hins vegar í ljós að veruleg framúrkeyrsla hefur átt sér stað og hljóðar lokauppgjör upp á kr.185.891.862.

Kostnaður vegna aukaverka nemur því kr. 83.479.777.

Að sögn starfsmanna kom í ljós að meiri rakaskemmdir voru til staðar en upprunalega hafði verið gert ráð fyrir, loftræstikerfi var ónothæft, burðarvirki hússins og brunavarnir stóðust ekki kröfur.
Því var ljóst að ráðast þurfti í umfangsmeiri aðgerðir en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir, undir mikilli tímapressu.

Fyrir liggur að nú þegar framkvæmdum er lokið eru mannvirki skólans í góðu ástandi, starfsmannaaðstaða hefur verið stórbætt og búið að koma í veg fyrir frekara tjón vegna rakaskemmda.
Starfsfólk hafði áður upplýst um framúrkeyrslu innan kerfisins en bæjarráð var ekki upplýst um endanlega niðurstöðu fyrr en á síðasta fundi ráðsins.

Bæjarstjórn ítrekar mikilvægi þess að starfsmenn upplýsi tafarlaust þegar upp koma frávik frá áður samþykktri fjárhagsáætlun."

Friðjón Einarsson (S), Guðbrandur Einarsson (Y), Styrmir Gauti Fjeldsted (S), Eydís Hentze Pétursdóttir (S), Díana Hilmarsdóttir (B) og Trausti Arngrímsson (B).

Til máls tók Margrét A. Sanders og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:

Liður 1 í fundargerð bæjarráðs frá 10. febrúar 2022:

"Snemma árs 2021 kom erindi til bæjarráðs um að mygla hefði komið upp í Njarðvíkurskóla og bregðast þyrfti fljótt og vel við. Bæjarráð samþykkti erindið samhljóma og að undangenginni greiningarvinnu og hönnun var útboð auglýst 15. apríl 2021. Lægra tilboði var síðan tekið mánuði síðar.

Eins og búast má við þegar farið er í framkvæmdir eldri bygginga, kemur ýmislegt í ljós þegar farið er af stað. Tímarammi verkefnisins var stuttur þar sem stefnt var að því að ljúka framkvæmdum fyrir upphaf skólaárs og bar tilboðsupphæðin þess merki eins og okkur var tjáð.

Á bæjarráðsfundi þann 10. febrúar sl. var lagður fram heildarreikningur vegna verkefnisins og greinargerð þess efnis að verkið varð mun umfangsmeira en upphaflega var áætlað. Bæjarráð hafði ekki fengið upplýsingar um aukið umfang verkefnisins þrátt fyrir að sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs hefði flaggað umframvinnu og umframkeyrslu við sinn yfirmann. Nú þegar uppgjör liggur fyrir kemur í ljós að verkið fór 82% fram yfir áætlun og endaði í 186 m.kr. Því miður var ekki gerð ný áætlun þegar í ljós kom hvert stefndi og var okkur gefin sú skýring af meirihluta Samfylkingar, Beinnar leiðar og Framsóknarflokks að lokauppgjör vegna framúrkeyrslu verkefnisins hafi ekki legið fyrir fyrr en í lok árs 2021.

Strax í júlí kemur fram ábending frá hönnuði verksins sem segir: „Ljóst er að [ýmsar ábendingar hönnuðar s.s. viðbótarmygla og burðarvirki] mun hafa í för með sér tafir og kostnaðarhækkun á framkvæmdinni.“ Síðan segir: „Þessum atriðum er lýst ágætlega í fundargerð [verkfræðifyrirtækis]. Í fundargerðinni er óskað eftir viðbrögðum aðalverktaka hvað varðar breytingar á verkáætlun. Einnig er óskað eftir að verktaki kostnaðarmeti verkliði sem af breytingum hljótast.“

Á þessu má vera ljóst að snemma í ferlinu vissu menn að framkvæmdin væri umfangsmeiri og myndi hafa meiri kostnað í för með sér. Þrátt fyrir það var aldrei lögð fram kostnaðaráætlun til samþykkis.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að þegar í ljós koma vankantar í framkvæmdum á vegum bæjarins sé staldrað við og umfang sem og áætlun verksins endurmetið og fari síðan í formlegt samþykki, þannig að hægt sé að veita aðhald í framkvæmdum."

Margrét Sanders, Baldur Þ. Guðmundsson, Anna Sigríður Jóhannesdóttir Sjálfstæðisflokki.

Til máls tóku Guðbrandur Einarsson, Baldur Þ. Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Margrét Þórarinsdóttir og Margrét A. Sanders.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun:

Fundargerð bæjarráðs frá 10. febrúar 2022:

"Ég get varla orða bundist yfir vinnubrögðum meirihlutans. Undirrituð var í einangrun er þessi fundur fór fram og varamaður var í rannsóknum. Ég óskaði eftir því að fá að sitja fundinn með fjarfundabúnaði. Því var hafnað þrátt fyrir að ég hafi fengið valdboð frá ríkinu að vera heima. Sem kjörnum fulltrúa ber mér að mæta á fundi samkvæmt lögum. Gestir fundarins mættu í gegnum fjarfundabúnað en mér var það óheimilt.
Ljóst þykir að í lögum nr. 138/2011 um sveitarstjórnir að heimilt er að taka þátt í rafrænum fundum á vegum sveitarfélagsins sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga.

En einnig kemur þar fram í 4. mgr. 17 gr. sömu laga „Þegar nefndarmaður tekur þátt í fundi með rafrænum hætti skv. 3. mgr. skal hann vera staddur í viðkomandi sveitarfélagi eða í erindagjörðum innan lands á vegum þess“. Ég spyr því háttvirtan forseta bæjarráðs, hvað var öðruvísi við ákvörðunartöku varðandi bæjarráðsfund þann 3. febrúar þegar fundur bæjarráðs var fjarfundur en sumir fulltrúar voru ekki staddir í sveitarfélaginu þegar fundurinn fór fram, og þá ákvörðunartöku að ég mætti ekki sitja fund bæjarráðs frá 10. febrúar í gegnum fjarfundabúnað á heimili mínu.

Þarna tel ég að um algera mismun sé að ræða og óvelvild í minn garð.

Með lögum nr. 18/2020 um breytingu á sveitarstjórnarlögum var fært í lög bráðabirgðaákvæði sem heimilaði sveitarstjórnum að víkja tímabundið frá tilteknum skilyrðum ákvæða 3. kafla laga um sveitarstjórnir. Þetta bráðabirgðaákvæði var í gildi frá 17. mars 2020 til 31. desember 2020 og hefur ekki verið endurnýjað.
Ég vek athygli á þessu málefni í ljósi þess að formaður bæjarráðs sem og aðrir bæjarfulltrúar meirihlutans kunna hafa tekið ákvarðanir um málefni bæjarins bæði í bæjarráði og bæjarstjórn á fjarfundum sem kunna að vera ólögmætar og ógildanlegar.

Fyrir það fyrsta getur sveitarstjórn enga ályktun gert nema helmingur sveitarstjórnarmanna sé viðstaddur á fundi. Heimild sveitarstjórnarmanna að taka þátt í fundum, ráðum og nefndum með rafrænum hætti og verið þar löglega viðstaddur er bundin því skilyrði eftir 31. desember 2020 að kveðið sé á um heimild þess í samþykktum Reykjanesbæjar. Ég get ekki séð að slíka heimild er að finna í samþykktum Reykjanesbæjar.
Lítur bæjarstjórn á í ljósi fyrrgreinds að flestar ákvarðanir teknar á fjarfundum eftir 31. desember 2020 séu ógildar í ljósi þess að fundamenn voru ekki viðstaddir með lögmætum hætti?

Er þörf á úttekt sveitarstjórnarráðuneytis vegna þessa máls?

Ég tel brýnt að settar séu reglur í samþykkt Reykjanesbæjar um fjarfundi svo að jafnræði kunni að njóta á milli bæjarfulltrúa meirihlutans og minnihlutans. Lögð sé af sú hentistefna meirihlutans þegar það kemur að fjarfundum."

Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.

Fundargerðirnar samþykktar 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 1356. fundur bæjarráðs 3. febrúar 2022
Fundargerð 1357. fundar bæjarráðs 10. febrúar 2022

2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 4. febrúar 2022 (2022010013)

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi liði fundargerðarinnar frá 4. febrúar til sérstakrar samþykktar:
Fjórði liður fundargerðarinnar Flugvellir - breyting á deiliskipulagi (2021090307) samþykktur 11-0 án umræðu.
Fimmti liður fundargerðarinnar Reykjanesvegur 46 – bílskúr (2021080174) samþykktur 11-0 án umræðu.
Sjötti liður fundargerðarinnar Breyting á lóð DRE 717 (2022020039) samþykktur 11-0 án umræðu.
Sjöundi liður fundargerðarinnar Brekadalur 4 - niðurstaða grenndarkynningar (2021110032) samþykktur 11-0 án umræðu.
Níundi liður fundargerðarinnar Flutningshús til Reykjanesbæjar (202202004) samþykktur 11-0 án umræðu.

Forseti gaf orðið laust. Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0 án umræðu.

Fylgigögn:

Fundargerð 286. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 4. febrúar 2022

3. Fundargerð lýðheilsuráðs 8. febrúar 2022 (2022010010)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Díana Hilmarsdóttir og Anna Sigríður Jóhannesdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 26. fundar lýðheilsuráðs 8. febrúar 2022

4. Fundargerð velferðarráðs 9. febrúar 2022 (2022010014)

Forseti gaf orðið laust. Fundargerðin samþykkt án umræðu 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 407. fundar velferðarráðs 9. febrúar 2022

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:10