654. fundur

16.05.2023 17:00

654. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn í Stapa, Hljómahöll þann 16. maí 2023 kl. 17:00

Viðstaddir: Bjarni Páll Tryggvason, Friðjón Einarsson, Guðbergur Reynisson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Róbert Jóhann Guðmundsson, Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.

Að auki sat fundinn Íris Eysteinsdóttir ritari.

Díana Hilmarsdóttir boðaði forföll, Róbert Jóhann Guðmundsson sat fyrir hana.

1. Fundargerðir bæjarráðs 4. og 11. maí 2023 (2023010005)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tók Bjarni Páll Tryggvason.

Fundargerðirnar samþykktar án umræðu 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 1417. fundar bæjarráðs 4. maí 2023
Fundargerð 1418. fundar bæjarráðs 11. maí 2023

2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 5. maí 2023 (2023010014)

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 5. maí til sérstakrar samþykktar:

Annað mál fundargerðarinnar Fitjabraut 5-7 – breyting á deiliskipulagi (2019100156) samþykkt 11-0 án umræðu.
Fjórða mál fundargerðarinnar Háseyla 33 (2023040414) samþykkt 11-0 án umræðu.
Fimmta mál fundargerðarinnar Grænásbraut 501 (2023040413) samþykkt 11-0 án umræðu.
Níunda mál fundargerðarinnar Hrauntún - ósk um þróunarsamning um óvistað svæði (2023050082) samþykkt 11-0 án umræðu.

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Róbert Jóhann Guðmundsson.

Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 314. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 5. maí 2023

3. Fundargerð framtíðarnefndar 10. maí 2023 (2023010006)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 41. fundar framtíðarnefndar 10. maí 2023

4. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 11. maí 2023 (2023010013)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Friðjón Einarsson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 274. fundar stjórnar Reykjaneshafnar 11. maí 2023

5. Ársreikningur Reykjanesbæjar 2022 – síðari umræða (2023040104)

Forseti gaf orðið laust.

Til máls tók Friðjón Einarsson og lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarfulltrúa Framsóknar, Samfylkingar og Beinnar leiðar:

„Heildartekjur samstæðu A og B hluta voru 31,3 milljarður króna og rekstrargjöld 24,9 milljarðar króna. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir, fjármagnsliði, skatta og hlutdeild minnihluta nam 6,4 milljörðum króna. Að teknu tilliti til þeirra liða var niðurstaðan jákvæð um 1.084 milljónir króna en áætlun ársins gerði ráð fyrir 355 milljóna króna halla á samstæðu sveitarfélagsins.

Heildartekjur A-hluta bæjarsjóðs námu 21,4 milljarði króna. Rekstrargjöld bæjarsjóðs námu 19,4 milljörðum króna. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði var jákvæð um 2 milljarða króna en að teknu tilliti til þeirra liða var niðurstaðan jákvæð um 476 milljónir króna.

Áætlun ársins gerði hins vegar ráð fyrir 1,1 milljarða króna halla á bæjarsjóði og er þetta því mun betri niðurstaða en gert var ráð fyrir. Munar þar mest um hærri útsvarstekjur og framlög úr Jöfnunarsjóði.

Eignir samstæðu A og B hluta nema 83 milljörðum króna og A-hluta bæjarsjóðs 43,8 milljörðum króna. Veltufjárhlutfall A og B hluta í árslok 2022 var 1,31 en var 1,19 í árslok 2021 og hefur því hækkað á árinu. Engar lántökur áttu sér stað á árinu 2022 og nema skuldir á hvern íbúa 1.330 þúsundum króna.

Skatttekjur og framlög úr Jöfnunarsjóði námu 848 þúsund króna á hvern íbúa á árinu 2022 í stað 788 þúsund króna á árinu 2021.

Skuldaviðmið A hluta bæjarsjóðs skv. reglugerð 502/2012 er 90,25% og samstæðu A og B hluta 113,64%.“

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Bjarni Páll Tryggvason (B), Róbert Jóhann Guðmundsson (B), Friðjón Einarsson (S), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Sverrir Bergmann Magnússon (S) og Valgerður Björk Pálsdóttir (Y).

Til máls tók Margrét Ólöf A. Sanders og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:

Góð niðurstaða ársreiknings, hækkandi tekjuframlag frá ríkinu, minni þjónusta en í sambærilegum sveitarfélögum

Ársreikningur Reykjanesbæjar lítur í heild vel út, með jákvæða rekstrarniðurstöðu. Skuldir hafa þó hækkað um rúmlega 4 milljarða miðað við fyrra ár. Þau sveitarfélög sem við berum okkur saman við, af svipaðri stærð, eru ýmist með svipaða eða betri niðurstöðu en önnur verri.

Tekjur og hagnaður

Það vekur athygli að framlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fer enn hækkandi. Sérstaklega er há upphæð sem er tekjujöfnunarframlag upp á 900 milljónir vegna lágra tekna sveitarfélagsins enda eru tekjur frá Jöfnunarsjóði til Reykjanesbæjar í heild 3,5 milljarðar sem eru 16,3% af heildartekjum sveitarfélagsins. Einnig er athyglisvert að sjá að sveitarfélagið er að fá um 700 milljónir í þjónustutekjur vegna flóttafólks og innflytjenda samkvæmt ársreikningi. Greiðslur frá HS veitum í ársreikningi sveitarfélagsins eru 540 milljónir, óvenjuháar 2022. Þrátt fyrir framangreint er hagnaður einungis um 476 milljónir.

Rekstrarkostnaður kemur til með að hækka verulega

Rekstrarkostnaður Reykjanesbæjar sem hlutfall af tekjum er sambærilegur og í viðmiðunarsveitarfélögum en þó þannig að áherslur eru aðrar s.s. að Reykjanesbær er með lægri framlög til íþrótta- og æskulýðsmála heldur en sambærileg sveitarfélög en það stendur til bóta samkvæmt framlögðum tillögum. Einnig er meðalaldur barna sem komast inn á leikskóla í Reykjanesbæ 22 mánaða á meðan önnur sveitarfélög eru með yngri en 20 mánaða inntöku og jafnvel mun lægri aldur. Þetta stendur til bóta enda eru þrír 6 deilda leikskólar á áætlun og þegar þeir verða teknir í notkun bætist við rekstrarkostnaður upp á 300 milljónir á hvern leikskóla eða 900 milljónir samkvæmt því hvað kostaði 2022 að reka sambærilegan leikskóla. Þetta er áhyggjuefni og þarf því að skoða vel hvers vegna rekstrarkostnaður Reykjanesbæjar er svipaður öðrum sveitarfélögum þegar þjónustustigið núna er lægra.

Mikill uppsafnaður kostnaður er nú vegna mygluvandamála í fasteignum sveitarfélagsins og verður áfram. Ekki er hægt að skrifa það alfarið á skort á viðhaldi en klárlega að hluta til, að spara í viðhaldi er einungis ávísun á mun meiri kostnað síðar.

Eins og sjá má á framangreindu þá er fjárhagsstaða Reykjanesbæjar góð en undirliggjandi mikil kostnaðaraukning. Því ítrekum við Sjálfstæðismenn að mun meiri áhersla verði á að laða að fjölbreytt fyrirtæki og betur launuð störf til að auka tekjur sveitarfélagsins enda er óviðunandi að mesta aukning á tekjum sé í framlögum frá ríkinu sem er ekki sjálfbært til framtíðar.“

Margrét Sanders (D), Guðbergur Reynisson (D) og Helga Jóhanna Oddsdóttir (D)

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Umbótar:

„Umbót kemur með þá tillögu að skýring 5 vegna launa og launatengdra gjalda verði framvegis ítarlegri þannig að auðveldara sé að sjá hversu hár hluti launa eru laun stjórnenda og deildarstjóra Reykjanesbæjar, í öllum stofnunum bæjarins sem tilheyra A hluta. Við óskum eftir því að fá betri upplýsingar um skiptingu launa niður á hinar ýmsu deildir í ársreikning bæjarins. Einu aðgreiningar í ársskýrslu frá heildarlaunum upp á rúmlega 10,5 milljarða eru 107,1 milljónir króna sem er hluti bæjarstjórnar, bæjarráðs og bæjarstjóra. Sé tekið meðaltal ársverka og heildarlauna mætti ætla að laun starfsmanna bæjarins væru tæplega 680 þúsund á mánuði.

Við óskum eftir að fá greiningu á launum sem sýnir laun leikskóla, grunnskóla, bæjarskrifstofu og aðrar deildir bæjarins. Þar væru sundurliðuð laun stjórnenda, deildarstjóra og annarra starfsmanna.

Við teljum þetta vera nauðsynlegar skýringar í ársreikningum bæjarfélaga almennt og að skýring sem þessi varpi ljósi á hvar þarf að gera breytingar.

Launakostnaður í dag er 53,46% af heildarútgjöldum bæjarins. Það þarf því ávallt að vera á vaktinni hvað varðar stærsta einstaka kostnaðarlið Reykjanesbæjar. Þrátt fyrir annars ágætis upplýsingar í opnu bókhaldi á vef bæjarins þá er þar ómögulegt að sjá hvernig þessi laun skiptast á milli stjórnenda, millistjórnenda og annarra starfsmanna.

Umbót gerir athugasemd við hversu sein skil á ársreikningi eru, að hann sé að skilast í maímánuði teljum við vera óásættanlegt.“

Margrét Þórarinsdóttir (U).

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Friðjón Einarsson, Bjarni Páll Tryggvason, Margrét Ólöf A. Sanders, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Forseti vísar ósk bæjarfulltrúa Umbótar um nánari greiningu vegna launa og launatengdra gjalda til umræðu í bæjarráði.

Ársreikningur 2022 samþykktur 11-0.

Fylgigögn:

Með því að smella hér má skoða ársreikning 2022 á vef Reykjanesbæjar


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.05.