659. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Stapa, Hljómahöll 19. september 2023, kl. 17:00
Viðstaddir: Alexander Ragnarsson, Brigitta Rún Birgisdóttir, Bjarni Páll Tryggvason, Friðjón Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Margrét Þórarinsdóttir, Róbert Jóhann Guðmundsson, Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.
Að auki sátu fundinn Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.
Díana Hilmarsdóttir boðaði forföll, Róbert Jóhann Guðmundsson sat fyrir hana.
Margrét A. Sanders boðaði forföll, Alexander Ragnarsson sat fyrir hana.
Guðbergur Reynisson boðaði forföll, Brigitta Rún Birgisdóttir sat fyrir hann.
1. Fundargerðir bæjarráðs 7. og 14. september 2023 (2023010005)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókanir:
Mál 7 í fundargerð bæjarráðs frá 7. september 2023:
„Ég greiði atkvæði á móti sölu á hlut Reykjanesbæjar í Bláa Lóninu. Komið hefur fram að Bláa Lónið verði á næstu mánuðum skráð á hlutabréfamarkað. Ég tel eðlilegt að bíða með allar hugmyndir um söluna þar til skráningu er lokið og virði bréfanna liggur fyrir. Meiri en minni líkur eru til þess að verðmæti bréfanna aukist við skráningu.“
Mál 1 í fundargerð bæjarráðs frá 14. september 2023:
„Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs, fundargerð númer 273 dagsett 23. júní 2021, kom áskorun til ráðsins frá íbúum Ásahverfis þar sem var meðal annars var óskað eftir að tryggja örugga gönguleið barna til skóla. Starfsmönnum umhverfis- og skipulagsráð var falið að vinna áfram í málinu.
Þann 4. nóvember 2022 óska íbúar Ásahverfis enn og aftur eftir úrbótum. Starfsmönnum umhverfis- og skipulagsráðs var falið að koma með tillögur að úrbótum fyrir fund númer 304 dagsettan þann 2. desember 2022. Í fundargerð fundarins er ekkert að finna um úrbætur eða að málið hafi verið á dagskrá.
Viðraði ég nokkrum sinnum í bæjarráði hvað væri að frétta af þessu máli en sama svarið var að það væri í vinnslu. Ég óskaði eftir að málið yrði tekið fyrir á bæjarráðsfundi þann 14. september sl. Bæjarráð felur Guðlaugi H. Sigurjónssyni og Gunnari Ellert Geirssyni að vinna áfram í málinu. Það verður að vinna framtíðarlausnir til að tryggja öryggi barna í Ásahverfi á leið til og frá skóla. Þetta mál þolir enga bið og er til háborinnar skammar hve lengi þetta verkefni er búið að vera í vinnslu og það sem hefur gerst á þessu tímabili frá því að fyrsta beiðnin barst frá íbúum Ásahverfis er að bláhatta ljósastaurar hafa verið settir upp en það er engin framtíðarlausn á vandanum.“
Mál 8 í fundargerð bæjarráðs frá 14. september 2023:
„Ég fagna því að bæjarráð tekur heilshugar undir ályktun framkvæmdastjórnar Keilis og ég geri það svo sannarlega líka.
Þann 20. júní sl. kom bæjarstjórn með ítarlega yfirlýsingu vegna mögulegrar sameiningar Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Keilis. Ekkert hefur heyrst frá stýrihópi sem ráðherra mennta- og barnamála skipaði til að skoða fýsileika þess að sameina Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Keili.
Nú stendur til að leggja skólann niður og sameina hluta af honum til Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Keilir hefur boðið upp á nám fyrir einstaklinga sem hafa ekki lokið stúdentsprófi og geta nemendur að námi loknu sótt um háskólanám hérlendis og erlendis. Keilir hefur verið eini skólinn sem hefur boðið upp á aðfararnám í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir HÍ.
Keilir hefur verið að skapa nemendum dýrmætt tækifæri til að hefja háskólanám. Það er mjög mikilvægt að menntastofnun eins og Keilir sem hefur verið að mörgu leyti leiðandi í kennsluháttum haldi áfram að starfa. Það er mjög sorglegt að horfa á eftir þessari góðu menntastofnun hverfa á braut ef af sameiningu þessara skóla verður. Eins og fram kemur í bókun bæjarstjórnar frá 20. júní sl. „þá hefur menntunarstig á Suðurnesjum lengi verið til umræðu þar sem svæðið er vaxtarsvæði og ljóst er að mennta þarf starfsfólk á fjölbreyttum starfssviðum til að mæta þörfum vinnumarkaðarins á Suðurnesjum til framtíðar“.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar verður að berjast fyrir því að af þessari sameiningu verði ekki.“
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.
Til máls tók Helga Jóhanna Oddsdóttir (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:
Mál 1 í fundargerð bæjarráðs frá 7. september 2023:
„Búnaður í eigu Reykjanesbæjar, sem verið hefur í notkun sjúkraþjálfunarinnar Ásjár á Nesvöllum hefur verið boðinn til sölu.
Við skoðun á útboðsgögnum blasir við að útboðsferlið hefur ekki verið hafið yfir allan vafa enda hafa fyrirspurnir borist okkur bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins þar varðandi. Við leggjum því fram eftirfarandi bókun og óskum svara við þeim spurningum sem í henni felast.
Okkur bárust fyrirspurnir og upplýsingar frá einstaklingi sem hafði óskað eftir þeim frá innkaupastjóra Reykjanesbæjar. Samkvæmt þeim verður allur búnaður stöðvarinnar, í eigu sveitarfélagsins, seldur á þrjár milljónir króna.
Samkvæmt útboðsgögnum var sjúkraþjálfunin Ásjá með forkaupsrétt að tækjunum. Hvernig myndaðist sá forkaupsréttur og hver eru rökin fyrir honum?
Umtalsvert magn búnaðar var boðið til sölu. Hvernig stendur á því að allur búnaðurinn var boðinn í einu lagi en ekki hægt að bjóða í einstaka tæki?
Hvernig var verðmati á tækjunum háttað og hvers vegna er ekkert minnst á áætlað verðmæti þeirra í útboðsgögnum?
Er það rétt að eigendur forkaupsréttaraðila hafi komið að verðmatinu? Hver tók myndirnar í útboðsgögnunum og lýsti ástandi tækjanna?
Var árgerð eða aldur tækjanna staðfestur áður en hann var settur fram í útboðsgögnunum?
Viðbót: Eftir svar formanns bæjarráðs um að utanaðkomandi aðili hafi framkvæmt verðmatið, þá óskum við eftir upplýsingum um það hvaða utanaðkomandi aðili framkvæmdi verðmatið.
Við óskum eftir svörum við ofangreindum spurningum.“
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Alexander Ragnarsson og Birgitta Rún Birgisdóttir.
Til máls tók Birgitta Rún Birgisdóttir (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:
Mál 1 í fundargerð bæjarráðs frá 14. september 2023:
„Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskum eftir að það verði fært til bókar að við hvetjum USK til að klára þessi gatnamót sem fyrst þar sem ekki er viðunandi að íbúar Ásahverfis þurfi bíða lengur. Öryggi barnanna verður að vera í fyrirrúmi og því nauðsynlegt að bregðast við með öflugri lausn hvort sem er til skemmri eða lengri tíma.“
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Alexander Ragnarsson og Birgitta Rún Birgisdóttir.
Til máls tóku Friðjón Einarsson, Kjartan Már Kjartansson, Birgitta Rún Birgisdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Margrét Þórarinsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Margrét Þórarinsdóttir (U) greiddi atkvæði á móti í 7. máli frá 7. september.
Helga Jóhanna Oddsdóttir (D), Alexander Ragnarsson (D) og Birgitta Rún Birgisdóttir (D) sátu hjá í 3. mál frá 14. september.
Fundargerðirnar samþykktar að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 1433. fundar bæjarráðs 7. september 2023
Fundargerð 1434. fundar bæjarráðs 14. september 2023
2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 15. september 2023 (2023010014)
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 15. september til sérstakrar samþykktar.
Fjórða mál fundargerðarinnar Beiðni um úthlutun reits í Njarðvíkurskógum til skógræktar (2021080179) samþykkt 11-0 án umræðu.
Fimmta mál fundargerðarinnar Tjarnargata 2 (2023080227) samþykkt 11-0 án umræðu.
Sjötta mál fundargerðarinnar Fitjabraut 5 - breyting á nýtingarhlutfalli (2019100156) samþykkt 11-0 án umræðu.
Sjöunda mál fundargerðarinnar Garðavegur 9 - stækkun (2021080178) samþykkt 11-0 án umræðu.
Áttunda mál fundargerðarinnar Kirkjuvegur 34 - bílastæði (2023080474) samþykkt 11-0 án umræðu.
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Valgerður Pálsdóttir, Alexander Ragnarsson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Róbert Jóhann Guðmundsson, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason og Friðjón Einarsson.
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 15. september 2023
3. Fundargerð lýðheilsuráðs 5. september 2023 (2023010011)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókun:
Mál 5 í fundargerð lýðheilsuráðs frá 5. september 2023:
„Mjög þörf umræða og fagna ég því að lýðheilsuráð og menntaráð komi sameiginlega að málþingi sem verður haldið í Stapa í heilsu- og forvarnarviku Reykjanesbæjar.
Snjallsímum fylgir mikil truflun hjá nemendum sem hægt er að koma í veg fyrir. Hvort sem börn eru að senda skilaboð sín á milli, skoða samfélagsmiðla eða spila leiki í símunum sínum þá er þetta óþarfa áreiti á meðan á skóla stendur. Símanotkun getur haft neikvæð áhrif á námsárangur barna sem og félagslegan þroska. Snjallsímalausir gunnskólar stuðla að raunverulegum samskiptum og betri samskiptafærni barna sem er mikilvægt fyrir félagslegan þroska.
Með tilkomu snjallsímans fór neteinelti að aukast til muna og með því að banna snjallsíma í skólum erum við að leggja okkar af mörkum til að draga úr tilfellum neteineltis og skaðlegum áhrifum þess. Skólinn á að vera öruggur vettvangur fyrir börn en snjallsímar í skólum berskjalda nemendur. Án stöðugrar truflunar snjallsíma geta nemendur haft meiri tilhneigingu til að taka þátt í námsefni, hlusta á kennara og taka virkan þátt í umræðum í kennslustofunni sem leiðir til betri námsárangurs.
Ég legg til að allir skólar í Reykjanesbæ taki Háaleitisskóla til fyrirmyndar sem hefur verið snjallsímalaus frá árinu 2018.“
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.
Til máls tóku Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 40. fundar lýðheilsuráðs 5. september 2023
4. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 12. september 2023 (2023010010)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókun:
Mál 1 í fundargerð íþrótta- og tómstundarráðs frá 12. september 2023:
„Það eru að verða 3 ár liðin síðan ég kom fyrst með tillögu um að stofna afrekssjóð fyrir ungt íþróttafólk sem á lögheimili í bæjarfélaginu. Að lokum samþykkti bæjarstjórn að gera betur í þessum málum eftir nokkrar umræður og í dag eigum við flottan afreks- og íþróttasjóð.
Ég fagna þessum breyttu reglum sem eru til hins betra. Eins og við öll vitum þá hafa rannsóknir sýnt að íþróttir hafa mikið forvarnargildi og við eigum að vera stolt af afreksfólkinu okkar og gera því kleift að stunda íþróttir óháð fjárhag foreldranna. Það er löngu tímabært að við hyglum unga afreksfólkinu okkar, sama hvaða íþrótt það stundar.
Ég samþykki þessar breytingar á reglunum sem eru til hins betra. Vel gert íþrótta- og tómstundaráð.“
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókun Umbótar og Sjálfstæðisflokks:
Mál 3 í fundargerð íþrótta- og tómstundarráðs frá 12. september 2023:
„Við fögnum þessari umræðu um stöðu fimleikadeildarinnar en ljóst er að allt of lengi hefur Fimleikadeild Keflavíkur setið á hakanum þegar kemur að fjármagni til þeirra. Þörf er á endurnýjun tækja og búnaðs sem allra fyrst enda búnaðurinn úr sér genginn og slysahætta getur skapast við notkun hans í dag. Þessu til viðbótar hefur verið þrengt að starfseminni þar sem hluti af skólastarfi fer fram í húsnæðinu.
Iðkendum á eldri árum hefur verulega fækkað vegna aðstöðuleysis og margir hverjir hafa skipt um félag. Það er löngu kominn tími á að huga betur að starfsemi fimleikadeildarinnar. Auðsýnt þykir að þörf sé á fjármagni og fögnum við því að fimleikadeildinni verði gefið vægi í næstu fjárhagsáætlun og treystum því að það verði aukið miðað við það sem nú er.“
Margrét Þórarinsdóttir Umbót, Helga Jóhanna Oddsdóttir Sjálfstæðisflokki, Alexander Ragnarsson Sjálfstæðisflokki og Birgitta Rún Birgisdóttir Sjálfstæðisflokki.
Til máls tóku Helga Jóhanna Oddsdóttir, Friðjón Einarsson og Bjarni Páll Tryggvason.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 173. fundar ÍT 12. september 2023
5. Fundargerð sjálfbærniráðs 13. september 2023 (2023010006)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 43. fundar sjálfbærniráðs 13. september 2023
6. Fundargerð velferðarráðs 14. september 2023 (2023010015)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókanir:
Mál 2 í fundargerð velferðarráðs frá 14. september 2023:
„Nauðsynlegt er að fara yfir reynsluna af fyrri þjónustusamningi félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, Fjölmenningarseturs og Reykjanesbæjar um samræmda móttöku flóttafólks áður en lengra verður haldið.
Umbót er mótfallin því að nýr samningur verði gerður enda var síðasti samningur gerður í því skyni að endurheimta þá hluta af fjármunum sem sveitarfélagið hefur orðið að leggja til vegna aukningar flóttamanna á svæðinu sem hefur orðið án samtals við Reykjanesbæ. Ekki má heldur gleyma því að þegar síðasti samningur var samþykktur var hann samþykktur með þeim fyrirvara að útbúin yrði viljayfirlýsing sem fæli í sér aðgerðaáætlun fyrir svæðið m.t.t móttöku flóttafólks og fækkun þeirra á svæðinu. Við þann samning var ekki staðið af hálfu ríkisins og erum við ekki að sjá fækkun á komandi misserum.
Umsækjendum um alþjóðlega vernd fer fjölgandi eins og tölur frá Útlendingastofnun sýna. Þjónustusamningurinn við Útlendingastofnun hefur haft í för með sér verulegt álag á ýmsa innviði bæjarins. Eins og bæjarstjóri hefur sagt þá er Reykjanesbær löngu kominn að þolmörkum og eðlilegt að önnur sveitarfélög leggi sitt af mörkum.“
Mál 4 í fundargerð velferðarráðs frá 14. september 2023:
„Ég hef virkilegar áhyggjur af þessari þróun sem við erum að sjá í fjárhagsaðstoð til einstaklinga.
Aukning er upp á 14.9 % á milli ára og tel ég það mikið áhyggjuefni. Fjöldi barna eru 98 á 45 heimilum sem er virkilega dapurt. Liggja fyrir skýringar á þessari aukningu?“
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.
Til máls tóku Helga Jóhanna Oddsdóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Friðjón Einarsson og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 424. fundar velferðarráðs 14. september 2023
7. Fundargerð menntaráðs 15. september 2023 (2023010009)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Guðný Birna Guðmundsdóttir, Kjartan Már Kjartansson, Alexander Ragnarsson og Friðjón Einarsson.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 365. fundar menntaráðs 15. september 2023
8. Mannauðsstefna Reykjanesbæjar 2023 – síðari umræða (2023040237)
Forseti gaf orðið laust. Enginn fundarmanna tók til máls.
Mannauðsstefna Reykjanesbæjar samþykkt 11-0.
9. Breyting á aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2020-2035 (2019060056)
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 23. júní 2023 til sérstakrar samþykktar.
Þriðja mál fundargerðarinnar Breyting á aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2020-2035 (2019060056).
Til máls tóku Helga Jóhanna Oddsdóttir og Margrét Þórarinsdóttir.
Breytingin samþykkt 7-0. Atkvæði með greiddu Bjarni Páll Tryggvason (B), Friðjón Einarsson (S), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Róbert Jóhann Guðmundsson (B), Sverrir Bergmann Magnússon (S) og Valgerður Björk Pálsdóttir (Y). Helga Jóhanna Oddsdóttir (D), Alexander Ragnarsson (D) Birgitta Rún Birgisdóttir (D) og Margrét Þórarinsdóttir (U) sátu hjá.
Fylgigögn:
Tillaga að breytingu á aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2020-2035
10. Húsnæðismál skóla (2022100267)
Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Kjartan Már Kjartansson.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókun:
„Umbót lýsir yfir verulegum áhyggjum á aðstæðum barna er stunda nám við Myllubakkaskóla.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef eru aðstæður barna á miðstigi og efsta stigi Myllubakkaskóla þannig að bæði skólastig hófu skólaárið á skertum námstíma í íþróttaakademíunni og er sú bygging tvísetin auk þess sem íþróttaæfingar fimleikadeildar Keflavíkur eru stundaðar í verulega aðþrengdum aðstæðum.
Vissulega voru tafir á afhendingu forsniðinna eininga á malarvellinum að hafa mikil áhrif en þrátt fyrir það eru þetta ekki ásættanlegar aðstæður. Einkum og sér í lagi fyrir elsta skólastigið sem hefja sinn skóladag á hádegi og virðast hafa takmarkaðan aðgang að samskiptum við kennara. Börn á aldrinum 10 til 12 ára ganga í íþróttir, sund og smiðjur nokkrum sinnum í viku og skerðist enn frekar tími þeirra í virku námi þegar langt er á milli staða.
Réttindi barna og skyldur okkar samfélags eru að veita viðunandi aðstæður og uppfylla þær kröfur sem skólanámsskrá setur fram um nám. Starfsfólk og nemendur Myllubakkaskóla hafa starfað við óviðunandi aðstæður í allt of langan tíma. Sá tími er nú farinn að setja verulegt mark á skólastarf og þreyta komin í annars lausnamiðað starfsfólk skólans. Á þessum tímamótum þegar skólaseta er skert um tug kennslustunda í viku hverri þarf að huga að framhaldinu og betri lausnum.“
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.
Til máls tóku Helga Jóhanna Oddsdóttir, Kjartan Már Kjartansson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Friðjón Einarsson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Bjarni Páll Tryggvason.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:20.