665. fundur

12.12.2023 17:00

665. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Stapa, Hljómahöll, 12. desember 2023, kl. 17:00

Viðstaddir: Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbergur Reynisson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Harpa Sævarsdóttir, Margrét A. Sanders, Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.

Að auki sátu fundinn Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.

Margrét Þórarinsdóttir boðaði forföll, Harpa Sævarsdóttir sat fyrir hana.

1. Fundargerð bæjarráðs 7. desember 2023 (2023010005)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Friðjón Einarsson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 1446. fundar bæjarráðs 7. desember 2023

2. Fundargerð sjálfbærniráðs 6. desember 2023 (2023010006)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Díana Hilmarsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir og Bjarni Páll Tryggvason.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 46. fundar sjálfbærniráðs 6. desember 2023

3. Gjaldskrá Reykjanesbæjar 2024 (2023080020)

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri fór yfir helstu atriði framlagðrar gjaldskrár.

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Harpa Sævarsdóttir, Margrét A. Sanders, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Friðjón Einarsson og Bjarni Páll Tryggvason.

Harpa Sævarsdóttir (U) samþykkir gjaldskrána fyrir utan liði sem fjalla um fasteignaskatt.

Gjaldskrá Reykjanesbæjar 2024 samþykkt að öðru leyti 11-0.

4. Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2024-2027 – síðari umræða (2023080020)

Forseti gaf orðið laust um fjárhagsáætlunina. Til máls tók Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri sem fylgdi áætluninni úr hlaði og fór yfir breytingar frá fyrri umræðu 7. nóvember 2023.

Forseti gaf orðið laust.

Til máls tók Harpa Sævarsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókun:

„Ég vil byrja á því að lýsa ánægju minni á fyrirkomulagi fjárhagsætlanagerðar og þakka því starfsfólki Reykjanesbæjar sem hefur komið að þessari vinnu undanfarna mánuði.
Það hefur eflaust verið krefjandi að hafa okkur fulltrúa með í ferlinu en um leið hefur það dýpkað okkar skilning á fjárhagsáætlun í heild sinni og þeim kostnaðarliðum sem liggja á bakvið samanteknar tölur í birtri áætlun.

Að því sögðu teljum við í Umbót að svigrúm sé til lækkunar á álagsprósentu fasteignagjalda í ljósi þess að fasteignamat íbúðarhúsnæðis í bæjarfélaginu mun vera að hækka um 17,5% skv. fasteignamati 2024. Útleggst það sem 4,3% hækkun á fasteignagjöldum að meðaltali.

Slík hækkun er að hafa veruleg áhrif á ráðstöfunartekjur heimila. Í þeim tilvikum sem húseigendur eru einnig lánsettir þá eru ráðstöfunartekjur þeirra heimila nú þegar verulega skertar vegna stýrivaxtahækkana síðastliðinna 18 mánaða. Þess má vænta að þau heimili sem sóttu frystingar á lánakjörum sínum séu mörg hver að fara að lenda í greiðsluvanda á þessu ári. Í ljósi þessa þá mun Umbót sitja hjá við atkvæðagreiðslu vegna fjárhagsáætlunar.
Ég óska þess að þetta verði bókað.“

Harpa Sævarsdóttir, Umbót

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Bjarni Páll Tryggvason, Margrét A. Sanders, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Friðjón Einarsson og Kjartan Már Kjartansson.

Til máls tók Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun Framsóknarflokks, Samfylkingar, Beinnar leiðar og Sjálfstæðisflokks:

„Jákvæð rekstrarniðurstaða, samtaka bæjarstjórn og áfram mikill vöxtur hjá Reykjanesbæ.
Í nýsamþykktri fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2024 er gert ráð fyrir rúmlega 173 m.kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu fyrir A-hluta bæjarsjóðs og 1.244 m.kr. í samstæðu A og B hluta. Áætlunin gerir því ráð fyrir að Reykjanesbær skili áfram rekstrarafgangi þrátt fyrir miklar áskoranir tengdar hraðri innviðauppbyggingu til að halda í við mikinn vöxt sveitarfélagsins og fjölgun íbúa en á sama tíma hefur vaxtaumhverfi og fjármagnskostnaður verið Reykjanesbæ þungur líkt og hjá öðrum sveitarfélögum.
Reykjanesbær hefur vaxið hratt undanfarin ár og allar líkur eru á að svo haldi áfram. Það verður að segjast að það getur verið snúið að standa frammi fyrir mikilli innviðauppbyggingu á sama tíma og framkvæmdaþörf hefur verið mikil í skólum og öðru húsnæði sveitarfélagsins vegna rakaskemmda. Nú höldum við inn í enn eitt framkvæmdaárið þar sem við höldum áfram mikilvægri uppbyggingu Myllubakkaskóla og Holtaskóla sem verða okkar stærstu verkefni auk fjölda annarra uppbyggingarverkefna.

Helstu áherslur og verkefni á árinu 2024

Í byrjun ársins 2024 stefnum við á að taka í notkun annan áfanga Stapaskóla sem felur í sér fullbúið íþróttahús og sundlaug.

Hönnunarvinna fer af stað á sameiginlegu íþróttasvæði Keflavíkur og Njarðvíkur auk hönnunar á nýju fimleikahúsi.

Nýr vaktturn verður byggður við Sundmiðstöðina til að auka öryggi sundlaugagesta.

Nýir áhorfendabekkir verða settir í Sundmiðstöðina.

Fimleikadeildin fær fjármagn til að endurnýja tæki og búnað deildarinnar.

Við höldum áfram með hvatagreiðslur fyrir börn og ungmenni á aldrinum 4-18 ára en munum auk þess bjóða í fyrsta skipti hvatagreiðslur fyrir íbúa 67 ára og eldri.

Aðgengi verður aukið í 88 húsinu en lyfta verður sett í húsið ásamt því að Fjörheimar fá aukið fjármagn til að efla þá starfsemi sem þar fer fram og auk þess er vilji til að opna fleiri útibú Fjörheima í hverfunum í samstarfi við skólastjórnendur og frístundastefna sveitarfélagsins verður mótuð.

Framkvæmdir við nýja leikskóla við Drekadal og í Hlíðarhverfi eru í fullum gangi og stendur til að opna þá haustið 2024 en báðir leikskólar eru byggðir fyrir 120 börn hvor. Þá verður einnig opnuð leikskóladeild í húsnæðinu við Skólaveg 1 sem verður hluti af leikskólanum Tjarnarseli sem mun rúma um 25 börn.

Áfram verður haldið með endurbyggingu á Myllubakkaskóla og Holtaskóla ásamt því að skólarnir verða stækkaðir og aðgengi stórbætt. Gert er ráð fyrir að Myllubakkaskóli nái að opna haustið 2025 og Holtaskóli í byrjun árs 2026. Auk þess mun viðhald og endurnýjun halda áfram í öðru húsnæði Reykjanesbæjar þar sem komið hafa fram rakaskemmdir.

Uppbygging á nýju hjúkrunarheimili heldur áfram á árinu.

Fjármagn verður sett í eflingu og endurnýjun skólalóða og í umferðaröryggi barna.

Byrjað verður á hönnun og uppbyggingu smáhýsa fyrir íbúa með fjölþættan vanda.

Uppbygging í Njarðvíkurhöfn heldur áfram sem mun stórbæta aðstöðu á svæðinu og auka möguleika á atvinnuuppbyggingu fyrir hafnsækna starfsemi.

Reykjanesbær mun áfram vinna að innleiðingu stafrænna lausna, framfylgja markaðsstefnu bæjarins, innleiða umhverfis- og loftslagsstefnu og stíga síðustu skrefin í innleiðingu á verkefninu barnvænt sveitarfélag í samstarfi við UNICEF.

Að lokum má ekki gleyma 30 ára afmæli Reykjanesbæjar en þann 11. júní 2024 verða 30 ár liðin frá því að sveitarfélagið Reykjanesbær varð til við sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna og verður fjármagn sett í sérstakan afmælissjóð sem hægt verður að sækja um í fyrir ýmsa viðburði sem tengjast afmælisárinu.

Þessi verkefni eru einungis hluti af fjölda annarra veglegra verkefna en heildarfjárfestingar í nýframkvæmdum Reykjanesbæjar verða um 5,3 milljarðar á næsta ári.

Ábyrgur rekstur og skynsemi hefur verið leiðarljós í umfangsmikilli fjárhagsáætlunarvinnu sem unnin var í miklu samstarfi meiri- og minnihluta án samþykkis flokks Umbótar sem þykir miður. Viljum við bæjarfulltrúar þakka starfsfólki Reykjanesbæjar fyrir þeirra góðu vinnu og óskum við þeim og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.“

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Bjarni Páll Tryggvason (B), Díana Hilmarsdóttir (B), Friðjón Einarsson (S), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Sverrir Bergmann Magnússon (S), Valgerður Björk Pálsdóttir (Y), Margrét A. Sanders (D), Guðbergur Reynisson (D) og Helga Jóhanna Oddsdóttir (D).

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlega rekinna stofnana 2024-2027 er samþykkt með 10 atkvæðum Beinnar leiðar, Framsóknarflokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Bæjarfulltrúi Umbótar situr hjá.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:20.