670. fundur

20.02.2024 17:00

670. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Merkinesi, Hljómahöll, 20. febrúar 2024, kl. 17:00

Viðstaddir: Aðalheiður Hilmarsdóttir, Alexander Ragnarsson, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Guðbergur Reynisson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Hjörtur Magnús Guðbjartsson, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Bjarni Páll Tryggvason.

Að auki sátu fundinn Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.

Guðný Birna Guðmundsdóttir boðaði forföll, Hjörtur Magnús Guðbjartsson sat fyrir hana.
Sigurrós Antonsdóttir boðaði forföll, Aðalheiður Hilmarsdóttir sat fyrir hana
Helga Jóhanna Oddsdóttir boðaði forföll, Alexander Ragnarsson sat fyrir hana.

Yfirlýsing bæjarstjórnar Reykjanesbæjar:

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar harmar þá stöðu sem kom upp í sveitarfélaginu í framhaldi af eldsumbrotum í Sundhnúkagíg þann 8. febrúar síðastliðinn, þrátt fyrir þær miklu forvarnir sem var búið að vinna að á svæðinu til að vernda mikilvæga innviði.

Í kjölfarið var neyðarstigi Almannavarna lýst yfir vegna skorts á heitu vatni og var því ekki aflétt fyrr en fimm sólarhringum síðar.

Efst í okkar huga er þakklæti til allra þeirra aðila, af landinu öllu, sem unnu að því að koma aftur á tengingum og lágmarka frekara tjón. Árangur sem þessi næst ekki nema með samstilltu átaki og þrotlausri vinnu.

Það er léttir að hvorki í atburðinum sjálfum né í aðgerðum í framhaldi af honum hafi orðið alvarleg slys á fólki, það skiptir mestu máli. Það er þó ljóst að tjón samfélagsins alls vegna afleiðinga eldsumbrotanna er mikið.

Þó að ástand sé nú orðið stöðugt leggur bæjarstjórn Reykjanesbæjar ríka áherslu á að áfram verði unnið að því af fullum krafti að tryggja að viðlíka ástand skapist ekki aftur. Atburðurinn sýndi fram á að dekkstu sviðsmyndir geta raungerst.

Aðgerðir og samstaða íbúa, starfsfólks sveitarfélagsins og atvinnuveitenda í Reykjanesbæ skipti sköpum þegar koma að því að lágmarka frekara tjón og áhrif af atburðinum, fyrir það ber að þakka.

Stuðningur hins opinbera, annarra sveitarfélaga og einkaaðila um land allt hafa ekki farið framhjá okkur, hann hefur verið ómetanlegur og veitt öllum á svæðinu hugarró og styrk.

Framundan eru fjölmörg verkefni sem þarf að leysa hratt og örugglega. Reykjanesbær mun sem talsmaður og hagsmunagæsluaðili íbúa svæðisins, vinna sleitulaust að framgangi þeirra þar til öruggt er að sjálfsagðir innviðir og þjónusta sé tiltæk og áreiðanleg og veikum hlekkjum útrýmt.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur boðað til íbúafundar þann 29. febrúar næstkomandi. Fundurinn verður haldinn í Stapa og hefst hann klukkan 19:30. Á fundinum verður meðal annars farið yfir þær aðgerðir sem nú þegar eru í framkvæmd sem og fyrirhugaðar aðgerðir kynntar, ásamt því að opið verður fyrir fyrirspurnir frá fundargestum.

Einnig verður á fundinum erindi frá Ara Trausta Guðmundssyni jarðfræðingi þar sem farið verður yfir stöðuna á Reykjanesskaganum og mögulegri þróun á næstunni.

Íbúar eru hvattir til að fjölmenna, fundurinn verður tekinn upp og einnig verður beint streymi frá fundinum á vefmiðlum Reykjanesbæjar.

1. Fundargerðir bæjarráðs 8. og 15. febrúar 2024 (2024010003)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Margrét A. Sanders, Guðbergur Reynisson, Sverrir Bergmann Magnússon, Valgerður Björk Pálsdóttir og Bjarni Páll Tryggvason.

Fundargerðirnar samþykktar 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 1454. fundar bæjarráðs 8. febrúar 2024
Fundargerð 1455. fundar bæjarráðs 15. febrúar 2024

2. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 13. febrúar 2024 (2024010207)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Alexander Ragnarsson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Guðbergur Reynisson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 179. fundar ÍT 13. febrúar 2024

3. Fundargerð lýðheilsuráðs 13. febrúar 2024 (2024010208)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 45. fundar lýðheilsuráðs 13. febrúar 2024

4. Fundargerð velferðarráðs 13. febrúar 2024 (2024010214)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Díana Hilmarsdóttir og Aðalheiður Hilmarsdóttir.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Mál 3 frá fundargerð velferðarráðs 13. febrúar:

„Nú stefnir í að meirihlutinn Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar ætli að endurnýja samning við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um samræmda móttöku flóttafólks.
Reykjanesbær þurfti að greiða með síðasta samningi og ekki var staðið við loforð um fækkun hælisleitenda í bænum. Ég hef áður gagnrýnt þessi áform meirihlutans. Nú síðast í bókun minni á bæjarstjórnarfundi þann 6. febrúar sl.

Það er deginum ljósara að ef meirihlutinn ætlar að hafa vilja íbúanna að engu mun það valda mikilli óánægju í bæjarfélaginu.

Við erum löngu komin langt yfir þolmörk. Ég minni á að kannanir hafa sýnt að allt að 85% búa á Suðurnesjum telja að fækki ber hælisleitendum á svæðinu.“

Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.

Til máls tók Guðbergur Reynisson (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Mál 3 frá fundargerð velferðarráðs 13. febrúar:

„Í fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins 9. janúar 2024 sem svarað er í velferðarráði 13. febrúar sl. kemur fram að fækka átti í samræmdri móttöku flóttafólks úr 300 niður í 150 árið 2023 en raunin er að 31. desember 2023 voru 264 í samræmdri móttöku og því hefur fækkunin einungis verið 36 einstaklingar.

Einnig kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd eru 1.119.

Það eru því 1.383 flóttamenn í Reykjanesbæ um síðustu áramót.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að miklu, miklu fastar verði stigið niður í þessum málaflokki.“

Guðbergur Reynisson, Margrét Sanders og Alexander Ragnarsson, Sjálfstæðisflokki.

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Margrét Þórarinsdóttir, Kjartan Már Kjartansson, Hjörtur Magnús Guðbjartsson, Margrét A. Sanders og Bjarni Páll Tryggvason.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 429. fundar velferðarráðs 13. febrúar 2024

5. Fundargerð atvinnu- og hafnarráðs 13. febrúar 2024 (2024010206)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Hjörtur Magnús Guðbjartsson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 283. fundar atvinnu- og hafnarráðs 13.02.24

6. Fundargerð menntaráðs 16. febrúar 2024 (2024010202)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Sverrir Bergmann Magnússon.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Mál 1 frá fundargerð menntaráðs 16. febrúar:

„Umbót telur að endurskoða þarf fjárfestingaráætlun ársins vegna Stapaskóla. Ekki var gert ráð fyrir fjármagni í þriðja áfanga Stapaskóla enda miklar framkvæmdir vegna fjárfestinga þegar í gangi í tengslum við endurbætur í Holtaskóla og Myllubakkaskóla.

Aðstæður í bæjarfélagi okkar hafa þó verulega breyst á fyrstu vikum þessa árs. Fjöldi Grindvíkinga hugar að búsetu hér á svæðinu. Því miður eru innviðir bæjarins þegar komnir að þolmörkum og ljóst er að hraða þarf vinnu við styrkingu innviða til að geta tekið á móti þeim nágrönnum okkar sem hér vilja búa.

Enn meiri þörf er á rými í leik- og grunnskólum vegna aðstæðna í Grindavík. Nú þegar eru um 120 grindvísk börn í skólum og leikskólum Reykjanesbæjar og tæpur tugur barna 2ja ára og eldri að bíða eftir leikskólavistun. Auka þarf fjármagn í fjárfestingar svo hægt sé að hraða framkvæmdum, jafnvel með lántöku. Einnig mætti athuga möguleika á færanlegum einingum til viðbótar við þær sem þegar eru til svo hægt sé að mæta þessari þörf sem er til staðar.

Umbót vill lýsa yfir ánægju með nýráðningar á umhverfis og skipulagssviði sem eru að skila sér í betri eftirfylgni og greinargóðar upplýsingar um stöðu verkefna sem í gangi eru.“

Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 371. fundar menntaráðs 16. febrúar 2024

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:50.