686. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Merkinesi, Hljómahöll, 3. desember 2024, kl. 17:00
Viðstaddir: Bjarni Páll Tryggvason, Guðbergur Reynisson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Harpa Sævarsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Hjörtur Magnús Guðbjartsson, Margrét A. Sanders, Róbert Jóhann Guðmundsson, Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Bjarni Páll Tryggvason.
Að auki sat fundinn Hrefna Gunnarsdóttir ritari.
Sigurrós Antonsdóttir boðaði forföll, Hjörtur Magnús Guðbjartsson sat fyrir hana.
Díana Hilmarsdóttir boðaði forföll, Róbert Jóhann Guðmundsson sat fyrir hana.
Margrét Þórarinsdóttir boðaði forföll, Harpa Sævarsdóttir sat fyrir hana.
1. Fundargerðir bæjarráðs 21. og 28. nóvember 2024 (2024010003)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðirnar samþykktar 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 1492. fundar bæjarráðs 21. nóvember 2024
Fundargerð 1493. fundar bæjarráðs 28. nóvember 2024
2. Fundargerð stjórnar Eignasjóðs 21. nóvember 2024 (2024010212)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Guðný Birna Guðmundsdóttir, Margrét A. Sanders, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Helga Jóhanna Oddsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 14. fundar stjórnar eignasjóðs 21. nóvember 2024
3. Fundargerð menningar- og þjónusturáðs 22. nóvember 2024 (2024010209)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Sverrir Bergmann Magnússon, Helga Jóhanna Oddsdóttir og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 59. fundar menningar- og þjónusturáðs 22. nóvember 2024
4. Fundargerð sjálfbærniráðs 29. nóvember 2024 (2024010210)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Hjörtur Magnús Guðbjartsson.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 56. fundar sjálfbærniráðs 29. nóvember 2024
5. Mannréttindastefna Reykjanesbæjar - fyrri umræða (2024110392)
Valgerður Björk Pálsdóttir fylgdi mannréttindastefnu Reykjanesbæjar úr hlaði.
Forseti gaf orðið laust, enginn fundarmanna tók til máls.
Mannréttindastefnu Reykjanesbæjar vísað til seinni umræðu í bæjarstjórn 17. desember 2024.
6. Gjaldskrá Reykjanesbæjar 2025 (2024050440)
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir bæjarstjóri fór yfir helstu atriði framlagðrar gjaldskrár.
Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Gjaldskrá Reykjanesbæjar 2025 samþykkt 11-0.
7. Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2025-2028 – síðari umræða (2024050440)
Forseti gaf orðið laust um fjárhagsáætlunina. Til máls tók Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir bæjarstjóri sem fylgdi áætluninni úr hlaði og fór yfir breytingar frá fyrri umræðu 19. nóvember 2024.
Forseti gaf orðið laust.
Til máls tók Helga Jóhanna Oddsdóttir (D) og lagði fram eftirfarandi bókun minnihluta bæjarstjórnar Sjálfstæðisflokks og Umbótar:
„Í upphafi vilja Sjálfstæðisflokkurinn og Umbót þakka samstarfið við meirihlutann við vinnu fjárhagsáætlunar. Sú vinna er auðvitað með áherslum meirihlutans (Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar) að leiðarljósi en þó hafa nokkur áhersluatriði minnihlutans ratað þar inn.
Núverandi meirihluti hefur nú haft rúm tíu ár til að setja mark sitt á rekstur sveitarfélagsins og farið mikinn í yfirlýsingum sínum um árangur. Nú ber svo við að sú uppbygging innviða, sem búið var að fjárfesta í áður en núverandi meirihluti tók við völdum, er fullnýtt og því farið að reyna á fjárfestingargetu sveitarfélagsins.
Reykjanesbær á í miklum erfiðleikum með að standa undir fjárfestingaþörfum s.s. að ljúka við framkvæmdir við Myllubakkaskóla og Holtaskóla vegna stöðunnar og ekki hægt að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir. Einnig eru mörg brýn verkefni s.s. endurbætur á skólalóðum ekki samkvæmt tillögu starfshóps. Ekki er gert ráð fyrir hlut sveitarfélagsins í nýju hjúkrunarheimili í fjárhagsáætlun, ekki er hægt að hefja framkvæmdir við nýjan leikskóla Stapaskóla, sem lofað var af meirihluta fyrir kosningar og svo mætti lengi telja. Auk þessa má nefna að nauðsynlegum viðhaldsframkvæmdum er frestað s.s. í íþróttahúsinu við Sunnubraut og íþróttavallarhúsi Njarðvíkur. Á sama tíma er ekki gert ráð fyrir frekari kostnaði við að reyna að troða bókasafninu í okkar öflugu Tónlistarhöll sem er alls ekki lokið, heldur flutt á milli ára. Við teljum að kostnaðurinn við framkvæmdina sé vanáætlaður.
Í fjárhagsáætlunarvinnunni söknuðum við þess að rýnt væri ítarlega í almennan rekstur og tækifæri til hagræðingar sem finna mætti þar.
Sjálfstæðisflokkurinn og Umbót sitja hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar og vísa rökstuðningi vegna þess til ofangreindrar bókunar.“
Margrét Sanders, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Guðbergur Reynisson Sjálfstæðisflokki og Harpa Sævarsdóttir Umbót.
Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Margrét A. Sanders, Hjörtur Magnús Guðbjartsson, Valgerður Björk Pálsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Til máls tók Bjarni Páll Tryggvason (B) og lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarstjórnar:
„Jákvæð rekstrarniðurstaða í miklu framkvæmda- og vaxtarumhverfi í Reykjanesbæ.
Í nýsamþykktri fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2025 er gert ráð fyrir rúmlega 200 m.kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu fyrir A-hluta bæjarsjóðs og tæplega 1.400 m.kr. í samstæðu A og B hluta.
Áætlunin gerir ráð fyrir að Reykjanesbær skili áfram rekstrarafgangi þrátt fyrir ýmsar ytri áskoranir síðustu misseri t.d. vegna jarðhræringa, hárra stýrivaxta og verðbólgu. En nú eru vextir að lækka og vonir eru uppi um að sú jákvæða þróun haldi áfram þar til jafnvægi er náð.
Ekki sér fyrir endann á þeirri gríðarlegu fólksfjölgun sem hefur verið í Reykjanesbæ síðustu ár sem gerir það að verkum að framkvæmdaþörf er áfram mikil. Við höldum mikilvægri innviðauppbyggingu áfram á sama tíma og við leggjum okkur fram við að veita íbúum góða þjónustu og tryggjum að það sé áfram eftirsótt að búa í Reykjanesbæ.
Helstu áherslur og verkefni á árinu 2025:
• Í byrjun ársins 2025 verður sundlaugin í Stapaskóla tekin í notkun og Stapasafn sem er seinni hluti annars áfanga. Áætlað er að bjóða þriðja áfanga út á seinni hluta ársins sem er leikskólahluti Stapaskóla fyrir 120 börn.
• Áfram verður unnið með snemmtækan stuðning og inngildandi menntun m.a. með því að fara í átak við að fækka börnum sem bíða eftir athugunum hjá sálfræðingum hjá skólaþjónustu og með því að byggja áfram upp sértæk námsúrræði í skólunum.
• Innleiddar verða tillögur starfshóps um bættar starfsaðstæður í leikskólum.
• Nýir leikskólar við Drekadal í Dalshverfi III og Asparlaut í Hlíðarhverfi verða teknir að fullu í notkun fyrir 120 börn hvor.
• Áætlað er að koma fyrir færanlegum kennslustofum í eigu sveitarfélagsins á lóðum leik- og grunnskóla þar sem brýnust þörf er til að mæta mikilli fjölgun nemenda.
• Áfram verður haldið með endurbyggingu á Myllubakkaskóla og Holtaskóla auk annarra viðhalds- og endurbótaverkefna í stofnunum sveitarfélagsins sem falla undir fjárfestingar eignasjóðs.
• Fjármagn verður áfram sett í skólalóðir sem og í umferðaröryggi barna.
• Fjármagn er áætlað í frumhönnun grunnskóla á Ásbrú og í Hlíðarhverfi.
• Undirbúningsvinna heldur áfram við uppbyggingu íþróttamannvirkja á Afreksbraut á næsta ári í samvinnu við íþróttafélögin. Innflæði fjármagns í uppbyggingarverkefni á þróunarreit mun renna inn í það gríðarlega stóra og mikilvæga verkefni.
• Unnið verður að viðhaldi í sundlaug og búningsklefum í Sundmiðstöðinni.
• Fjármagn verður setti í seinni áfanga endurnýjunar tækja og búnaðar Fimleikadeildar Keflavíkur.
• Aðalsafn bókasafns Reykjanesbæjar verður opnað í Hljómahöll snemma á nýju ári en undirbúningur þess er í fullum gangi auk þess að nútímaleg uppfærsla verður gerð á sýningu Rokksafnsins.
• Aðstaða leikmanna knattspyrnudeildar UMFN verður bætt.
• Stuðningur við heilsueflandi samfélag heldur áfram með hvatagreiðslum fyrir börn og ungmenni á aldrinum 4-18 ára og fyrir íbúa 67 ára og eldri.
• Frístundastefna fyrir íbúa á öllum aldri mun verða innleidd og opnuð verða fleiri útibú Fjörheima í hverfum í samstarfi við skólastjórnendur.
• Fjögur ný smáhús verða byggð fyrir íbúa með fjölþættan vanda sem verður viðbót við þau átta sem nú þegar eru til staðar auk þess sem þjónusta verður aukin við notendur þeirrar þjónustu.
• Uppbygging á nýju hjúkrunarheimili heldur áfram sem stendur til að opna í lok árs.
• Reykjanesbær mun áfram vinna að innleiðingu stafrænna lausna og framfylgja markaðsstefnu bæjarins.
• Starfsaðstaða í Ráðhúsi Reykjanesbæjar verður bætt en húsnæðið þarfnast bæði viðhalds og uppfærslu í takt við fjölgun starfsmanna og þörf fyrir vinnuumhverfi sem uppfyllir kröfur um aðbúnað starfsmanna.
• Undirbúningur fer af stað fyrir uppbyggingu nýs miðbæjarkjarna á Akademíureitnum.
• Uppbygging í Njarðvíkurhöfn heldur áfram sem mun stórbæta aðstöðu á svæðinu og auka möguleika á atvinnuuppbyggingu fyrir hafnsækna starfsemi.
Þessi verkefni eru einungis hluti af fjölda annarra veglegra verkefna en heildarfjárfestingar í nýframkvæmdum Reykjanesbæjar verða um tveir milljarðar á næsta ári.
Áfram er lögð áhersla á ábyrgan rekstur og skynsemi í vinnu við fjárhagsáætlun sem unnin var í miklu og góðu samstarfi meiri- og minnihluta bæjarstjórnar. Viljum við bæjarfulltrúar þakka starfsfólki Reykjanesbæjar fyrir þeirra góðu vinnu og óskum við þeim og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.“
Bjarni Páll Tryggvason (B), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Hjörtur Magnús Guðbjartsson (S), Róbert Jóhann Guðmundsson (B), Sverrir Bergmann Magnússon (B) og Valgerður Björk Pálsdóttir (Y).
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlega rekinna stofnana 2025-2028 er samþykkt 7-0 með atkvæðum bæjarfulltrúa Beinnar leiðar, Framsóknarflokks og Samfylkingar. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Umbótar sitja hjá.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:15.