687. fundur

17.12.2024 17:00

687. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Merkinesi, Hljómahöll, 17. desember 2024, kl. 17:00

Viðstaddir: Alexander Ragnarsson, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Guðbergur Reynisson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Hjörtur Magnús Guðbjartsson, Margrét Þórarinsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Bjarni Páll Tryggvason.

Að auki sat fundinn Hrefna Gunnarsdóttir ritari.

Sigurrós Antonsdóttir boðaði forföll, Hjörtur Magnús Guðbjartsson sat fyrir hana.
Margrét A. Sanders boðaði forföll, Alexander Ragnarsson sat fyrir hana.

1. Fundargerðir bæjarráðs 5. og 12. desember 2024 (2024010003)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Guðný Birna Guðmundsdóttir og Hjörtur Magnús Guðbjartsson.

Fundargerðirnar samþykktar 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 1494. fundar bæjarráðs 5. desember 2024
Fundargerð 1495. fundar bæjarráðs 12. desember 2024

2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 6. desember 2024 (2024010213)

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 18. október til sérstakrar samþykktar.

Fyrsta mál fundargerðarinnar Umferðaröryggisáætlun (2024090566) samþykkt 11-0 án umræðu.

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 6. desember til sérstakrar samþykktar.

Áttunda mál fundargerðarinnar Baugholtsróló - niðurstaða grenndarkynningar (2024060191) samþykkt 11-0 án umræðu.
Níunda mál fundargerðarinnar Njarðvíkurbraut 25, fjölbýlishús - niðurstaða grenndarkynningar (2024040268) samþykkt 11-0 án umræðu.
Tíunda mál fundargerðarinnar Ný lóð við Hólmbergsbraut 4 (2024070242) samþykkt 11-0 án umræðu.
Ellefta mál fundargerðarinnar Sameining lóða - Bogatröð 10, 12, 14 og16 (2024120057) samþykkt 11-0 án umræðu.
Tólfta mál fundargerðarinnar Sólvallagata 12 - gistiheimili - endurupptaka máls (2024040445) samþykkt 11-0 án umræðu.
Þrettándi mál fundargerðarinnar Reglur um gistiheimili á íbúðasvæðum í Reykjanesbæ (2022100418) samþykkt 11-0 án umræðu.

Forseti gaf orðið laust.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Mál 3 frá fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. desember 2024

„Sveitarfélagið metur það svo að þó að dregið sé úr umfangi opinna svæða á þessum reitum, muni það ekki rýra notagildi eða almenn gæði svæðisins. Umhverfis og skipulagsráð er að veita heimild til að auglýsa tillögur að aðal- og deiluskipulagi, og á auglýsingartíma verður haldinn íbúafundur til að tryggja samráð við íbúana.

Umbót telur þó nauðsynlegt að leggja áherslu á að verja þau grænu svæði sem fyrir eru og tryggja að þau verði ekki skert umfram þörf. Opin græn svæði eru dýrmæt bæði fyrir íbúa og umhverfið og mikilvægt er að allar breytingar séu skipulagðar í samræmi við íbúana á svæðinu.

Umbót leggur til að haldin verði íbúakosning þar sem íbúar fá tækifæri að hafa áhrif á lokaákvarðanir varðandi skipulag svæðisins. Íbúakosning stuðlar að lýðræðislegri ákvarðanatöku og tryggir að sjónamið íbúa séu virt og metin að verðleikum. Við í Umbót teljum að samráð og íbúakosning séu lykilatriði í því að ná sátt um framtíðarskipulag og varðveislu grænna svæða, sem er nauðsynlegt fyrir lífsgæði og sjálfbæra þróun Reykjanesbæjar.“

Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.

Til máls tóku Guðbergur Reynisson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 352. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 6. desember 2024

3. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 10. desember 2024 (2024010207)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Til máls tók Alexander Ragnarsson (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Mál 3 frá fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 10. desember 2024

„Við fögnum góðri kynningu á starfsemi ÍRB. Það er líklegt að við gerum okkur ekki öll grein fyrri því hversu viðamikil starfsemi ÍRB er orðin. Nú fer bandalagið með aðild allra félaga innan þess bæði við ÍSÍ og UMFÍ sem kallar á að fulltrúar frá ÍRB þurfa að sækja bæði fundi og þing á þeirra vegum.

ÍRB sér um úthlutanir á Lottó tekjum og ýmsum styrkjum sem félög innan bandalagsins fá úthlutað. Að auki hefur bandalagið umsjón með og veitir stuðning við ýmislegt sem til fellur í starfsemi félaganna. Skyldur ÍRB hafa aukist til muna og þær kröfur sem gerðar eru til íþróttafélaga eru alltaf að aukast, hvort sem um er að ræða aðbúnað iðkenda eða rekstur og fjárhag.

ÍRB er stærsta íþróttabandalagið á Íslandi sem ekki hefur launaðan starfsmann á sínum vegum og er öll þessi vinna unnin af sjálfboðaliðum sem ekki mun ganga til lengdar í ljósi umfangsins. Eini kostur ÍRB í dag til að ráða launaðan starfsmann felur í sér að skerða verður styrki til aðildarfélaga. Slíkt myndi bitna á iðkendum og er því mikilvægt að komið verði til móts við bandalagið með fjárframlagi og því gert kleift að ráða starfsmann. Þannig verður það tryggt að bandalagið muni hafa áfram slagkraft til að styðja við það góða og öfluga íþróttastarf sem við höfum hér í Reykjanesbæ okkur öllum til heilla.“

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks Helga Jóhanna Oddsdóttir, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson.

Til máls tóku Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 189. fundar íþrótta- og tómstundaráðs 10. desember 2024

4. Fundargerð velferðarráðs 12. desember 2024 (2024010214)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Mál 2 frá fundargerð velferðarráðs 12. desember 2024

„Umbót er mótfallin því að nýr samningur verði gerður og mun ekki samþykkja nýjan samning um samræmda móttöku flóttafólks þrátt fyrir að hælisleitendum hafi fækkað að undanförnu. Það er löngu komin tími til að önnur sveitarfélög axli ábyrgð og taki við móttöku þeirra sem leita alþjóðlegar verndar eins og ég hef talað fyrir undanfarin ár. Þrátt fyrir að alþjóðlega vernd sé mikilvæg í neyðartilfellum, sýnir reynslan okkur að meirihluti þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi eru í raun að leita að atvinnu og betri lífskjörum. Það er ekki lögleg ástæða fyrir því að sækja um vernd. Hlutfallslega eru umsóknir um alþjóðlega vernd fleiri á Íslandi en í Svíþjóð.

Ég tel því mikilvægt að Reykjanesbær endurskoði þessa stöðu við samstarf við ríkið um áframhaldandi samræmda móttöku flóttafólks og leggi áherslu á jafnræði í móttöku þeirra sem sækja um vernd og skrifi ekki undir þennan samning. Það er löngu orðið tímabært að stíga fast til jarðar gagnvart ríkinu og hafna endurnýjun á þessum samningi. Við höfum ítrekað séð að treysta ríkinu í þessum efnum er áhættusamt og fyrri reynsla sýnir okkur að ríkisvaldið stendur ekki undir skuldbindingum.

Reykjanesbær hefur nóg á sinni könnu við að sinna íbúum sveitarfélagsins við að uppfylla lögbundna þjónustu. Við erum að glíma við hraða íbúafjölgun í ört stækkandi sveitarfélagi sem á erfitt með að halda í við nauðsynlega uppbyggingu innviða. Að bæta við frekari ábyrgð vegna móttöku flóttafólks skapar óásættanlegt álag á sveitarfélagið og þá þjónustu sem við berum ábyrgð á að veita.
Umbót stendur fast á því að segja nei við þessum samningi. Þessi ákvörðun snýst ekki um skort á samhug eðs skilningi heldur ábyrgð gagnvart íbúum sveitarfélagsin og nauðsyn þess að tryggja að innviðir standi undir grunnþjónustu. Það er löngu komin tími til að önnur sveitarfélög axli ábyrgð á þessum málaflokki.“

Margrét Þórarinsdóttir, Umbót

Til máls tók Helga Jóhanna Oddsdóttir (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Mál 1 og mál 2 frá fundargerð velferðarráðs 12. desember 2024

„Undanfarin ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt ríka áherslu á að minnka fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd sem Reykjanesbær tekur á móti og veitir þjónustu. Á árinu 2024, með dyggum stuðningi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, tókst loks að koma böndum á og dreifa móttöku umsækjenda betur og á fleiri sveitarfélög. Til að mynda var húsnæði JL hússins í vesturbæ Reykjavíkur tekið í notkun og hýsir allt að 400 manns, sem léttir vonandi nokkuð á stöðunni í Reykjanesbæ.

Samningsdrögin og viðaukar sem teknir voru fyrir í velferðarráði þann 12. desember sl., fela í sér talsverða óvissu sem felst ekki síst í því hver stefna nýrrar ríkisstjórnar í málefnum útlendinga verði. Við höfum því miður upplifað að fjöldatölur í samningum hafa engan veginn staðist hingað til og því full ástæða til að stíga varlega til jarðar við endurnýjun þeirra.

Í samningi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, um samræmda móttöku flóttafólks, sem nú stendur til að framlengja, sést að fallið hefur verið frá fyrri áherslum, að fækka þeim sem Reykjanesbær veitir þjónustu skv. samningnum niður í 100, og gerir samningurinn ráð fyrir að Reykjanesbær veiti allt að 250 einstaklingum þjónustu í senn og hvergi er minnst á sameiginlegt markmið að fækka þeim.
Greiðslur ríkisins með þeim einstaklingum sem fá þjónustu í lengri tíma en eitt ár, eða allt að 3 ár, lækka verulega eftir fyrsta árið. Það er ljóst að sá hópur þjónustuþega, sem enn þarf á þjónustunni að halda að fyrsta ári loknu, hefur þyngri og hefur fjölþættari þjónustuþarfir en aðrir. Það kallar því á hærra þjónustustig fyrir hvern einstakling á árum 2-3, sem hlýtur að kalla á hærri greiðslur en ekki lægri eins og samningurinn gerir ráð fyrir.

Í ljósi þess að óvissa ríkir um hvernig skipan og hver stefna nýrrar ríkisstjórnar verður í útlendingamálum, teljum við rétt að samþykkja ekki endurnýjun og viðauka við samninga við Vinnumálastofnun um umsækjendur um alþjóðlega vernd annars vegar og við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um samræmda móttöku flóttafólks hins vegar á meðan sú staða er uppi.

Við teljum einfaldlega ekki ábyrgt að skuldbinda Reykjanesbæ með þessum hætti á meðan ekki er ljóst hvernig málum verður háttað.“

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks Helga Jóhanna Oddsdóttir, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson.

Til máls tóku Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir. Margrét Þórarinsdóttir, Valgerður Björk Pálsdóttir og Díana Hilmarsdóttir.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Guðbergur Reynisson og Alexander Reynisson greiða atkvæði á móti máli 1 Þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd – samningur og máli 2 Samræmd móttaka flóttafólks – samningur.

Bæjarfulltrúi Umbótar, Margrét Þórarinsdóttir situr hjá í máli 1 Þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd – samningur og greiðir atkvæði á móti máli 2 Samræmd móttaka flóttafólks – samningur.

Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 438. fundar velferðarráðs 12. desember 2024

5. Fundargerð atvinnu- og hafnarráðs 12. desember 2024 (2024010206)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Hjörtur Magnús Guðbjartsson.

Til máls tók Alexander Ragnarsson (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Mál 5 frá fundargerð atvinnu- og hafnarráðs 12. desember 2024

„Það er okkar hlutverk sem kjörinna fulltrúa að tryggja sem bestar samgöngur fyrir íbúa og fyrirtæki í Reykjanesbæ. Atvinnusvæði okkar nær frá Reykjanesi yfir í Helguvík með nokkrum áherslu svæðum þar á milli. Það er því gríðarlega mikilvægt að við tryggjum að ekki verði lokað á vegtengingar sem nú þegar eru til staðar til að hamla ekki frekari atvinnuuppbyggingu og greiðum samgöngum til og frá Reykjanesbæ.

Greiðar og góðar samgöngur eru ein af megin forsendum þess að atvinnulíf dafni og að umferðaröryggi sé tryggt. Krafa Reykjanesbæjar þarf því að vera skýr. Það er á ábyrgð bæjarstjórnar að leggja þær línur svo tryggja megi hagsmuni Reykjanesbæjar til framtíðar.“

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks Helga Jóhanna Oddsdóttir, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson.

Til máls tóku Hjörtur Magnús Guðbjartsson og Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Tillaga lögð fram að vísa máli 6 Fitjabakki 8 til bæjarráðs. Samþykkt 11-0.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 292. fundar atvinnu- og hafnarráðs 12.12.2024

6. Fundargerð menntaráðs 13. desember 2024 (2024010202)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 380. fundar menntaráðs 13. desember 2024

7. Gjaldskrá fyrir byggingarleyfis-, skipulags- og þjónustugjöld (2024120125)

Forseti gaf orðið laust. Enginn fundarmanna tók til máls.

Gjaldskrá fyrir byggingarleyfis- og þjónustugjöld og gjöld vegna skipulagsbreytinga samþykkt 11-0.

8. Mannréttindastefna Reykjanesbæjar - síðari umræða (2024110392)

Forseti gaf orðið laust. Enginn fundarmanna tók til máls.

Mannréttindastefna Reykjanesbæjar 2024 samþykkt 11-0.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:25