266. fundur

27.01.2020 08:15

266. fundur barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 27. janúar 2020, kl. 08:15

Viðstaddir: Halldór Rósmundur Guðjónsson, Þuríður Berglind Ægisdóttir, Díana Hilmarsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir, Davíð Brár Unnarsson, María Gunnarsdóttir forstöðumaður og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Álagsmæling í barnavernd 2020 (2020010299)

María Gunnarsdóttir, forstöðumaður barnaverndar, kynnti niðurstöður álagsmælinga hjá starfsmönnum barnaverndar Reykjanesbæjar fyrir árið 2019. Álag hjá starfsmönnum barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar er mælt á þriggja mánaða fresti með því að nota Málavog, sem er mælitæki frá Barnaverndarstofu. Þetta mælitæki gefur góða mynd af vinnuálagi starfsmanna og gefur góða yfirsýn yfir stöðu mála hjá starfsmönnum. Niðurstöðurnar hafa verið nýttar til að skoða hvort tilefni sé til að jafna frekar málastöðu milli starfsmanna og hvort hægt sé að gera breytingar í vinnulagi starfsmanna. Á árinu 2019 var gert nýtt verklag varðandi könnun mála þar sem markmiðið var meðal annars að gera könnunarferli barnaverndarmála skilvirkara. Í framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar fyrir árin 2019-2022 á vegum ríkisins er gert ráð fyrir að óháður sérfræðingur geri könnun á notkun Málavogarinnar. Markmið þessarar könnunar er að meta hvernig Málavogin nýtist barnaverndarvinnu og hvort og hvernig barnaverndarnefndir bregðast við niðurstöðum Málavogar m.t.t. málafjölda og fjölgunar stöðugilda.

Á árinu 2019 var álag starfsmanna barnaverndarnefndar töluvert yfir viðmiðunarmörkum sem Barnaverndarstofa gefur út og er það áhyggjuefni. Auk þess sem árið var þungt starfsmannalega séð hjá barnavernd Reykjanesbæjar vegna breytinga í starfsmannahópnum og starfsmannaveltu. Það hefur kallað á aukið álag hjá þeim starfsmönnum barnaverndar sem hafa reynslu af barnavernd. Erfitt hefur verið að ráða starfsmenn með viðeigandi fagmenntun, félagsráðgjafa eða starfsmenn með reynslu í barnavernd, en það er grundvöllur þess að hægt sé að veita faglega þjónustu innan barnaverndar. Stöðugleiki í starfsmannahópnum er einnig mikilvægur til að mæta sem best börnum innan barnaverndar.

Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar telur mikilvægt að áfram verði fylgst með álagi starfsmanna barnaverndarnefndar og felur forstöðumanni barnaverndar að kynna niðurstöður álagsmælinga hjá starfsmönnum á þriggja mánaða fresti. Barnaverndarnefnd óskar einnig eftir samantekt frá forstöðumanni þar sem fram komi tillögur að hugsanlegum leiðum til úrbóta.


2. Fjölskylduheimili (2019110223)

Velferðarsvið Reykjanesbæjar hefur gert samning um rekstur fjölskylduheimilis í Reykjanesbæ fyrir barnavernd. Barnaverndarstofa hefur veitt leyfi til að vista þrjú börn á aldrinum 12-18 ára á heimilinu. Markmið með fjölskylduheimilinu er að reka heimili fyrir börn sem geta ekki búið heima hjá sér og veita þeim öryggi, umönnun, stuðning og vernd. Með því að reka fjölskylduheimili í Reykjanesbæ er verið að stuðla að sem minnstri röskun í lífi barnanna þar sem þau geta verið í sínu umhverfi, að styðja við þau í skóla/atvinnu, íþróttum og tómstundum. Um er að ræða tilraunaverkefni til eins árs og staðan verður endurmetin í desember 2020.

Barnaverndarnefnd fagnar stofnun fjölskylduheimilisins til að hægt sé að mæta enn frekar þörfum barna í Reykjanesbæ.

Fylgigögn:

Fjölskylduheimili - greinargerð


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:05. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 4. febrúar 2020.