104. fundur

11.12.2015 11:20

104. fundur menningarráðs Reykjanesbæjar var haldinn 10. desember 2015 að Tjarnargötu 12, kl. 14:00.

Mættir: Eva Björk Sveinsdóttir formaður, Baldur Guðmundsson aðalmaður, Sigrún Inga Ævarsdóttir aðalmaður, Dagný Steinsdóttir aðalmaður, Davíð Örn Óskarsson aðalmaður, Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi og Guðlaug María Lewis, fundarritari.

1. Skýrslur Rannsóknar og ráðgjafar um gestakannanir í Duus Safnahúsum og Rokksafni Íslands 2015 (2015120085)
Farið yfir efni skýrslna.

Lagðar voru fram skýrslur sem Rannsókn og ráðgjöf unnu eftir gestakönnunum sem gerðar voru í Duus Safnahúsum og Rokksafninu s.l. sumar.  Er þetta í annað skipti sem þessar kannanir eru gerðar á þessum stöðum og markmiðið er að átta sig á samsetningu hópanna sem sækja söfnin heim og afstöðu þeirra til safnanna með það í huga að þróa starfsemina í réttar áttir. Báðir staðir fengu hæstu einkunn fyrir þjónustu starfsfólks og áhugaverðar sýningar bæði árin en það sem helst mátti bæta voru safnbúðirnar og merkingar að stöðunum. Erlendir gestir frá Norður-Ameríku voru 41 % í Duus Safnahúsum og 36 % í Rokksafni. Bretar og gestir frá Suður- og Mið-Evrópu voru einnig fjölmennir á báða staði. Ráðið þakkar greinargóðar skýrslur og hvetur til þess að úrbætur verði gerðar þar sem við á.

2. Endurskoðun jafnréttisáætlunar Reykjanesbæjar (2015110048)

Jafnréttisáætlun Reykjanesbæjar var lögð fram.

3. Umræður um rekstrarsamninga vegna Svarta pakkhússins og Frumleikhússins 2016 (2015010095)

Nokkrar umræður urðu um rekstrarsamninga vegna Frumleikhússins og Svarta Pakkhússins og farið yfir þá samninga sem nú eru í gildi. Ráðið leggur  til að gerður verði áframhaldandi rekstrarsamningur við Leikfélag Keflavíkur vegna Frumleikhússins á svipuðum nótum og áður.  Ráðið ræddi einnig möguleikann á að gerður yrði nýr rekstrarsamningur við Myndlistarfélag Reykjanesbæjar vegna Svarta pakkhússins sem byggjast myndi á samkomulagi og samvinnu bæjarins annars vegar og félagsins hins vegar um endurgerð hússins með það í huga að koma báðum hæðunum í viðunandi horf. Menningarfulltrúa er falið að útvega kostnaðaráætlun fyrir næsta fund ráðsins í janúar.

4. Umræður vegna aðgangseyris í Duus Safnahús (2015010095)

Nokkrar umræður sköpuðust um ákvörðun bæjarráðs um að tekinn skyldi upp aðgangseyrir að Duus Safnahúsum árið 2016. Ljóst er að talsverðra breytinga má vænta með tilliti til gestafjölda, a.m.k. til að byrja með og lagði ráðið áherslu á að ýmsir hópar í samfélaginu s.s. börn og bótaþegar þyrftu  ekki að greiða háan aðgangseyri og einhverjir dagar yrðu auglýstir sem ókeypis dagar. Einnig var rætt um að hægt yrði að kaupa safnakort eða menningarkort sem fæli í sér góðan afslátt fyrir fasta kúnna. Duus Safnahús hafa á liðnum árum skapað sér hlutverk sem ein helsta  menningarstofnun bæjarfélagsins og vill ráðið að öllum ráðum verði beitt til að Duus Safnahús haldi því hlutverki en jafnframt verði tryggt að tekjur komi inn í aðgangseyri.

5. Þrettándaskemmtun 2015 (2015120086)
Farið yfir fyrirkomulag og dagskrá.

Ráðið leggur til að hefðbundin þrettándaskemmtun verði haldin 6. janúar í samstarfi við eftirfarandi aðila: Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Leikfélag Keflavíkur, Skátafélagið Heiðabúa, Karlakór Keflavíkur, Kvennakór Suðurnesja og Björgunarsveitina Suðurnes. 

Önnur mál
6. Önnur mál (2015010095)

a)  Ráðið þakkar kórum bæjarins fyrir glæsilegt tónleikahald á aðventunni.
b)  Ráðið þakkar söfnum bæjarins fyrir skemmtilega dagskrá fyrir börn á aðventunni.
c) Ráðið hvetur bæjarbúa til að mæta í sjónvarpssal og styðja við bakið á Útsvarsliði Reykjanesbæjar sem mætir liði Árborgar þann 8. janúar 2016.


Fleira ekki gert og fundi slitið.

Fundargerð fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 15. desember nk.