117. fundur

11.05.2017 00:00

117. fundur Menningarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 11. maí 2017 kl. 14:00.

Viðstaddir: Baldur Guðmundsson, Dagný Steinsdóttir, Davíð Örn Óskarsson, Guðbjörg Ingimundardóttir, Sigrún Inga Ævarsdóttir, Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi og Guðlaug María Lewis sem ritaði fundargerð.

1. Dagskrá sjómannadagsins (2017050102)
Sjómannadagurinn 11.júní verður haldinn hátíðlegur í Duus Safnahúsum eins og verið hefur undanfarin ár. Messa á vegum Keflavíkurkirkju verður kl. 11.00 í Bíósalnum, aldraðir sjómenn segja sögur og safnstjóri Byggðasafnsins kynnir sumarsýningar safnanna.

2. Dagskrá 17. júní (2017050102)
Drög að dagskrá 17. júní voru samþykkt og verður dagskráin með sama sniði og síðustu tvö árin. Eftir messu í Ytri-Njarðvíkurkirkju hefst skrúðganga við skátaheimilið sem endar í skrúðgarðinum í Keflavík þar sem hefðbundin hátíðardagskrá fer fram en eftir það fer fram fjölbreytt fjölskylduskemmtun. Ráðið hvetur félagasamtök í bænum til þátttöku með fjölbreyttum hætti.

3. Ferðamálastefna Reykjanesbæjar lögð fram til kynningar (2017050104)
Verkefnastjóri ferðamála kynnti Ferðamálastefnu Reykjanesbæjar og var hún samþykkt.

4. Mælaborð febrúar og mars lagt fram til kynningar (2017020113)
Menningarfulltrúi lagði fram tölur febrúar og mars í forföllum sviðsstjóra.

5. Bréf frá safnstjórum nokkurra listasafna lagt fram til kynningar (2017050105)
Safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar lagði fram til kynningar yfirlýsingu sem safnstjórar nokkurra listasafna sendu til Sambands íslenskra listamanna - SIM vegna umræðna um greiðslur til listamanna vegna sýningarhalds í opinberum söfnum en erindi frá SIM þar að lútandi var lagt fram til kynningar á fundi ráðsins 12. janúar s.l. Ráðið tekur undir svör safnstjóranna og vísar frekari umræðu til Sambands íslenskra sveitarfélaga.

6. Ljósanótt (2017050107)
Ráðið leggur til að umsjón og framkvæmd hátíðarinnar verði á sömu nótum og áður og Ljósanefndina skipi starfsmenn af hinum ýmsu sviðum bæjarins en um leið verði mikil áhersla lögð á þátttöku bæjarbúa sjálfra og leitað eftir þeirra framlagi. Ráðið hvetur fyrirtæki og félagasamtök til að setja mark sitt á hátíðina með virkum hætti, hvort heldur er með því að leggja til fjármagn eða einstaka viðburði og þar með að halda Ljósanótt sem einni af flottustu fjölskyldu- og menningarhátíðum landsins.

7. Styrkveitingar til ýmissa safna og menningarmála kynntar (2017050106)
a) Framkvæmdasjóður ferðamála veitti kr. 900.000 í verkefnið Skessan í Reykjanesbæ.
b) Safnasjóður Íslands veitti kr. 2.200.000 til verkefna Listasafns Reykjanesbæjar og 4.200.000 til verkefna Byggðasafns Reykjanesbæjar.
c) Húsafriðunarsjóður veitti kr. 600.000 í húsakönnun í Reykjanesbæ, 1.500.000 í endurgerð Gömlu búðar og 4.000.000 í endurgerð Fischershúss.
Ráðið fagnar þessu aukna fjármagni til menningarmála í bæjarfélaginu.

8. Önnur mál
a) List án landamæra – Ráðið þakkar öllum þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd verkefnisins Hljómlist án landamæra sem haldin var á sumardaginn fyrsta. 
b) Listahátíð barna – Ráðið þakkar öllum þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd Listahátíðar barna sem opnuð var 4.maí og stendur nú sem hæst. 
c) Sumarsýningar í Duus Safnahúsum verða opnaðar föstudaginn 9.júní kl. 18.00 og hvetur ráðið bæjarbúa til að mæta og sjá hvað þar verður í boði.


Fleira ekki gert og fundi slitið. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 16. maí 2017.